10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7902 í B-deild Alþingistíðinda. (6029)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gaf eina af sínum gagnmerku yfirlýsingum hér áðan. Hann hefur nokkrum sinnum áður gefið svona loforð hæstv. fjmrh. Hann gaf t.d. loforð hér úr ræðustóli á Alþingi og víðar á árinu 1986 og ég hygg líka á árinu 1987 um það að hans fyrsta verk ef hann kæmist í ríkisstjórn yrði að reka Jóhannes Nordal. Hvar er Jóhannes Nordal í dag? Er hann ekki í Seðlabankanum? Ég veit ekki betur.

Hv. þáv. þm. og formaður Alþfl., núv. hæstv. fjmrh., lofaði þjóðinni því fyrir síðustu kosningar að hans fyrsta verk ef hann kæmist í ríkisstjórn, næst á eftir því að reka Jóhannes Nordal, yrði að leggja á stóreignaskatt. Hvar er stóreignaskattur? Hann er ekki til - ja, hann er orðinn að matarskatti.

Og hæstv. fjmrh. sór og sárt við lagði á Alþingi fyrir tveimur árum síðan að virðisaukaskatt með svona prósentu mundi hann aldrei samþykkja, það kæmi ekki til greina, Alþfl. mundi aldrei samþykkja virðisaukaskatt með svona hárri prósentu. (Gripið fram í.) 24% sem þá voru til umræðu. Og hv. þm. talaði um að hann þyrfti að vera miklu lægri, þyrfti að vera ein 16–18% og ég get flett upp á því í ræðum sem eru hérna við næsta borð. (Gripið fram í: Í mesta lagi 18.) Já, í mesta lagi 18%. Nú flytur þessi sami hv. þm. og núv. hæstv. fjmrh., frv. um 22% virðisaukaskatt. (SvH: Það á að endurskoða það.) Já, það á að endurskoða það, hv. 4. þm. Austurl., að vísu.

Þarf ég að fara með meira af þessum loforðalista? Hafa menn mikla trú á því að þessi háreista yfirlýsing hér áðan: „Meðan sá sem hér stendur fær nokkru um ráðið þá mun hag menningarinnar á Íslandi vera borgið“ - hafa menn trú á því að það muni reynast betur en loforðið um að reka Jóhannes Nordal? Ég er ekki viss um það.

Ég held að það sé nær að skoða það hvernig þetta mál liggur fyrir. Og hvað sagði hæstv. fjmrh.? Hann fór með tugguna frá sérfræðingum sínum að það væri með öllu ástæðulaust að hafa áhyggjur af menningunni. Áhrif virðisaukaskattsins á menninguna yrðu óveruleg, hverfandi, engin ástæða til að hafa af þessu áhyggjur og í mörgum tilfellum mætti sjálfsagt segja að þetta yrði til bóta. Hvernig er þetta nú? Það hefur verið farið yfir það rækilega hér í umræðunum og lesnar upp tölur beint úr rekstri stofnana eins og Alþýðuleikhússins, Leikfélags Reykjavíkur, Íslensku óperunnar o.s.frv., sem sýna að þetta er stórkostleg ný skattlagning á þessa starfsemi. Eða vilja menn heyra aftur tölurnar frá uppfærslunni á Aidu? Ætlar hæstv. fjmrh. að segja það að nýr skattur upp á 3,5 millj. kr. á eina einustu óperuuppfærslu, jafnarðvænlegur atvinnurekstur og það er nú eða ábatasamur, sé bara ekkert til að hafa áhyggjur af, ekkert mál, hverfandi áhrif? Ég bið menn að hlífa hv. Alþingi við svona málflutningi.

