10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7930 í B-deild Alþingistíðinda. (6065)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi það sem bent hefur verið á í sambandi við þetta frv. þá held ég að menn séu að mikla fyrir sér vandamál og mikla fyrir sér þá framkvæmd sem gert er ráð fyrir í sambandi við sölu á Ferðaskrifstofu ríkisins. Ef ég tek fyrst það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi um þá er skýrt tekið fram í 1. gr. að það eru starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins sem eiga forkaupsrétt að hlutafénu „enda náist samkomulag um verð og greiðsluskilmála“ eins og þar stendur og hv. síðasti ræðumaður vék sérstaklega að. Það sem gerist hjá nefndum þingsins, fyrst í Ed. og síðar hér í hv. Nd. - og það kom fram hjá hv. 13. þm. Reykv., þessi spurning er um þvottakonuna eins og hún orðaði það. En auðvitað er hér átt við það starfsfólk sem vinnur hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, fastráðin þvottakona hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. (GHelg: Nefndirnar eru ekki sammála þessu.) Fastráðin þvottakona hjá Ferðaskrifstofu ríkisins er tvímælalaust aðili sem er hér um að ræða. (GHelg: Lausráðin líka.) Að sjálfsögðu lausráðin líka. Þannig að það er ekki neinn misskilningur í þessu. Hér er um að ræða starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins og þess vegna engin ástæða til þess að mínum dómi annað en að frv. gangi fram eins og það er hér orðað.

Varðandi það sem hv. 5. þm. Reykv. sagði þá vék hann í fyrsta lagi að nafninu og sagði Ferðaskrifstofa Íslands hf. Það er rétt sem hv. þm. benti á að það er takmörkun á þessum hlutum en við höfum fyrirtæki sem heitir Eimskipafélag Íslands hf., við höfum fyrirtæki sem er Brunabótafélag Íslands o.s.frv. Ef Alþingi samþykkir ekki Brunabótafélagið, ef Alþingi samþykkir Ferðaskrifstofa Íslands hf. þá er það undantekningarákvæði frá þeirri meginreglu sem hv. þm. réttilega benti á.

Síðan vék hann að og ræddi dálítið um hluti varðandi einstaklingana og kaup þeirra. Hér er gert ráð fyrir því að stofnað verði hlutafélag og þá verður auðvitað að meta eigur og meta viðskiptavildina þannig að hlutaféð verður svo ákveðið með tilliti til þess.

Hann vék svo að því sem hér stóð, að starfsmenn Ferðaskrifstofunnar skuli eiga forkaupsrétt að hlutafénu, og hafði ekki út af fyrir sig athugasemdir við það, en skilyrðið „enda náist samkomulag um verð og greiðsluskilmála“ kvaðst hann hefði getað skilið ef þarna hefði staðið bara: greiðsluskilmála. Nú getur svo farið að hlutabréfin séu metin á einum ákveðnum degi og bréfin e.t.v. ekki þá öll seld í upphafi en þegar fram liður breytist verð á hlutabréfunum og verður þá að sjálfsögðu að semja um verð bréfanna þegar þau eru seld. Þetta finnst mér vera það sent raunverulega liggur á bak við þessa grein sem hv. þm. gerði að öðru leyti grein fyrir. Það þarf að meta hlutina til þess að vita hvert hlutafé fyrirtækisins er og þegar svo kemur að sölu þá verður að meta verðið. Ef selt er á þeim sömu dögum og hlutafjárákvörðunin á sér stað, þá er verðið þar með ákvarðað. Ef það er síðar getur verðið hafa breyst, orðið hærra, eða e.t.v. lægra, og á því verði, sem þá verður samkomulag um, verða þau seld.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vakti athygli á því að í lögunum eins og þau hafa verið er gert ráð fyrir heimild til sölu á 30%. Af því hefur ekki orðið og þess vegna er hér gerð tilraun til að breyta þessum hlutum þannig að þessir aðilar geti keypt meiri hlutann í fyrirtækinu og fyrirtækið farið að starfa á þeim grundvelli sem hlutafélag. Þátturinn sem Ferðaskrifstofa ríkisins hafði með að gera í upphafi hefur færst yfir til annarra aðila og er sinnt af þeim.