10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7935 í B-deild Alþingistíðinda. (6078)

466. mál, ferðamál

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég er ekki með till. fyrir framan mig en mér skilst að hún gangi út á það - ég verð þá leiðréttur ef ég skil það ekki rétt - að starfsmaður sem kaupir hlut verður að vera starfsmaður þann tíma sem hann á bréfin. Ef hann hættir að vera starfsmaður verður hann að selja bréfin. Er það rangt skilið hjá mér að starfsmaður sem hættir að vera starfsmaður, hluthafi, verður að losa sig við bréfin ef hann er ekki starfsmaður áfram? Er það rangt? Hann má ekki vera hluthafi. Ég skildi það þannig að hann mætti ekki vera hluthafi ef hann er ekki starfsmaður. Er það rétt? (Gripið fram í: Samkvæmt brtt.? Já.) M.ö.o., flm. er að leggja til að starfsmaðurinn leigi bréfin þann tíma sem hann er starfsmaður. Þetta gengur ekki upp, því miður. Ef þessi túlkun, sem flm. hefur staðfest, er rétt kemur það þannig út. Honum ber skylda til að losa sig við bréfið til annars starfsmanns ef hann hættir að vera starfsmaður. Það er þannig verið að tímasetja hvað hann má eiga hlutabréfin lengi. Og það gengur ekki upp. Slíkt getum við ekki samþykkt hér.