10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7907 í B-deild Alþingistíðinda. (6031)

431. mál, virðisaukaskattur

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð mörg að þessu sinni. Ég hef þegar sagt flest sem a.m.k. mér þykir að segja þurfi í þessu máli og sagt hug okkar kvennalistakvenna til matarskatts, kvótakerfis, draumsýnar hæstv. fjmrh. um menningarskattinn, um verðmætamat hæstv. ríkisstjórnar og um menningarstefnu hæstv. ríkisstjórnar.

En mig langar til þess að koma hér upp og leiðrétta mismæli mín hér áður. Mér var bent á að ég hefði farið rangt með tölur og þar sem ég veit að höggvið er eftir hverju orði, enda sjálfsagt að hafa hlutina rétta, þá vil ég endurlesa þær tölur því þar hefur einungis verið um mismæli að ræða. Ég var með blaðið fyrir framan mig og hef þar af leiðandi bara mismælt mig og vil gjarnan að þessar tölur fari réttar í þingtíðindi. Þar var um að ræða tölur frá Leikfélagi Reykjavíkur um áætlaða útkomu leikársins 1987–1988 annars vegar miðað við söluskattskerfi og hins vegar við virðisaukaskattskerfi.

Útgjöld án söluskatts eru 74 millj. kr. Útgjöld með söluskatti eru 4,5 millj. kr. Að viðbættum skattinum verða það 5,6 millj. kr. Fjárfesting er upp á hálfa millj. kr. Af því er 100 þús. kr. skattur, það verða 0,6 millj. kr. Gjöld alls eru því 80,3 millj. kr. Tekjur af miðasölu eru 40 millj. kr., aðrar tekjur 0,3 millj. kr. Tekjur alls eru því 80,3 millj. kr.

Aftur á móti með virðisaukaskattskerfinu — og enn er kannski ástæða til þess að ítreka að þarna var notað reikningsmódel fjmrn. sjálfs - þá lítur dæmið þannig út:

Útgjöld án virðisaukaskatts eru þau sömu, þ.e. 74 millj. kr. Útgjöld með virðisaukaskatti eru áfram 4,5 millj. kr. Skatturinn verður nú 1 millj. kr., það gera samtals 5,5 millj. kr. VASK sem bætist við vegna miðasölu er 6,1 millj. kr. Gjöld alls eru því 86,2 millj. kr., þ.e. breytt tekjuþörf Leikfélags Reykjavíkur er því 6 millj. kr. Það munu vera tölurnar við miðasölu sem ég hef haft vitlaust yfir áðan og vil þar af leiðandi leiðrétta þær tölur hér og nú og þar með er það skjalfest.

Örfá orð í viðbót enn til að koma í veg fyrir hártoganir. Ég var hér með dæmi áðan um kostnað og tekjur Íslensku óperunnar af uppfærslu óperunnar Aidu. Það er ástæða til að taka það fram að nokkrar breytingar hafa orðið á fjárhag Íslensku óperunnar. Hún naut nokkurs styrks í fyrra sem hún gat nýtt í uppfærslukostnað. Það gerir hún ekki lengur því að þó að hún hafi örlítið meiru úr að spila núna, fé sem Íslenska óperan fær frá ríkinu, þá er það bundið í samningi ríkisstjórnarinnar og Íslensku óperunnar til þriggja ára að sá styrkur fari til reksturs húss Íslensku óperunnar, þ.e. að standa straum af fasteignagjöldum, hita, rafmagni og launum þess starfsfólks sem þar vinnur allan ársins hring, þ.e. miðasölufólks, sviðsstjóra, framkvæmdastjóra, skrifstofufólks o.fl. En í ár er samkvæmt þessum samningi ekki ein króna til uppsetninga þannig að þó að Íslenska óperan hafi bæði fengið myndarlegan arf hér á árum áður sem er bundinn í steinsteypu og hafi núna gert þennan samning við íslensku ríkisstjórnina um fjárstyrk, þá er þetta allt bundið í húsinu og rekstri hússins og því ekki nokkrir peningar afgangs til uppfærslu. Þetta vil ég einungis ítreka hér til þess að það verði ekki notað til að hártoga hluti.

Enn einu sinni get ég ekki stillt mig um að benda á misfærslur sem eru hér í útreikningum fjmrn. um afkomu Þjóðleikhússins sem að vísu eru byggðar á áætlun. En þar sem það er aftur og aftur sagt hér að búið sé að reikna áhrif virðisaukaskattsins á Þjóðleikhúsið niður í núll og niður fyrir núll, þá vil ég enn benda á að það er gert með því að áætla allar tekjur Þjóðleikhússins af sölu miða og annarrar þjónustu 53 millj. kr. Það merkir að Þjóðleikhúsið hafi um 50 þús. áhorfendur á ári hverju. Það hefur aldrei farið svo lágt niður í fjölda áhorfenda. Oftast hefur það verið á bilinu 80 og hæst upp í 100 þús. og 120 þús. áhorfendur, þannig að sú tala sem þarna er reiknaður af virðisaukaskattur er kannski helmingi of lág. A.m.k. er hún talsvert of lág og þar af leiðandi er þessi útkoma, sem gerir ráð fyrir því að Þjóðleikhúsið beinlínis hagnist um 600 þús. kr. á þessari skattkerfisbreytingu, röng.

Hæstv. fjmrh. bað áðan þá sem áhyggjur hefðu af menningarmálum þjóðarinnar að velta fyrir sér málinu í samhengi. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að gera slíkt hið sama, að velta fyrir sér áhrifum virðisaukaskatts á menningu landsins í samhengi, sínu eigin samhengi en ekki með því að draga alls óskylda þætti þar inn, og skýla sér ekki á bak við það að það þýði að allur skemmtanaiðnaður fylgi með, og allra síst að gera mér og öðrum upp þau orð að við séum að biðja um sömu undanþágu fyrir allan skemmtanaiðnað landsins. Ég uni því að við skulum vera ósammála, en ég uni því ekki að látið sé að því liggja aftur og aftur að ég og aðrir séum að biðja um undanþágu fyrir allan skemmtanaiðnað landsins.

Ég vil ítreka að ég geri þær kröfur til íslenskra stjórnvalda að þau skilgreini sína stefnu í menningarmálum og hliðri sér ekki hjá því sjálfsagða hlutverki að gera það innan frv. en ekki með einhverjum duldum leiðum utan þess vegna þess að frv. sjálft er til vitnis um það hvað hæstv. ríkisstjórn þykir ástæða til að taka þar fram um undanþágur. Ef það er gert á einhvern annan máta með endurgreiðslum, sem vissulega er hægt að koma við, þá hefur hæstv. ríkisstjórn skotið sér undan þeirri ábyrgð að skilgreina sjálf sína menningarstefnu, skilgreina sjálf hvað hún álítur að sé heppilegt og æskilegt og nauðsynlegt fóður fyrir íslenska þjóð og festi það í lög í þessu frv. þannig að þar megi það birtast á prenti öllum til sýnis og óvefengjanlegt.