10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7915 í B-deild Alþingistíðinda. (6042)

431. mál, virðisaukaskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Afgreiðsla þessa lagafrv. er þannig að hún hlýtur að vera einstæð. Hér er verið að samþykkja lög um virðisaukaskatt sem svo illa eru úr garði gerð að enginn veit hvernig skattlagningu margra mikilvægra þátta verður háttað. Það er ósvinna að setja lög sem ljóst er að verður að breyta verulega næsta haust. Lagasmíð af þessu tagi er ekki í anda þingræðis og er hættulegt fordæmi fyrir löggjafarþing Íslendinga. Það verður að gera þá kröfu um þau lög, sem samþykki hljóta á hinu háa Alþingi, að þau séu fullunnin, en ekki drög að lögum eins og þetta frv. Það er einnig svo að miðað við þá auknu skattlagningu sem hér er boðuð er útilokað að styðja þessa háðung sem hér liggur fyrir í óleiðréttu og hálfskrifuðu handriti. Þetta eru nýju fötin fjármálaráðherrans.

Hæstv. forseti. Ég segi nei.