10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7946 í B-deild Alþingistíðinda. (6120)

Vinnubrögð í efri deild

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns um að hér hefði verið talað um málþóf, þá hefur það ekki verið gert og ég vil undirstrika það að samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um þessi þinglok hefur verið mjög góð og ekki með neinum hætti undan því að kvarta. Það kemur mér hins vegar á óvart ef hv. þm. þykir það skrýtið að nú síðustu daga skuli mál skarast þannig milli deilda að gera þurfi hlé. Við erum búin að afgreiða nokkur mál á þessum fundi sem hófst kl. 21, mál sem þurfti að afgreiða. Við bíðum annarra mála frá hv. Nd. Þetta er bara það sem gerist ár hvert undir þinglok og ég held að það sé ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð og vona eindregið að menn haldi ró sinni síðustu stundirnar sem deildin starfar á þessu þingi.