10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7906 í B-deild Alþingistíðinda. (6030)

431. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu á lögum um nýtt tollakerfi og söluskatt var kveðið á um margvíslegar undanþágur að því er varðaði t.d. öryggisbúnað og hjálpartækjabúnað. Á því varð hins vegar misbrestur. Af hálfu fjmrn. var undirbúið frv. um breytingar á söluskattslögum nú þegar á þessu vori, sem ekki náði því í þeirri miklu málafjöld sem við erum að fást við að fá endanlega afgreiðslu, þannig að það bíður hausts. Í millitíðinni að því er varðar einstök mál sem upp koma í framkvæmd er ekki annar kostur til að leysa þau mál, eins og í því tilviki sem hv. þm. vék að, en með því að veita aukafjárveitingu til þess að greiða umrædd gjöld vegna þess að heimild til þess að fella þau niður er ekki fyrir hendi.

Það hendir stundum hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrím J. Sigfússon að fara nokkuð geyst í gífuryrðum og ásökunum í garð andstæðinga sinna, brigsla þeim um óorðheldni, ómerkilegheit, fjandskap við tiltekin góð málefni o.s.frv. Ég ætla ekki að svara þessu með öðru en því að biðja hv. þm. að fletta upp í starfsáætlun og stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar á þeim stað þar sem lýst er formum núv. ríkisstjórnar um skattkerfisbreytingar og upp er talið að hverju ríkisstjórnin stefndi að koma fram á árinu 1988 og 1989, telja það upp fyrir sjálfum sér og fara yfir þann lista og athuga vandlega hvað eftir er af honum þegar virðisaukaskattsfrv. hefur orðið að lögum. (SJS: Varð þetta plagg ekki til eftir kosningar?) Fyrst hv. þm. spyr þá beini ég því til hans einnig að gera á því nákvæman textasamanburð hvað stóð í stefnuyfirlýsingu Alþfl. fyrir kosningar og í starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Ég beini síðan einni spurningu til hv. þm.: Þegar hann væri búinn að skoða það og ganga úr skugga um efndirnar á því sem bæði er sagt í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun, væri hann þá enn reiðubúinn til þess að koma hér upp með stóryrðum og gassagangi og saka þann sem hér stendur sérstaklega um það að ganga á bak orða sinna og yfirlýsinga?

Ég hygg að þótt hv. þm. leiti víða í stjórnmálasögu Íslendinga þá finni hann ekki mjög víða dæmi um það að jafnkyrfilega og rækilega, lið fyrir lið, hafi verið staðið við það sem sagt var fyrir kosningar og í starfsáætlun á jafnskömmum tíma. Því næst væri rétt að benda hv. þm. á það að hann væri ekki að kvarta svona sáran eins og hann hefur verið að gera á öllu þessu þingi ef ekki hefði verið staðið við þau fyrirheit sem þarna voru gefin.