10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7938 í B-deild Alþingistíðinda. (6095)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. minni hl. fjh- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég sé að það bregður svo furðulega við nú í þessari andrá eins og fyrr að hæstv. menntmrh. reis úr sæti sínu og gekk út úr þingsalnum um leið og þetta nefnda frv., virðisaukaskatt, bar á góma. Ég hafði einmitt hugsað mér að kannski mundi nú draga til þess, sem við höfum nokkuð beðið eftir, að hæstv. menntmrh. ræddi pínulítið við okkur um þá menningarstefnu ríkisstjórnarinnar sem felst í því að leggja á virðisaukaskatt og hvernig ætti að standa að því að tryggja hag og blóma íslenskrar menningar í framhaldi af þessari miklu skattkerfisbreytingu. Kannski kemur hæstv. menntmrh. hér á eftir og svarar þessu. Það er nú búið að gera margar og ítrekaðar tilraunir til þess að hafa hann hér í salnum en hæstv. menntmrh. virðist ekki mega við bindast um leið og þetta ágæta frv. ber á góma.

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að fara að hefja upp alla þá umræðu sem hér var í dag eða fara yfir hana aftur um þetta frv. sem hér er nú til síðustu umræðu í þessari þingdeild og væntanlega síðustu umræðu hér á hv. Alþingi áður en það verður að lögum. Það má þó segja að hér séu viss tímamót á ferðinni sem rétt sé að vekja athygli á því að svo gæti farið, ef þingið stendur ekki nema fram á miðjan dag á morgun, að þetta yrði síðasta skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem rætt verður á þessu háa Alþingi. Og eru það ekki lítil tímamót að súpan er þar með uppi og það síðasta er hér til afgreiðslu. Það gæti þó verið, herra forseti, að það hefðu gleymst svona tvö til þrjú lítil bráðabirgðalög sem ætti enn eftir að staðfesta frá því í sumar. Þau voru nokkuð mörg skattafrv. sem sett voru í sumar og hefur þurft að staðfesta með lögum. Vorum við að því síðast í dag að staðfesta slatta af slíkum.

Það liggur nú fyrir, herra forseti, eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. að þær brtt., sem minni hl. flutti og vörðuðu flestar þau tvö efni sem kannski hefur öðrum oftar borið á góma í þessari umræðu, þ.e. mat og menningu, þær voru allar felldar. Til að mynda var felld við nafnakall brtt. um að undanskilja sölu bóka virðisaukaskatti. Það voru felldar margar brtt. eða mismunandi brtt. um að undanskilja menningarstarfsemi, samkvæmt einhverri nánari skilgreiningu, þessum skatti og það voru felldar brtt. um að sala á matvörum yrði undanþegin. Enn fremur voru felldar till. um að frekar en að leggja virðisaukaskattinn flatan á yfir alla línuna yrði notast við tvö skattþrep og hið lægra þeirra notað til að skattleggja matvörur og aðrar brýnustu lífsnauðsynjar. Allar þessar tilraunir til að milda þetta frv. eða laga það til, sníða af því mestu harðneskjuna, ef svo má að orði komast, voru felldar. Ég tel að það sé niðurstaða sem mönnum eigi að vera nokkurt umhugsunarefni, eins þótt það standi til að kíkja á málið í sumar í einhverri nefnd, þá sé það ekki ánægjuleg niðurstaða í endurteknum atkvæðagreiðslum hér á hinu háa Alþingi að þessar hugmyndir allar saman voru felldar.

