10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7920 í B-deild Alþingistíðinda. (6060)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég neyðist til að gera líka nokkrar athugasemdir við frv. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst bæði nál. og skepnan sjálf, þ.e. frv., gefa tilefni til þess að segja um það nokkur orð.

Ég vil í upphafi taka það fram að ég átti sæti í þeirri nefnd sem vann að endurskoðun laganna um skipan ferðamála á sínum tíma á þinginu 1984–1985 og ég minnist þess mjög vel að um þetta tiltekna atriði, hvort og þá með hvaða hætti skyldi selja starfsfólki Ferðaskrifstofu ríkisins einhvern hlut fyrirtækisins, urðu á þeim tíma allmiklar umræður. Þær umræður skiluðu sér í samkomulagi um það að sett skyldi inn í lögin heimildarákvæði um að selja mætti starfsfólki Ferðaskrifstofunnar allt að 30%, ef ég man þetta rétt, af hlutafjáreign ríkissjóðs, en þannig skyldi að sölunni staðið, og ég skil það svo að lögin séu þannig í dag, að þar yrði um að ræða samtök starfsfólks fyrirtækisins sem gerðust eignaraðili að þeim hlut. (GHelg: Það er þriðja útgáfan.) Það er sú útgáfa sem ég man alveg örugglega rétt, herra forseti, að varð á sínum tíma samkomulag um og var lögleidd eftir allmiklar umræður um það með hvaða hætti væri eðlilegast að standa að því að gera starfsfólki fyrirtækis af þessu tagi kleift að eiga í því ákveðinn hlut. Og það var ekki að tilefnislausu og ekki út í loftið, herra forseti, að niðurstaða málsins varð nákvæmlega þessi. Það var vegna þess að um sölu ríkisfyrirtækja og þá gjarnan um mögulegan eignarhlut starfsfólks í þeim fyrirtækjum, hvort sem þau yrðu nú seld að meira eða minna leyti, höfðu þá staðið alimiklar umræður í þjóðfélaginu því að menn fengu þessi flog á þessum árum eins og stundum oftar að fara að selja ríkisfyrirtæki. Og aumingja Ferðaskrifstofa ríkisins hefur alloft orðið fyrir barðinu á þessum köstum. Þegar hv. þm. eða hæstv. ráðherrar fá snert af þessari veiki hefur mönnum ærið oft orðið gripið til Ferðaskrifstofu ríkisins sem er reyndar að mínu mati ekkert sérstaklega vel til þess fallin að vera að hringla með hana með þessum hætti. Þarna er um fremur viðkvæman rekstur að ræða og ég sé í sjálfu sér ekki neitt sem mælir með því að endilega þurfi að selja Ferðaskrifstofu ríkisins eða hluta úr henni öðrum fyrirtækjum fremur.

En aðalathugasemdir mínar, herra forseti, lúta að því að ég sætti mig alls ekki við það fyrirkomulag sem samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að viðhafa í sambandi við þessa sölu. Ég mun aldrei standa að því að samþykkja sölu á eignarhlut ríkisins í svona fyrirtæki öðruvísi en að það sé til samtaka starfsfólksins sem þar vinnur á hverjum tíma því að með þeim einum hætti er í raun og veru verið að selja starfsfólkinu hlutinn. Sé þetta gert eins og hér er lagt til geta fáeinir starfsmenn, ef orðanna hljóðan er tekin bókstaflega, keypt þennan hlut og þeir geta hætt í fyrirtækinu daginn eftir og þess vegna ráðið sig í vinnu hjá samkeppnisaðila, þeir eiga hlutinn sem einstaklingar og fara með hann með sér.

Ég spyr menn: Er það mjög gáfuleg ráðstöfun að vera að selja eignarhlut í ríkisfyrirtæki af þessu tagi, sem nýtur í störfum sínum í raun ákveðinnar ríkisverndar vegna þess að það hefur notið góðs af eignum ríkisins, og jafnvel eignum ríkisins og sveitarfélaganna, í sinni starfsemi, með þessum hætti? Ég held ekki. Ég held að hér dugi það fyrirkomulag eitt, sem ég hef skilið t.d. að sé hvað varðar eignarhlut starfsfólks Flugleiða í því fyrirtæki, þ.e. að félagsskapur starfsfólksins fer með eignarhlutinn og þar í þeim lýðræðislega félagsskap, sem við skulum vona að sé, eru teknar ákvarðanir og kosnir þeir fulltrúar sem fara með umboð starfsfólksins sem vinnur í fyrirtækinu á hverjum tíma, ekki Jóns Jónssonar og Gróu Jónsdóttur sem unnu þar einhvern tíma og áttu þar hlut.

Á þessu er reginmunur og ég mun ekki standa að neinni lagabreytingu sem brýtur upp það samkomulag sem gert var á sínum tíma árið 1985 og tókst um þetta efni. Það eru hins vegar ýmis rök fyrir því að heppilegt sé að starfsfólkið sé þátttakandi í rekstrinum og eignaraðili að fyrirtækinu sem ég féllst á á sínum tíma og virði enn. En ég tel að það verði þá að standa með brúklegum hætti að því að koma þeim eignaskiptum í kring og það finnst mér ekki vera gert í frv.

