10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7913 í B-deild Alþingistíðinda. (6036)

431. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við framhaldsvinnuna varðandi staðgreiðslukerfið voru góð. Vinnubrögðin eru hin sömu, þ.e. menn setja upp milliþinganefnd og ætla henni góðan tíma, bæði til framhaldsvinnu og kynningar á málinu almennt. Sá er munur á að um staðgreiðslukerfið tókst pólitísk samstaða. Allir flokkar á Alþingi studdu þá kerfisbreytingu í grundvallaratriðum. Þess vegna var það rökstudd niðurstaða af því að fulltrúar allra flokka sem voru málinu hlynntir tækju þátt í útfærslunni. Það er álitamál hvort það er rökrétt niðurstaða, ef það liggur fyrir að stjórnarandstaðan lýsi sig andvíga þessari breytingu, að fela henni að hafa hönd í bagga með og gera hana jafnframt ábyrga á framkvæmdinni. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það út af fyrir sig, það er álitamál. En þetta er munurinn að því er varðar staðgreiðslukerfið og virðisaukaskattinn. Því miður hefur ekki tekist þessi pólitíska samstaða sem var í fyrra tilvikinu milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Mikið meira get ég ekki sagt af því tilefni.

En úr því að ég er hingað kominn vil ég nota tækifærið og leiðrétta eitt smáatriði sem er þetta: Fjmrn. lét gera samantekt á afkomu Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar miðað við afkomu þessara stofnana skv. fjárlögum 1988 og miðað við 22% virðisaukaskatt. Áætlun um tekjur Þjóðleikhúss af aðgöngumiðaverði voru að sjálfsögðu áætlanir Þjóðleikhússins sjálfs. Þannig að ef menn eru að rengja þessar tölur eru menn að rengja tölur sem eru frá Þjóðleikhúsinu sjálfu, vegna þess að þetta eru áætlunartölur fjárlaga og sá þáttur fjárlaganna, sem varðar mat á eigin tekjuöflun, kemur frá stofnuninni sjálfri.