10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7918 í B-deild Alþingistíðinda. (6057)

466. mál, ferðamál

Frsm. samgn. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Samgn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til laga um breytingar á lögum um skipulag ferðamála.

Eftirtaldir aðilar hafa komið á fundi nefndarinnar við afgreiðslu málsins: Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri og Kjartan Lárusson, forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins.

Nefndin hefur orðið sammála um breytingu á frv. sem prentuð er á sérstöku þskj. Þá hefur nefndin einnig orðið sammála um eftirfarandi:

Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um „forkaupsrétt starfsmanna“ er að áliti nefndarinnar átt við fastráðna starfsmenn fyrirtækisins svo og hótelstjóra Edduhótelanna.

Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn samgn. Brtt. sem er að finna á þskj. 1143 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„2. málsl. 2. gr. orðist svo: Taki þeir starfinu skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki ná til þeirra starfsmanna Ferðaskrifstofu ríkisins sem njóta nú lögkjara samkvæmt þeim lögum.“

Af því þetta er ekki í samhengi þá er rétt að útskýra þetta örlítið.

Þeir sem gerast starfsmenn, verði þetta að lögum, gerast starfsmenn hlutafélagsins sem ætlað er að taki við Ferðaskrifstofu ríkisins fengju ekki greidd laun bæði sem starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins hf. og einnig sem fyrrverandi starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins samtímis. Hinir sem ekki vildu una því að búa við þessa breytingu og færu á brautu nytu sem sagt lögkjara, þeirra sömu og ríkisstarfsmenn njóta, ef það fyrirtæki sem þeir starfa við er lagt niður.

Hér er að okkar mati um eðlilega meðferð að ræða og frá upplýsingaraðilum má segja að hafi komið fram sú skoðun að e.t.v. væri óþarfi að taka þetta svo skýrt fram eins og hér er gert ef ætlunin hefði verið að framkvæma þetta á þennan veg. En við vildum hafa þetta ótvírætt.

Um það hvort selja beri Ferðaskrifstofu ríkisins geta menn í sjálfu sér haft skiptar skoðanir. Hins vegar hefur sú umræða staðið alllengi og hætt er við að hún sé nokkuð þreytandi fyrir það starfsfólk sem þar er og skapi verulega óvissu.

Það má segja að eins og þetta mál er lagt fyrir er í reynd verið að leggja til meira en forkaupsréttinn, það er verið að leggja til að starfsfólkinu verði seld Ferðaskrifstofan náist þar samkomulag um. Ég held að sú þekking, sem er kannski að stórum hluta það sem verið er að selja, sé að mestu leyti hjá þessu starfsfólki. Ég tek það skýrt fram að ég tel að Ferðaskrifstofa ríkisins sé vel rekið fyrirtæki og hafi verið vel rekið fyrirtæki. (Gripið fram í: Til hvers er verið að breyta?) Til hvers er verið að breyta, er spurt. Og ég svara því hér að það sem ég sæi jákvæðast við slíkt tiltæki væri það ef eigendur Edduhótela úti um land, sem í dag eru sveitarfélög, kæmu e.t.v. inn í þessa mynd þegar ríkið mundi selja 1/3 sem þeir nú skilja eftir samkvæmt þeirri ákvörðun sem er verið að taka og leggja til.

Hins vegar tek ég það fram, ekki sem framsöguatriði heldur sem mína persónulegu skoðun, að það getur margt orkað tvímælis þá gert er en það getur líka blásið meira lífi í þessa starfsemi að taka þessa ákvörðun. Það á eftir að koma í ljós. En minn skilningur er sá að það sé ætlunin að starfrækja Ferðaskrifstofuna áfram með þeim umsvifum sem þar hafa verið.