Einhverjum kynni að nýtast það eitthvað í þrætulistinni að segja sem svo að hv. alþm. á 110. löggjafarþinginu hefðu greinilega ekki haft mikinn áhuga á því að undanskilja sölu bóka því þeir hefðu fellt um það brtt. Þess vegna er það ekki gott í sjálfu sér að beita þeim vinnubrögðum sem hér hefur verið gert að þvinga fram afgreiðslu laga af þessu tagi þótt það sé viðurkennt af öllum aðilum málsins að þau séu ekki í þeim búningi, þetta frv. sé ekki í þeim búningi að það sé tilbúið. Það er rammi utan um þennan skatt sem eftir er að fylla inn í, eins og einhver komst að orði hér í dag. Kannski væri nær að kalla þetta frv. til 1. um óljósar hugmyndir um virðisaukaskatt eða drög að því hvernig mætti hugsanlega leggja á virðisaukaskatt þegar þar að kemur.

Það hefði, herra forseti, að mínu mati verið eðlilegri afgreiðsla málsins — svo maður tali nú í fullri alvöru út frá sjónarhóli þingræðisins og sem þingræðissinni, sem „parlamentaristi“ einu sinni — að afgreiða þennan virðisaukaskatt með þáltill. Það hefði verið mun eðlilegri afgreiðsla við þessar kringumstæður að afgreiða einfalda þál. um að Alþingi ályktar að taka skuli upp virðisaukaskatt sem öðlist gildi svo og svo, á miðju ári 1989 eða hvenær það nú er, og birta síðan þetta frumvarpsuppkast, þessi drög sem eru auðvitað ekkert annað, sem fskj. með þeirri þáltill. og vinna að málinu á þeim grundvelli í sumar. Það er, herra forseti, dapurleg niðurstaða að kalla þetta lagasetningu, þetta sem er auðvitað ekki lagasetning undir venjulegum formerkjum. Það er ekki lagasetning við hæfi sem sæmir á hinu háa Alþingi að þurfa að afgreiða ekki færri en 18 tölusett atriði sem óútkljáð og vísa þeim til nefndar sem skoða eigi betur.

Ég vil, herra forseti, leggja sérstaka áherslu á þessi atriði vegna þess að mér rennur þetta til rifja. Mér finnst þetta ekki gott og í raun og veru að enginn græði á þessum vinnubrögðum. Eða er verið að gefa það í skyn að menn geti ekki unnið að svona hlutum í alvöru nema þeir hafi yfir sér einhverja svipu af því tagi að þegar sé búið að setja lög? Ég sé ekki í fljótu bragði hverju menn eru nær með svona plagg í höndunum sem á ekki að koma til framkvæmda, á ekki að hafa áhrif fyrr en eftir rúmt ár, þó að það heiti að nafninu til lög í sumar, á meðan þessi spekinganefnd er að vinna að hlutunum.

Ég bið menn aðeins að hugleiða út á hvaða brautir þeir eru að halda ef sífellt er gengið lengra og lengra í þessa átt. Lagasetning færist þá í það horf að menn byrja á því að hrófla upp einhverju hrófatildri, drífa það í gegnum Alþingi og segja: Þetta er orðið lög og nú skulum við fara að laga þetta til og gera það nothæft. Það er í raun og veru það sem er verið að gera hér. Það er heldur leiðinlegt fyrir svona aldraða og virðulega stofnun, eins og Alþingi Íslendinga er, að sitja uppi með svona vinnubrögð. Ég vona að menn hætti a.m.k. þingsins vegna að hæla sér af þessari slípunarnefnd og þessum afgreiðslumáta frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara ofan í einstaka þætti þessa máls efnislega hér við 3. umr. Ég sé ekki ástæðu til þess. Ég tel að við sem hér höfum mælt gegn þessu frv. í dag og í umræðunni hér í vetur höfum fært óvenjumikil og efnisleg rök inn í þessa umræðu. Við höfum dregið upp nokkuð ljósa mynd af því hvernig væri í fyrsta lagi hugsanlega hægt að nota þetta skattheimtuform, en með því sniði að það hefði ekki í för með sér þá alvarlegu skafanka sem allt virðist stefna í. Að öðrum kosti hefur það verið okkar afstaða ef menn ekki fallast á það að reyna að laga þetta til og gera það þolanlegra fyrir fólkið í landinu, fyrir menninguna, þá væri betra að samþykkja þetta ekki og reyna þá frekar að laga til núgildandi kerfi eða leita að einhverju öðru og heppilegra formi til að taka upp í framtíðinni.