Það þýðir ekki að neita staðreyndunum, hæstv. ráðherra, þó að það sé hægt að taka tölur úr Þjóðleikhúsinu með því að draga Þjóðleikhúskjallarann og alla sælgætissölu og allt sem þar fyrirfinnst inn í reksturinn og segja: Þetta skiptir ekki svo miklu máli fyrir Þjóðleikhúsið. Þetta er allt í lagi með menninguna af því að þar er eitt af örfáum fyrirbrigðum á ferðinni sem nýtur umtalsverðrar aðstoðar, stuðnings, auðvitað allt of lítillar. En þessi tvö til þrjú dæmi sem hægt er að finna með reikningskúnstum eru notuð hér til að reyna að slá ryki í augun á fólki, til að reyna að blekkja menn og segja að þetta sé allt í lagi með menninguna. Þetta er ekki allt í lagi með menninguna.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það heldur lágkúrulegt að hæstv. menntmrh. skuli gufa upp hér undir þessari umræðu, leka út úr þingsalnum þegar búið er að biðja hann að vera hér viðstaddan til þess að taka þátt í umræðum um áhrif virðisaukaskattsins á menninguna. Það er greinilegt að hugur fylgir máli hjá hæstv. ríkisstjórn. Eða vill hæstv. menntmrh. helst vera einhvers staðar annars staðar en hér í þingsalnum á meðan verið er að ræða um virðisaukaskatt á menningu? Það gæti verið.

Hæstv. fjmrh. segir að það sé ein góð regla sem megi nota í sambandi við virðisaukaskatt: þeim mun færri sem undanþágurnar séu þeim mun betra. Þá hlýtur maður að skilja hann sem svo að honum sé meinilla við þessar undanþágur sem hér eru fyrir inni í plagginu. Og hvað er það? Það er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla, félagsleg þjónusta svo sem leikskólar, barnaheimili, skóladagheimili, útfararþjónusta o.s.frv. Í 15 liðum, 14 í frv., 15 eins og það kom frá Ed., eru taldar upp þær margvíslegu undanþágur sem auðvitað eru í þessu frv. vegna þess að það er út úr öllu korti að tala þannig um hlutina að hægt sé að leggja þennan virðisaukaskatt á allar greinar þjóðfélagsins. Það er hvergi gert. Þannig að auðvitað eru heilir geirar undanskildir skattinum. Það liggur ljóst fyrir. Að tala svo hér eins og það setji allt á hvolf að bæta við einhverjum afmörkuðum sviðum í þjóðlífinu! Hver er eðlismunurinn á því að skilja t.d. leikhússtarfsemi undan og að skilja rekstur leikskóla, eða rekstur sjúkrahúsa? Það hljóta að koma upp nákvæmlega sömu vandamál, hæstv. fjmrh., þegar þú tekur ýmsar slíkar greinar sem eru hérna inni í frv. þínu og undanskildar. Þannig að þetta eru engin rök, hæstv. ráðherra, ekki nokkur rök.

Til viðbótar má svo segja það við hæstv. fjmrh., ef hann hefur ekki áttað sig á því, að það var auðvitað til mjög einföld aðferð í þessu efni. Ef það er svona erfitt í framkvæmd fyrir þessa snillinga í ráðuneytinu að leggja á virðisaukaskatt án þess að hann komi líka yfir menninguna og listirnar og bókaútgáfuna hvað er þá hægt að gera? Það er hægt að endurgreiða hann. Það er ofur einfalt. Rétt eins og ykkur datt í hug í desember með fiskinn. Er hæstv. ráðherra búinn að gleyma því þegar ríkisstjórnin fékk hugljómun og fann það út að hægt væri að endurgreiða hluta af söluskatti á fiski, neyslufiski almennings? Er ekki hægt að nota þessa hugljómun? Og segja þá sem svo: Ja, við skulum þá leggja virðisaukaskatt á menninguna til að einfalda málin en við endurgreiðum hann allan. Einfalt mál.

Hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin getur ekki skotið sér svona undan málinu. Það er ekki svona einfalt. Enda var þetta auðvitað svo aumingjalegt og hæstv. ráðherra lá svo lágt rómur að það var heldur dapurlegt að verða vitni að þessu hér áðan þegar hann var að reyna að rökstyðja þetta eina ferðina enn. Og hæstv. menntmrh. lekinn út úr þingsalnum svo ekki sé nú minnst á hæstv. landbrh. sem ekki hefur sést hér í allan dag og á þó að fara að leggja 22% söluskatt (Gripið fram í: Hann er að koma.) á allar framleiðsluvörur landbúnaðarins.

