12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

72. mál, æfingaflugvöllur á Selfossi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig langar til að taka undir þessa þáltill. með örfáum orðum. Það kemur margt til, fleira en það að Suðurlandsundirlendið sé nokkuð sjálfvalinn staður fyrir flugvöll þegar maður lítur á Íslandskortið og óvíða er nú plássið meira fyrir flugvelli. Mér sýnist till. skynsamleg og ég held að hún væri góð ráðstöfun núna í upphafi þeirrar 10 ára áætlunar sem áformað er að hrinda í framkvæmd við uppbyggingu flugvalla og flugsamgangna á Íslandi. Ég held að það sé ævinlega skynsamlegt að freista þess að láta á það reyna hvort ekki er hægt að notast við hluti sem fyrir eru frekar en að byggja upp aðra nýja ef um þetta tvennt er að velja. Mér þykir heldur óráðlegt, eins og reyndar má lesa út úr áætlunum Flugmálastjórnar, að setja peninga í uppbyggingu flugvallar, annaðhvort í Kapelluhrauni eða á Sandskeiði, án þess að það sé kannað til þrautar hvort t.d. Selfossflugvöllur, sem þegar er að mestu leyti uppbyggður og tilbúinn, gæti þjónað þessu hlutverki. Báðir þeir staðir aðrir sem nefndir hafa verið til sögunnar, Sandskeið og Kapelluhraun, hafa sína galla. Á Sandskeiði er þegar fyrir svifflugsstarfsemi og í Kapelluhrauni þyrfti að byggja frá grunni alla aðstöðu, auk þess sem fram kom í ræðu framsögumanns að þessir staðir hafa annmarka hvað varðar fluglínur til Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

En ég vil fyrst og fremst undirstrika að það væri skynsamleg ráðstöfun að láta á þetta reyna, kanna það fyrst hvort þessi uppbyggði flugvöllur á Selfossi geti þjónað þessu hlutverki. Það er gífurlegt verkefni fram undan í uppbyggingu flugsamgangnanna, 2–21/2 milljarðs kr. áætlun liggur þegar fyrir um uppbygginguna á næstu 10 árum og eru þá ekki inni í þeirri tölu ýmis stór mannvirki eins og flugstöð á Reykjavíkurflugvelli o.fl. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar og gerst talsmaður þess oftar við umræður sem snerta flugsamgöngur að menn leitist við að nýta sem best þau mannvirki sem þó eru fyrir í landinu og á það við hvort heldur sem um varaflugvöll eða æfingaflugvöll er að ræða. Ég tek þess vegna undir efni þessarar till. mjög eindregið, herra forseti, og legg til að hún fái skjóta afgreiðslu hér á Alþingi vegna þess að það er nauðsynlegt að þessi könnun liggi fyrir sem fyrst, í öllu falli áður en farið verður að ráðstafa fé til annarra hluta.