10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7925 í B-deild Alþingistíðinda. (6063)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef einhvern tímann heyrt það að hv. 2. þm. Vestf. hafi komið nálægt kennslu. Sennilega á hann erfitt með að losa sig úr sínu fyrra hlutverki og þá vakna vissulega upp spurningar um það hvort hann hefði ekki betur haldið þar áfram. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þarf ekki að kenna mér það að auðvitað geta nefndir sitt hvorrar deildarinnar skilað mismunandi nál., þ.e. þau þurfa ekki að vera frá orði til orðs eins. Þar getur t.d. komið til að mismunandi aðilar komi á fundi nefndarinnar og þá er rétt að greina frá því eins og það bar að, en ekki falsa upplýsingar um það t.d. hverjir mættu á fundi Ed. og hverjir mættu á fundi Nd. til að gera nál. eins. Þetta er auðséð og auðskilið.

Það er hins vegar að mínu mati allt, allt annar hlutur, sem hv. þm. hefði átt að íhuga áður en hann óð hér upp í ræðustólinn með þeim hætti sem við heyrðum hér áðan, þegar nefndir leggja út á þá hæpnu braut með vondri samvisku greinilega út af þeim lagatexta í frv. sem þær eru að fjalla um, að fara að túlka lögin. Hvers vegna fara nefndirnar út í það? Það er af því að þeim líður eitthvað illa út af textanum sem þær eru með í höndunum. Þær telja hann ekki nógu góðan, það er eitthvað sem er ekki nógu skýrt. Og ef menn hafa ekki slípunarnefnd eins og er í tísku núna, svona ruslatunnu til að vinna í þessu á sumrin, þá fara menn út í þetta sem er eiginlega enn verra, menn fara að túlka lagatextann. Svo túlkar önnur nefndin í suður og hin í norður eins og hér er gert.

Ég ætla að reyna að fara yfir þetta með hv. 2. þm. Vestf. eins og við mundum kannski gera í kennslustund en nú snýst þetta þannig við að ég er kennarinn og hann er nemandinn. Sjáðu nú til, hv. þm. Ef við tökum nál. Nd. og spyrjum okkur að því: Hverjum telur Nd. að megi selja þennan eignarhlut? Þá er það þannig að Nd. segir:

Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um forkaupsrétt starfsmanna er að áliti nefndarinnar átt við fastráðna starfsmenn fyrirtækisins svo og hótelstjóra Edduhótelanna. - Einfalt mál. Þeir sem mega kaupa hlutinn samkvæmt þessari túlkun nefndarinnar eru fastráðnir starfsmenn og hótelstjórarnir. Engir aðrir.

Hvað gerist svo? Ef við tökum nál. Ed. Hverjir mega kaupa samkvæmt skilningi þeirrar nefndar? Við skulum fara yfir það:

Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um forkaupsrétt starfsmanna er að áliti nefndarinnar [hv. nefnd álítur þetta] átt við alla starfsmenn, jafnt fastráðna sem lausráðna, svo sem sumarráðna starfsmenn Edduhótelanna. - Ekki bara hótelstjórana heldur líka aðra sumarráðna starfsmenn þar.

M.ö.o.: Allir starfsmenn, fastráðnir, lausráðnir, hótelstjórar, sendisveinar, gengilbeinur og næturverðir, allir geta keypt hlut. Það er alveg greinilegt að á þeim sama tíma og Ed. vill selja öllum þá vill Nd. bara selja sumum. Þetta er svona einfalt og vonandi orðið skýrt, herra forseti. Þannig að nál. stangast á. Það kemur fram mismunandi túlkun hjá hv. nefndum og um það þarf ekki að þrasa hér meir ef menn þá á annað borð skilja íslenskt mál.

Við getum svo rætt um það hvaða gildi það hefur að hinar virðulegu nefndir þingsins séu að lýsa yfir skilningi sínum eða áliti á því hvað einhver lagatexti þýðir, jafnrismikið og það nú er að standa í því að vera að bóka einhvern skilning á lögunum eða frumvarpstextanum. (GHelg: Má ég biðja þm. að lesa síðustu mgr. 1. gr. frv. sem er það sem gildir. Nál. koma þessu máli ekkert við.) Hv. frammíkallandi, ég skal lesa allt frv. ef það mætti verða til að skýra málið. (GHelg: Síðustu mgr. 1. gr.) Já, hún er svona, með leyfi forseta:

„Starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins skulu eiga forkaupsrétt að hlutafénu, enda náist samkomulag um verð og greiðsluskilmála.“ - Segir mér ekki neitt. Þetta er einfaldlega þannig að hæstv. samgrh. getur selt Jóni Jónssyni. (GHelg: Starfsmönnum Ferðaskrifstofu ríkisins.) Hann getur selt Jóni Jónssyni 2/3 hluta og sagt: Ég fór til starfsfólksins og reyndi að ná samningum við það um kaup á þessu fyrirtæki. Það gekk ekki saman um verð og greiðsluskilmála og þá sel ég þeim sem fara gerist. Ef menn ætla eitthvað að fara að múðra þá bendir hæstv. samgrh. í lögin. Til þess að forkaupsréttur starfsfólksins sé virtur þarf að nást samkomulag um verð og greiðsluskilmála. Auðvitað er það út af þessu sem nefndirnar fengu samviskubit. Að sjálfsögðu því þær sjá náttúrlega að hæstv. samgrh. hefur þetta allt saman galopið og í hendi sér. Þetta eru ekki nógu góð vinnubrögð, herra forseti. (GHelg: Er skúringakonan ekki starfsmaður Ferðaskrifstofu ríkisins?) Jú, ef hún skúrar hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. (GHelg: Einmitt. Er þetta þá ekki skýrt?) Þetta er alveg skýrt, a.m.k. fyrir ræðumanni og vonandi einhverjum fleirum.

Ég hygg að menn sjái það af því einu að lesa nál. að hinar virðulegu nefndir þingsins hafa ekki talið lagatextann afdráttarlausan í þessu efni. Eða til hvers fara menn út í svona æfingar? (GHelg: Það þarf að breyta honum.) Já, það er nefnilega málið. Það sem á að gera, herra forseti, er að ljúka þessari umræðu og kalla þetta mál til nefndar að nýju og gera þær breytingar á lagatextanum sem þarf til þess að það sé alveg skýrt hverjum og með hvaða hætti á að selja þennan eignarhlut í Ferðaskrifstofu ríkisins.

Ég fer fram á það og bið hæstv. samgrh. að svara því hvort hann sé tilbúinn til þess að hlutast til um að það verði gert og ég hef enga trú á öðru en að það megi engu að síður afgreiða þetta frv. hér, ljúka um það 3. umr. og skjóta því þá til Ed. ef þurfa þykir og gera það að lögum í morgunsárið og þá eitthvað aðeins betur búnu en hér stendur efni til.