10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7877 í B-deild Alþingistíðinda. (6025)

431. mál, virðisaukaskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er yfrið nóg um viðburðaríka daga hér á hv. Alþingi. Kannski er þetta frv. að mörgu leyti sérstakt vegna þess að búið er að skipa nefnd til þess að athuga það, en það er verið að strita við það núna síðustu daga þingsins að lögfesta frv. sem enginn hefur enn hugmynd um hvernig lagagreinar þess eiga í raun og veru að hljóða. Ég man ekki eftir því að það hafi nokkurn tímann gerst á hinu háa Alþingi að samþykkt séu lög og síðan sett milliþinganefnd til þess að athuga þau. Það hlýtur því að eiga að taka þetta upp í haust, eftir kosningar ef þær verða, og gjörbreyta frv. Nú á þetta ekki að taka gildi á þessu ári. Ég man ekki til þess að hægt sé að benda á nokkur dæmi um svona vinnubrögð. Þetta eru líklega hin nýju fyrirmyndar vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar sem hún þykist vera að taka upp á hinu háa Alþingi. Setja lög sem hún sjálf hefur ekki hugmynd um hvernig muni verka eða hvernig verða útfærð. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu atriði. Það leynir sér ekki hvert meginmarkmiðið er, þ.e. stefnan er að skattleggja jafnt brýnustu nauðþurftir manna á sama hátt og allt annað og að greiða fyrir innflutningi með því að verðið á innfluttum vörum verður lægra, og er orðið, heldur en áður var.

En svo er eitt mikilvægt atriði sem ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að, ef hann er nokkuð farinn að átta sig á því frekar en ýmsu öðru: Hvernig verður með þann lager sem heildsalar eiga, kannski er allt í lagi með þá, en það eru verslanir, t.d. kaupfélögin úti um land, sem eru í miklum erfiðleikum. Nú hljóta lagerar alls staðar að verða metnir og borga þarf virðisaukaskatt af því. Hvernig verður því komið fyrir? Er þetta kannski náðarstungan sem ætluð er samvinnufélögunum, dreifbýlisversluninni í landinu? Eða hvernig hafa hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin og ekki má gleyma formanni fjh.- og viðskn., ef hann má vera að því að hlýða á mál manna hér í þingsalnum, hugsað sér, eða hafa þeir ekkert athugað það. mál, hvernig verður farið með þær birgðir sem verða í verslunum, hjá heildsölum og öðrum þegar lögin taka gildi? Ekki getur verið að þeir sem fjársterkir eru geti flutt inn vörur í stórum stíl og komist hjá því að borga virðisaukaskatt af þeim? Mér sýnist í fljótu bragði, og vil fá skýringu á því, að einsýnt sé að þetta verði allt saman metið, og hvernig er þá fyrirhugað að fari um greiðsluna? Nú er það vitað að verslanir, sérstaklega kaupfélög, standa misjafnlega að vígi. Sumir hafa getað á eðlilegan hátt afskrifað lagerana en aðrir ekki. Ef minn skilningur er réttur á þessu máli kemur þetta þyngst niður á þeim sem verst standa.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði hér langt mál áðan og nefndi ýmis atriði sem þessari milliþinganefnd er ætlað að athuga. En ég hef ekki orðið var við að þetta atriði hafi verið rætt. Ef svo er þá hefur það farið fram hjá mér. Ég man ekki betur en að á síðasta aðalfundi Stéttarsambands bænda hafi matarskattinum verið mótmælt. Auðvitað er ekki hlustað á það. Landbúnaðurinn er ekki í náðinni hjá þeim sem ráða mestu í þessari ríkisstjórn.

Hvernig er svo með menninguna? Við hv. þm., ekki einungis fjh.- og viðskn., höfum hver og einn fengið bréf frá þessum aðilum.

Hvernig verður með húsbyggjendur? Það er auðvitað ekkert hugsað um það frekar en annað. Nú vitum við að það viðgengst við byggingar að ýmis vinna, t.d. smíðar hvers konar, jafnvel innréttingar ef þær eru unnar á byggingarstað, er ekki söluskattsskyld. Nú á að setja virðisaukaskatt á allt en borga svo til baka. Það verður auðvitað mikið skriffinnskubákn í kringum þetta. En halda menn virkilega, eru þeir svo bláir að þeir haldi að ekki séu einhverjar leiðir til að fara í kringum þessar reglur, a.m.k. reglurnar eins og þær birtast í ræðum hæstv. ráðherra á Alþingi?

Ég ætla ekki að tala langt mál, það hefur enga þýðingu. Við heyrum og sjáum að hv. stjórnarliðar eru mjög óánægðir í hverju málinu á eftir öðru en það glamrar alltaf í flokkshlekkjunum annað slagið þó að sumir hristi þá af sér í einstaka máli. Og þjóðin fylgist með því, þjóðin fylgist með handjárnunum sem eru hér á Alþingi í hinum ýmsu málum. Menn skrifa og tala og greiða svo atkvæði þvert á móti því sem á þeim er að heyra.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð í þessari umræðu. Ég vil endurtaka spurninguna til formanns fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Norðurl. v., um hvort hann hafi athugað hvernig það muni koma við kaupfélögin, eða dreifbýlisverslanirnar yfirleitt, þegar þau verða að borga virðisaukaskatt af vörubirgðum, eða ætlar hann að sjá til þess að þau þurfi ekki að borga það og hvernig verður þá þetta kerfi útfært? Er hv. þm. sáttur við þá aðferð að lögfesta frv. sem sýnilegt er að þarf að taka upp í veigamiklum atriðum áður en það tekur gildi, og jafnvel er búið að skipa milliþinganefnd til þess að athuga hvernig er hægt að útfæra það? Hefðu það nú ekki verið skynsamlegri og venjulegri vinnubrögð, sem við höfum báðir vanist hér á Alþingi, að fresta lagasetningunni til haustsins en streða ekki þetta nú? Ég sé ekki þýðinguna, nema skýringin sé sú að hæstv. fjmrh. og kannski einstaka ráðherrar aðrir séu búnir að hlekkja stjórnarliðið svo að þeir geti látið þá gera hvað sem er.