10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7860 í B-deild Alþingistíðinda. (6010)

434. mál, ríkisábyrgðir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér mun vera á dagskrá frv. til laga um breyt. á lögum um ríkisábyrgðir með síðari breytingum, 434. mál. Þetta er einhvers staðar í skattahækkanasúpunni frá því í fyrrasumar og ég hef verið að velta því fyrir mér, herra forseti, þegar þessi frv. koma hvert á fætur öðru inn í þingið, yfirleitt staðfestingar á brbl. frá því í sumar, um nýja skattstofna, hækkun á eldri skattstofnum og breikkun skattstofna o.s.frv., að það hefði verið til mikils hagræðis í þingstörfunum ef skattafrv. hefðu verið númeruð og tölusett og síðan hefði fylgt með listi fyrir hv. þm. þannig að þeir vissu hvar þeir eru staddir í skattadagatali hæstv. fjmrh. Rétt eins og við höfum hér í ræðupúltinu lista þar sem nöfnum þm. er raðað í stafrófsröð og með númerum hefði verið gagnlegt að hafa annan við hliðina þar sem skattafrv. hæstv. fjmrh. væru tölusett og númeruð. En þetta er alla vega einhvers staðar undir þessum málaflokki og lýtur að því að hækka álögur á áhættugjöld vegna ríkisábyrgðar. Í fyrsta lagi vegna einfaldrar ábyrgðar ríkissjóðs úr 1% í 1,5% og vegna sjálfskuldarábyrgðar ríkissjóðs úr 1,5% í 2%. Síðan eru teknir upp nýir gjaldstofnar á þjónustu banka, lánasjóða, lánastofnana og fyrirtækja sem þarna eru skattlögð líka með nýju gjaldi.

Fyrirvari minn lýtur að því að þó að hér geti í raun verið um fullkomlega eðlilegan skattstofn að ræða og þó öllu fremur að ég telji að gjald af þessu fagi geti verið nothæft stjórntæki í sambandi við erlendar lántökur er ég ekki viss um að sú útfærsla, sem hér er til lögð, nái tilgangi sínum. Ég bendi á að hér er í raun verið að fjalla um lög um ríkisábyrgðir, en þekkt dæmi eru um að ríkið er meðeigandi ásamt með öðrum aðilum að fyrirtækjum sem taka lán með þessum hætti og þá kemur ofur eðlilega upp, þar sem eignaraðilarnir deila með sér ábyrgðinni og ríkissjóður ber ekki nema hluta hennar sjálfur, sú krafa af hálfu hinna eignaraðilanna að þeir fái hliðstæð gjöld í sinn vasa fyrir þann hluta áhættunnar sem þeir bera. Það var að mínu mati ekki meiningin, þegar lögð voru á gjöld um ríkisábyrgðir og þau hækkuð, að sveitarfélög eða aðrir aðilar sem geta verið meðeigendur ríkisins að fyrirtækjum og borið með ríkinu út af fyrir sig einhverja áhættu af sjálfskuldarábyrgðum eða ábyrgðum af öðru tagi yrðu þá líka aðnjótandi tekna í þessu sambandi, enda kemur það í raun alls ekkert við þeirri hugmynd að nota þessi gjöld sem visst stjórntæki í sambandi við erlendar lántökur. Ég er sem sagt í raun fylgjandi því að þessi gjöld geti átt rétt á sér, en tel að sú útfærsla sem hér er lögð til orki tvímælis og hana hefði þurft að athuga nánar og set því þann fyrirvara við stuðning minn við frv.