Munurinn á því, hæstv. ráðherra, að leggja virðisaukaskatt á menninguna og matinn með þeim hætti sem hér er gert og hinu að byrja á því að marka stefnu og segja: Við ætlum ekki að láta þessa kerfisbreytingu íþyngja neytendum í formi verðs á matvöru. Við ætlum ekki að láta þessa breytingu íþyngja menningunni. Hvernig förum við að því? Við gerum það svona: Við búum hérna til kerfi, annaðhvort endurgreiðslukerfi eða undanþágukerfi sem tryggir það að þessar greinar komi út á sléttu. Við göngum frá því kerfi, við skrifum það upp og við setjum um það lög. Svo leggjum við á virðisaukaskatt. — Þannig hefði átt að fara að þessu hæstv. ráðherra.

Það er eins og það séu álög hjá hæstv. fjmrh. að byrja ævinlega á vitlausum enda á öllum hlutum sem hann reynir að gera, hæstv. ráðherrann. Hvernig hefur þetta farið hjá honum í skattamálunum yfir höfuð? Hann lofaði fyrir kosningarnar stóreignaskatti, skatti á gróðapungana, skatti á fjármagnstekjurnar. Svo snerist þetta við og hann byrjar á matarskatti. Svona er þetta í hverjum málaflokknum á fætur öðrum. Það er eins og einhver hörmuleg álög hafi lagst á hæstv. ráðherrann sem gerir það að verkum að hann fer vitlaust að öllum hlutum, byrjar ævinlega á öfugum enda. Svo stendur hann hér í ræðustólnum hæstv. ráðherrann og neyðist til að rausa þessu upp úr sér: Ég mun sjá um það að menningin fari ósködduð frá þessu. En það er algjörlega autt blað um það hvernig á að fara að því. Það er ekki stafkrókur á blaði um það fyrir utan einn vesældarlegan tölulið í nefndaráliti sem segir að það eigi að athuga þetta með menninguna.

Þetta er engin frammistaða. Þetta er enginn málflutningur. Þetta eru engin rök. Þess vegna getur hæstv. ráðherra ekki vikið sér undan því og á ekki að vorkenna sjálfum sér þó að við hér í stjórnarandstöðunni segjum við hann nokkur vel valin orð af þessu tilefni. Svo lítill karl er jafnvel ekki hæstv. fjmrh. að hann þoli það ekki að talað sé við hann á íslensku meðan hún er enn þá notuð hér. Hve lengi það verður fer eftir því hve lengi og mikið þessi ríkisstjórn fær að vega að henni.

Herra forseti. Ég ætlaði að reyna að hafa þessa ræðu ekki mjög langa, ég talaði allítarlega fyrir minni afstöðu og nál. minni hl. fyrr í umræðunni, en ég verð að segja það að ég sá fyrir mér að ég hlyti að þurfa að lengja mál mitt um tíu mínútur fyrir hverja eina setningu sem hæstv. fjmrh. kom út úr sér áðan. Svo vesældarleg var nú hans málsvörn. Og þegar hann fór svo í vinnubrögðin og fór enn að reyna að hæla vinnubrögðunum þar sem fjh.- og viðskn. deildanna hafa neyðst til þess að setja niður á blað, önnur 11 og hin 7 sérstök tölusett atriði sem verði að skoða í sumar og laga til því þetta sé óbrúklegt eins og þetta er.

Ég hefði haft gaman af því að hv. 4. þm. Austurl., sem stundum leyfir sér að hafa skoðun á þingsköpum og vinnubrögðum í þinginu, hefði komið hérna í ræðustólinn og sagt um þetta nokkur vel valin orð. Finnst honum þetta vera vinnubrögð sem menn eiga að standa hver um annan þveran og hæla, að kasta svona til höndunum við lagasetningu á Alþingi Íslendinga að menn þurfi að lýsa því yfir fyrir fram og friða menn bæði í sínum eigin flokkum og úti í þjóðfélaginu með því að þetta sé allt í lagi? Verið þið rólegir því að þetta verður allt lagað í sumar. Þetta er auðvitað dapurlegt að horfa upp á.

