10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7936 í B-deild Alþingistíðinda. (6084)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Því miður var felld hér áðan ákaflega gáfuleg og þaulhugsuð brtt. sem undirritaður flutti og hefði vissulega gert frv. betra en það annars er og er það þó reyndar býsna slæmt.

Brtt. vék að því að samtök eða félagsskapur starfsmanna færi með tiltekinn eignarhlut í fyrirtækinu. Þetta er að sjálfsögðu hið ágætasta fyrirkomulag enda víða við haft og hef ég aldrei heyrt á það minnst áður að það brjóti í bága við lög. Grg. hv. þm. og elskulegrar flokkssystur minnar, Guðrúnar Helgadóttur, var því jafnalgjörlega röng og hún var skemmtileg.

Þetta frv. er hins vegar hið versta mál og ekki hefur það batnað við það að menn skuli ekki fallast á að reyna að laga það til eins og ég lagði til með brtt. minni. Ekki hefur málsmeðferðin batnað við það.

Herra forseti. Ég er því óvenjulega sannfærður þegar ég segi nei og legg til að frv. verði fellt.