10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7916 í B-deild Alþingistíðinda. (6047)

431. mál, virðisaukaskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hafi hv. þm. ekki gert sér grein fyrir því, þá fjallar þessi brtt. um það að undanþiggja sölu bóka virðisaukaskatti. Hv. Ed. gerði þá breytingu á frv. í sínum meðförum að undanþiggja sölu tímarita virðisaukaskatti. Nú er sú kostulega staða uppi í frv. að meðferð prentaðs máls og skattlagning þess er með þrennum hætti, þ.e. dagblöðin eru algerlega undanskilin, tímarit sköttuð að hluta og stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar hér á hinu háa Alþingi leggja til að einn flokkur prentaðs máls á Íslandi verði sérstaklega skattlagður öðru fremur, íslenska bókin. Þessi brtt. lýtur að því að forða því slysi. Ég segi því já.