10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7914 í B-deild Alþingistíðinda. (6040)

431. mál, virðisaukaskattur

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Áður en ég kem að greinargerð að atkvæði mínu um þetta frv. vil ég segja eina setningu um umferðarlögin sem voru keyrð áfram hér fyrr á fundinum í óþökk margra stjórnarliða og hún er þessi: Eru engin takmörk fyrir því hjá hæstv. ráðherrum að berja áfram óþurftarmál?

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem Alþingi afgreiðir frv. til l. opið í báða enda. (Forseti hringir.) Þetta er greinargerð, herra forseti, fyrir atkvæðagreiðslunni. Það á við um þetta frv., og það er nú kannski kostur við það, úr því að ekki var búið að ná um það fullu samkomulagi í stjórnarliði og færa það í frambærilegan búning ef það er þá hægt. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. beggja deilda kemur fram að ákveðið er að skipa milliþinganefnd til að fara yfir ýmis álitamál í sumar, þar á meðal um skattprósentuna. Að mínum dómi eiga skattþrepin að vera tvö, annað með lægri skatti, m.a. á brýnustu lífsnauðsynjar. Okkur ætti ekki að vera vandara um en ýmsum nágrannaþjóðum að hafa þrepin tvö. Nauðsynlegt er að hafa þann hátt á, m.a. vegna hættu á að dregið verði úr niðurgreiðslum. Hér er um stórt mál að ræða fyrir afkomu heimilanna, fyrir atvinnureksturinn, fyrir ríkið sjálft. Því þurfti að vanda verkið. Þrátt fyrir það sem boðað er í meirihlutaáliti um lagfæringar á þessu frv. áður en það kemur til framkvæmda treysti ég mér ekki til annars en að sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess hve framkvæmd málsins er óljós.

Herra forseti. Ég greiði ekki atkvæði.