Ég hygg að hv. síðasti ræðumaður hafi í raun gert grein fyrir því sem ég ætlaði einnig að víkja að í mínu máli sem varðar auðvitað aldeilis fráleita niðurstöðu hvað nál. hinna virðulegu nefnda þingsins snertir. Það gengur auðvitað ekki að ætla að fara að nota nál. mismunandi nefnda hinna ólíku deilda þingsins, sem eru reyndar ekki nema tvær, hv. skrifari, þegar þau ganga svo gjörsamlega á misvíxl. Ef menn við lögskýringu á síðari tímum ætla að fara að lesa sér til um það hvernig nefndirnar túlkuðu þetta, hv. samgn., er það þannig: Í nál. Ed, er sagt með leyfi forseta:

„Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um „forkaupsrétt starfsmanna“ er að áliti nefndarinnar átt við alla starfsmenn, jafnt fastráðna sem lausráðna, svo sem sumarráðna starfsmenn Edduhótela.“ M.ö.o., hver einasti maður sem kemst þarna inn á launaskrá, einhvern tíma, á rétt á því að kaupa eignarhlut.

En hvað segir samgn. Nd.? Hver er hennar túlkun? Hún segir, hv. nefnd:

„Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um „forkaupsrétt starfsmanna“ er að áliti nefndarinnar átt við fastráðna starfsmenn fyrirtækisins svo og hótelstjóra Edduhótelanna.“ Nú er þetta allt í einu orðið þannig að það eru eingöngu fastráðnir starfsmenn og hótelstjórar Edduhótelanna sem eiga að kaupa hlut en ekki lausráðnir starfsmenn að öðru leyti, greinilega ekki. Einungis hótelstjórarnir á Edduhótelunum mega því bjóða í hlutinn en engir aðrir starfsmenn Edduhótelanna því að þeir eru yfirleitt lausráðnir, ekki satt, og reyndar hótelstjórarnir líka. Hér koma því fram nál. hvort frá sinni þingnefndinni sem ganga þvert gegn hvort öðru.

Ætla hv. alþm. að láta bjóða sér það að afgreiða frv. við þessar aðstæður og láta það liggja fyrir skjalfest í gögnum þingsins, í þingtíðindum, að nefndirnar hafi hugsað í kross í þessu máli? Og hver á þá að skera úr? Önnur segir þetta og hin hitt. Hvað ætlar hæstv. samgrh. að gera? Ég hygg að betra sé að hægja aðeins á sér. Eigum við ekki að skipta niður og skoða málið pínulítið? Ég held það. Ef Alþingi hefur einhverja skoðun í þessum efnum á það ekki að koma fram í nál. sem ganga hvort í sína áttina. Þá skulum við taka frv. milli umræðna og skoða það og setja inn í lögin skýr ákvæði um það hvernig fyrirhugað sé til að standa að sölu þessa eignarhluta til starfsfólksins.

Út af fyrir sig mætti hafa um þetta fleiri orð því að nefndin leggur þann skilning, þ.e. samgn. Ed., í frv. að, eins og segir, nefndin líti „svo á að frv. miði að því að eignarráð meiri hluta í hinu nýja hlutafélagi, Ferðaskrifstofu Íslands hf., flytjist til starfsmanna. Heimildarákvæði frv. verði því aðeins beitt að samkomulag náist við starfsmenn um kaup á hlutafénu.“ Ég bara bið menn að hugleiða þetta. Þegar nefndir eru farnar að leggja þann skilning í hlutina að þetta ætti helst að vera svona og svo kemur næsta nefnd og gerir eitthvað allt, allt annað, er ekki verið að setja lög með þeim hætti sem á að gera. Nál. eru ekki reglugerðir og allra síst þegar þau stangast á.

Herra forseti. Ég er sem sagt í fyrsta lagi algjörlega andvígur þeirri breytingu frá gildandi lögum sem gert er hér ráð fyrir hvað varðar mögulega þátttöku starfsfólks í rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins og ég er í grundvallaratriðum andvígur því að meiri hluti Ferðaskrifstofu ríkisins verði látinn úr ríkiseign. Ég tel að eigi menn að halda þessu nafni við lýði skuli a.m.k. 51% hlutafjár tilheyra ríkinu. Hugsanlegt væri, að mínu mati, að þetta væri samstarfsstofnun ríkisins og sveitarfélaganna. Þar væri allt annar hlutur á ferðinni, en þá mundu menn líka setja lögin í samræmi við það.

Í öðru lagi tel ég með öllu ótækt að hv. Alþingi afgreiði málið með þessum tveimur nál. sem liggja fyrir. Og varðandi það hvað menn vilja gera í því efni, því að væntanlega er ekki hægt um vik að afturkalla plöggin þegar búið er að dreifa þeim sem þskj., held ég að mönnum sé fyrir bestu að málið nái ekki fram að ganga þannig að menn þurfi ekki að styðjast við svo kostuleg gögn í lagaskýringum framtíðarinnar.