10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7862 í B-deild Alþingistíðinda. (6017)

285. mál, sala hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi

Frsm. landbn. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Landbn. Nd. hefur fjallað um frv. til laga um heimild til að selja hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.

Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu frá landbn. Ed. og mælir með því að frv. verði samþykkt með eftirfarandi greinargerð, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt málið og mælir með því að frv. verði samþykkt með vísan til fyrirvara sem fram kemur í nál. landbn. Ed. á þskj. 923.“ Þar er fjallað um það að landbn. Ed. mæli með samþykkt frv., enda sé gengið út frá því að ábúandi Þóroddsstaðar framkvæmi nauðsynlega nýrækt vegna þeirra skipta sem samþykkt hafa verið milli jarðarinnar og Engihlíðar.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að láta þess getið að það er eðli málsins samkvæmt furðulegt að hið háa Alþingi skuli þurfa hverju sinni þegar seld er ríkisjörð að flytja um það frv. og fjalla um það og samþykkja. Spurning er hvort ekki væri hægt að hafa einhvern annan hátt á þessum málum.