12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

90. mál, björgunarþyrla

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið frá þeim sem hafa stigið í ræðustól.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á að við gætum átt á hættu að þurfa að skilja eftir hluta áhafnar úti á reginhafi. Málið er jafnvel enn alvarlegra en það því við getum lent í þeirri stöðu að við náum alls ekki út til skipanna vegna lítils flugþols þeirrar þyrlu sem nú er í eigu Landhelgisgæslunnar, stærri þyrlunnar. Hv. þm. ýjaði að því að við hefðum hingað til getað leitað til varnarliðsins um aðstoð. Það gildir ekki í þessu máli einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki afísingarbúnað. Þeir geta því ekki leyst verkefni þar sem slíks búnaðar er þörf. Þeir hafa hins vegar eitt umfram þyrlurnar okkar: þeir geta tekið bensín á flugi. Það er vissulega mikilvægur kostur og ef við hefðum slíkt væri kannski spurning um hvernig við staðsetjum varðskipin okkar í kringum landið. Yfirleitt eru þau öll staðsett hérna í Reykjavík. Það má velta því fyrir sér hvort ekki megi dreifa þeim víðar um landið þar sem þau yrðu þá fljótari á slysstað ef óhöpp yrðu.

Ef slík þyrla verður keypt verðum við að sjálfsögðu að sjá til þess að rekstrarlegur grundvöllur sé tryggður. Það segir sig sjálft að við kaupum ekki þyrlu til að stilla henni upp sem sýningargrip.

Hv. þm. kom með ákveðna tillögu um hvernig við ættum að standa undir þessu. Ég tel hana góðra gjalda verða og skora á hæstv. ríkisstjórn og fjmrh. að skoða þá hugmynd vel. Það eru vissulega fleiri hugmyndir en ég ætla ekki að fara nánar út í það. Hins vegar veit ég að þessi tillaga nýtur ábyggilega stuðnings meiri hluta þjóðar og menn væru örugglega tilbúnir í að reyta nokkrar krónur í púkk til að standa undir þessu.