Ég leyfi mér að ímynda mér að sú málefnalega umræða sem farið hefur fram um þetta frv. í Ed. og hér í hv. Nd. hafi hugsanlega átt sinn þátt í því, þau rök sem hafa verið færð fram hafi hugsanlega átt sinn þátt í því að ekki færri en fjórir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar treystu sér ekki til þess að standa að samþykkt frv. í þessari mynd. Mér fundust það í raun og veru umtalsverð tíðindi þegar þetta mikla kappsmál hæstv. ríkisstjórnar sat uppi með þann dóm í atkvæðagreiðslu í Nd. í dag að ekki færri en fjórir hv. þm. úr stjórnarliðinu treystust ekki til að styðja það.

Ég hef, herra forseti, lært mikið um skatta á þessu þingi enda vissi ég ekkert óskaplega mikið um þá fyrir, og skal það fúslega viðurkennt, og hef því þurft að leggja talsvert á mig til að setja mig inn í þau mál og læra um þau samtímis því sem við höfum verið að fjalla um þau hér á hinu háa Alþingi í vetur. Þetta hefur líklega verið fyrirferðarmesti málaflokkur allra hér á þinginu og allt hefur þetta tekið sinn tíma. Eitt af því sem ég hef lært mikið um er skattkerfið í nálægum löndum vegna þess að framan af umræðunni um skattamál hér á þinginu, framan af umræðunni um matarskattinn og síðan virðisaukaskattinn voru sagðar draugasögur af skattamálum nálægra landa. Haldið var að mönnum einfaldri og rangri mynd um það hvert stefndi í skattheimtu í nágrannalöndunum. Þeirri þoku hefur nú verið blásið í burtu. Sú blekking að virðisaukaskattur með einu skattþrepi upp á 22% eða eitthvað þar um bil væri til samræmis við þróun þessara mála í nágrannalöndunum, sú blekking hefur nú verið afhjúpuð, sú lygi hefur verið hrakin. Hér er ekki verið að fara til samræmis við það sem gerist og gengur og stefnir í í nágrannalöndunum heldur er hér verið að ganga í allt aðra og miklu verri átt. Hér er t.d. verið að taka upp næstum því einstæða skattheimtu á lífsnauðsynjar í heiminum og það þótt hvort tveggja liggi fyrir, að matvæli og ýmsar aðrar nauðsynjar fólks séu með því dýrasta hér sem þekkist og kaupgjaldið aftur á móti lágt. Þessar nöturlegu staðreyndir eru mér kannski efst í huga þegar þetta blessaða frv. lýkur vegferð sinni, að hér uppi á Íslandi er verið að leggja óhóflegar álögur á lífsnauðsynjar almennings, sem voru margar hverjar og eru dýrar fyrir, þrátt fyrir það að kaupgjald verulegs hluta launafólks í landinu sé óþolandi lágt.

Þess vegna er það sannfæring mín, herra forseti, að þetta skattafrv., verði það gert að lögum, sé eitt af stærstu óheillaskrefum sem við höfum lengi tekið í þessum málum. Í beinu framhaldi af matarskattinum, sem auðvitað ruddi brautina, er hér verið að festa varanlega í sessi mikið ógæfuskref fyrir fólkið í landinu, fyrir hinn almenna launamann, fyrir neytendurna, fyrir menninguna og listirnar, fyrir landbúnaðinn og svo mætti áfram telja. Það er mjög dapurleg niðurstaða sem mér virðist því blasa við, herra forseti, hvort sem þetta frv. nær því að verða að lögum fyrir eða eftir miðnættið sem fer í hönd.