09.05.1988
Neðri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7849 í B-deild Alþingistíðinda. (5981)

454. mál, viðskiptabankar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra tillögu frá hv. 4. þm. Norðurl. e. þar sem hann færi fram á sömu meðferð mála í öðrum bönkum og var viðhöfð í Útvegsbankanum vegna þess að hann sá ástæðu til þess að nota Hafskips/Útvegsbankamálið til réttlætingar á breytingu á bankalögunum. Ég vil gjarnan að hv. þm. færi fram á athugun á öðrum bönkum vegna þess að ég veit að það eru einstaklingar í öðrum bönkum sem skulda kannski tvöfalt hærri upphæð og ekki með betri tryggingum í öðrum bönkum. (SJS: Ein vitleysa réttlætir ekki aðra vitleysu.) Nei, en það er sama. Þessi málflutningur á bara ekki rétt á sér í sambandi við þetta frv.

En frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 804, er að mörgu leyti athugavert og alls ekki hættulaust. Ég vildi t.d. gjarnan vekja athygli á 1. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

„Bönkum og viðurkenndum fjármálastofnunum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis skal þó heimilt að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár.“

Nú er Ísland þannig land að við höfum verið hér með erlent lánsfé með ríkisábyrgð eða ríkisbankaábyrgð. Hér er verið að breyta yfir í eigin ábyrgð, eins og kemur fram í frv., fjármagnseiganda á því lánsfé sem hann lánar á Íslandi. Segjum nú svo að það sé mögulegt. Þá kemur spurning til hæstv. bankamálaráðherra: Hvernig á arður þessara aðila að meðhöndlast? Það vantar í frv. Það fjárfestir enginn erlendur maður erlendis, Ísland verður erlendis fyrir þann mann, nema það sé öruggt að afraksturinn eða stofnfjárupphæðin komi til baka í heimalandið hvenær sem kallað er á hana, hvernig sem ástandið er í efnahagsmálum í viðkomandi landi. Svo það vantar hér inn í frv. meðhöndlun á hagnaði og möguleikunum til þess að viðkomandi endurkalli sitt „kapítal“ þegar hann telur rétt að gera svo.

Ég vil líka gera athugasemd við 2. gr. Ég held að afskaplega erfitt væri fyrir bankaráð, sem gefur umsögn um lánveitingar eða reglur í útlánum, að fara ekki að ráðleggingum bankastjóranna. Ég vil benda hér aftur á það sem hér stendur í 2. gr.: „Í stað „Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu“ komi: Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Reglur þessar skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega og skulu þær sendar bankaeftirlitinu sem láta skal í té álit á þeim hverju sinni.“

Ég vil vara við því að gera ekki greinarmun þarna á starfsemi bankaráðs og bankastjórnar. Það er mjög mikill munur á störfum bankaráðs og bankastjórnar. Bankaráð á frekar að setja bankastjórn reglur og hafa svo eftirlits með að þeim sé framfylgt og hlýtt. En þegar bankastjórn, sem er yfirleitt sterki aðilinn má segja í starfseminni sem slíkri, gerir einhverjar tillögur um útlánaupphæð eða reglur o.s.frv. þá er ég ansi hræddur um að bankaráðið sé verr útbúið, verr vopnum búið til þess að breyta því sem fram kemur frá bankastjórunum heldur en menn gera sér grein fyrir. Þannig að ég hefði álitið að bankastjórnin eða bankastjórarnir, bankastjórarnir eru bankastjórnin, eigi ekki að setja sjálfum sér reglur eða gera tillögu um útlánaupphæðir o.s.frv. Það á bankaráðið að gera. Bankastjórarnir eru ekkert annað en starfsmenn sem eru ráðnir eins og hver annar starfsmaður. Bankaráðið er kosið af eigendum bankans ef það er hlutafélagabanki eða af Alþingi ef það er ríkisbanki og þar skilur á milli starfsmanns og kjörins manns, fulltrúa eigenda hverjir sem eru eigendur.

