10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7947 í B-deild Alþingistíðinda. (6121)

Vinnubrögð í efri deild

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Nú má vel vera að það sé vegna ókunnugleika míns um vinnubrögð Alþingis sem ég segi að mér finnst óeðlilegt, þegar sama daginn er gert mjög langt fundarhlé í deildinni án þess að nefndir deildarinnar geti starfað vegna þess að þær hafa lokið störfum, að forseti skuli ekki bjóða þm. að mæla fyrir einhverju af þeim þremur frv. sem hann hefur ekki fengið tækifæri til að mæla fyrir. Þm. á nú þrjú frv. í deildinni, er 2. flm. að hinu fjórða og á eina þáltill. í Sþ. sem honum hefur ekki gefist tækifæri til að mæla fyrir. Það er kannski ekki óeðlilegt að þessum þm. þyki undarlegt ef það eru talin eðlileg vinnubrögð að hann skuli ekki fá tækifæri til að mæla fyrir einu einasta af þessum málum. Nú er ég á öndverðum meið og minni hæstv. forseta á að ég á hér í deildinni frv. til breytinga á húsnæðislögum. Ég held það væri mjög þarflegt að fá það til umræðu núna í kvöld ef tími vinnst til. Húsnæðismálin hafa vakið mikla athygli, þau hafa verið mikið í umræðunni. Nú gefst hlé til þess að mæla fyrir þessum tillögum og ég held að það væri ekki nema sanngjarnt að ég fengi tækifæri til þess.