10.05.1988
Neðri deild: 100. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7857 í B-deild Alþingistíðinda. (5996)

360. mál, umferðarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég er að vísu langþreyttur að vera að tönnlast á fundasköpum, þeim sem viðhöfð hafa verið hér um langa hríð.

Hæstv. forseti hafði í þessu falli tekið fyrir til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu 2. gr. frv. og að sjálfsögðu byrjar hann á því að bera upp brtt. við hana. Síðan þurfti auðvitað að ljúka afgreiðslu þess dagskrárliðar, um 2. gr., en ekkert hægt að sulla neinu þar saman við.

Hér fer nú fram þessi múgasláttur í atkvæðagreiðslum. Hér á dögunum var borið upp frv., sem var 13 kaflar, í einu slengi ásamt með ákvæðum til bráðabirgða. Þetta er ekki heimilt samkvæmt viðteknum þingsköpum á Alþingi. Ég hef hvatt til þess í þingflokki okkar að forseti Sþ. geri gangskör að því að taka hæstv. forseta í læri um það með hvaða hætti framkvæma skuli þingsköp. Það er margt annað og fleira sem mætti nefna í þessu sambandi. Þau fóru að fara á flot, þingsköpin, hjá hv. fyrirrennara núv. hæstv. forseta á liðnum þingum en við þetta verður auðvitað ekkert unað. Þetta eru ekki svo margbrotnar venjur sem við höfum átt við að styðjast að það sé ástæða til þess að hafa þessi lausatök á um fundarstjórn. (SJS: Þingmaðurinn fer nú að fara í bankann. Hann þarf ekki að þola þetta lengi.) (ÁrnG: Þetta er óþolandi ræða.) Það er rétt, en þá hefur hv. 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson leyfi til þess að taka til máls og finna að málflutningi mínum. En ef ég hef eitthvað misfarið með það sem ég er hér að segja, þá vinsamlega bendi þeir þm. á það. Ég er aðeins að rifja upp þau fundasköp sem gilt hafa hér frá upphafi eftir því sem ég hef kynnt mér og hafði aðstöðu til þess að gera það og vinsamlega fara fram á að þeim sé hlýtt og eftir þeim farið. Það má furðulegt heita ef mönnum þykir að þá sé stungin tólg að menn fari allra vinsamlegast fram á að þeim sé framfylgt. Það hlýtur að vera algjört lágmark um stjórn þingsins að svo sé gert.