Þriðja greinin er eðlileg og sjálfsögð og ég geri ráð fyrir að henni hafi alltaf verið framfylgt. Þó má segja að það gildi nákvæmlega það sama fyrir einkabanka og ríkisbanka hvað það eftirlit snertir, nákvæmlega það sama því að markaðurinn sem bankarnir vinna á er sami markaðurinn, það er jú almenningur í landinu.

Og þá kemur 5. gr. Ég verð að segja alveg eins og er að það er ekki sterk peningastofnun sem þarf að nota 65% af eigin fé til þess að vinna sín störf, þ.e. í bókfært andvirði fasteigna og búnaðar sem viðskiptabankinn notar til starfsemi sinnar. Ef það fer yfir 65% af eigin fé bankans skal hlutfallið fara stöðugt lækkandi á þessu tímabili. Ég mundi nú halda að bankinn væri hreinlega á kúpunni hvað ábyrgðina snertir ef hann væri með 65% eða hærra þannig að ég held að þarna sé líka punktur sem þarf að athuga.

Ég hefði gaman af því að fá upplýsingar um stöðu Landsbanka Íslands, upplýsingar um skuldara þar. Hverjir eru stærstu skuldararnir? Hvað skulda þeir og hvað er á bak við þessar skuldir? Ég sagði áðan að ég hefði upplýsingar um það að einn einstaklingur skuldar um 1000 millj. kr. og hann er sá eini sem ég get um hér. Hvað skulda stóru fyrirtækin? Hvað skulda þeir sem eru í beinum viðskiptum, viðskiptaaðilar við Seðlabankann? Það skyldi þó aldrei vera að það væru fleiri en einn Útvegsbanki á Íslandi? Hverjir eru það sem skulduðu Útvegsbankanum mismuninn á því sem Útvegsbankinn tapaði á Hafskip úr því að Hafskip kom hérna til tals? Og 2000 millj. eða hvað það er sem ríkissjóður þurfti að yfirtaka? Ég óska eftir upplýsingum um það frá bankamálaráðherra. Þetta er bein spurning og ég óska eftir að hann svari áður en þingi lýkur.

En ástæðan fyrir því að ég stóð upp er 1. gr. Það kemur fram í athugasemdum við frv. að með því móti sem þar er lagt til kemur erlent áhættufé í stað lánsfjár að nokkru leyti auk þess sem þessi breyting greiðir fyrir öflun þekkingar á viðskiptasambandi erlendis sem erlendir hluthafar gætu miðlað til íslenskra banka. Á tímum hraðstígrar tækniþróunar og samkeppni gæti þetta eflt íslenska bankastarfsemi.

Ég vil benda á að lögin eins og þau eru hér, mundu viðkomandi erlendir aðilar, sem hugsanlega verða það vitlausir að fara að fjárfesta í landi sem tekur við erlendu fé að láni og hefur gert í langan tíma gegn ríkisábyrgð eða ríkisbankaábyrgð, aldrei taka áhættuna eða lána það án þeirrar ábyrgðar, það segir sig sjálft, þeir mundu aldrei gera það ef þeir hefðu ekki leið til að bakka út fyrirvaralaust. Hér er ekki „búrs“ sem þeir kalla, hér er ekki kauphöll, þar sem þeir gætu selt í hvelli sín bréf ef þeir ákveða að fara fyrirvaralaust út ef þeir hafa það á tilfinningunni að hér sé einhver skellur væntanlegur og hér er heldur ekkert um hvernig þeir fá til baka vextina eða arðinn af fjárfestingunni. Þannig að þetta frv. eins og það liggur fyrir gerir ekkert. Akkúrat ekkert. Það dregur engan að í fjárfestingu hér.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra, sem er sérfræðingur í þessum málum, skoði þetta betur á milli umræðna og ef virkilega einhver hugur er á bak við þetta frv., ef það er ætlunin að draga hingað fjármagn erlendis frá á þennan hátt, þá segir það sig sjálft að það verður að breyta þessu og bæta, betrumbæta.