Herra forseti. Ég fékk hér í hendur rétt áðan bréf og ég er að hugsa um að ljúka máli mínu og þessari umræðu um virðisaukaskattinn með því að lesa það eða vitna í það vegna þess að mér finnst það eiga ágætlega við. Kannski þröngvast einhver ljósglæta inn í sálarmyrkur hæstv. fjmrh. um það að það sem er á bak við svona hluti og verður fyrir þeim er lifandi fólk í þessu landi. Við hv. alþm. megum aldrei gleyma því að á bak við allan talnagrautinn og skýrslurnar og draslið er lifandi fólk sem verður fyrir þeim lögum og býr við þau lög sem við erum að setja, líka matarskatt, líka skatt á menningu og listir. Ég fékk í hendur bréf frá Blindrafélaginu, dags. 10. maí 1988.

„Ágæti þingmaður.

Við leyfum okkur að vekja athygli þína á meðfylgjandi samþykkt sem gerð var á aðalfundi Blindrafélagsins þann 7. maí sl. Við vonumst eftir að þú takir hana til vinsamlegrar athugunar.

Virðingarfyllst,

Halldór S. Rafnar,

framkvæmdastjóri Blindrafélagsins.“

Og hvað er nú Blindrafélagið að segja við ágæta alþm.? Það er að segja eftirfarandi með leyfi þínu, herra forseti:

„Aðalfundur Blindrafélagsins, Samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, haldinn laugardaginn 7. maí 1988 beinir eftirfarandi til ríkisstjórnar Íslands:

Við síðustu áramót tóku gildi ný lög um tollskrá og söluskatt þar sem undantekningarákvæðum frá söluskatti var mjög fækkað. Með breytingum þessum voru blindir og sjónskertir sviptir ákveðnum réttindum sem þeir höfðu notið í rúman einn og hálfan áratug. Réttindin voru í því fólgin að innflutningur á hjálpartækjum fyrir blinda og sjónskerta var undanþeginn tollum og í raun var viðurkennt að söluskattur væri ekki greiddur af þeim við tollafgreiðslu.

Nú bregður hins vegar svo við að hæstv. fjmrh. hefur fellt þann úrskurð að söluskattur skuli greiddur af öllum hjálpartækjum fyrir fatlaða og verði stofnunum eins og Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins og Sjónstöð Íslands séð fyrir aukafjárveitingu til að mæta þessum aukakostnaði.

Aðalfundur Blindrafélagsins leyfir sér að benda ríkisstjórn Íslands á að fleiri en opinberar stofnanir flytja inn hjálpartæki. Í mörgum tilvikum er hér um dýran búnað að ræða og getur það skipt sköpum um öflun þeirra að ekki séu innheimt af þeim opinber gjöld.

Aðalfundur Blindrafélagsins skorar á ríkisstjórnina að sjá nú þegar til þess að söluskattur verði án tafar afnuminn af öllum þeim hjálpartækjum sem Blindrafélagið flytur inn, enda selur Blindrafélagið engum hjálpartæki nema aðildarfélögum sínum eða öðrum einstaklingum sem hafa undir 10% sjón.

Þá bendir fundurinn á að sömu ákvæði ættu að gilda um sömu hjálpartæki til allra fatlaðra einstaklinga. Þá bendir aðalfundurinn jafnframt á að óeðlilegt er að heimta opinber gjöld af styrkjum sem veittir eru til tækjakaupa einstaklinga vegna náms eða starfa, skv. 19. gr. laga um málefni fatlaðra frá 1983, eins og nú virðist tíðkast.“

Undir þetta rita Arnþór Helgason og Halldór S. Rafnar.

Ég held að það sé ágætt fyrir hæstv. fjmrh. og hv. alþm. að gera sér grein fyrir því að á bak við þær ákvarðanir sem við erum að taka eru svona hlutir. Jafnvel þeir að menn fara að skattleggja hjálpartæki blindra og sjónskertra og fatlaðra. Og þó að það sé auðvitað gaman, hæstv. fjmrh., og gott fyrir ýmsa sem ekki nenna að leggja mikið á efri hluta líkamans að hafa hlutina einfalda og það sé út af fyrir sig ekkert vitlaus hugsun að reyna að hafa veruleikann sem einfaldastan í flestum tilfellum - hann verður að vísu leiðinlegur en hann verður að mörgu leyti auðviðráðanlegri - þá má þessi einfaldleiki ekki verða á kostnað réttlætis- og sanngirnissjónarmiða. Það er ég ansi hræddur um að sé að gerast hér í þessu máli.