10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7950 í B-deild Alþingistíðinda. (6124)

455. mál, sparisjóðir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Því miður var ég fjarri við upphaf ræðu hv. síðasta ræðumanns, en ég vona að ég geti svarað í nokkru því sem hann beindi til mín og byrja þá á því sem hann vék að varðandi 2. gr. frv.

Það er frá því að segja að það er ekki unnt að halda sýslunefndunum inni í greininni af þeirri einföldu ástæðu að frá og með næstu áramótum verða þær ekki til staðar. Það er rétt hjá hv. ræðumanni að þessi nýju ákvæði eru ekki frekar en hin fyrri alveg einhlít. Þegar þrír menn eru í stjórn sparisjóðs skulu hlutaðeigandi bæjarstjórnir eða sýslunefndir tilnefna einn mann eins og lögin eru núna, en samkvæmt tillögunni skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir tilnefna einn mann. Þarna þarf eins og nú samkomulag milli þeirra sem þarna eiga hlut að máli.

Það sama gildir reyndar þegar svo háttar að fimm eru í stjórn sparisjóðs. Þá þarf líka að leita samkomulags. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni mun þetta krefjast breytinga á samþykktum þeirra sparisjóða sem þarna koma við sögu.

Ég þakka hv. ræðumanni fyrir að vekja máls á þessu. Þetta þarf allrar athygli við og hefur verið rætt við fulltrúa Sambands sveitarstjórna og reyndar Bankaeftirlitið eins og allt þetta frv. Það er samið í náinni samvinnu við Bankaeftirlitið.

Ég vildi þá víkja næst að 5. gr. frv. og ég vona að ég hafi ekki misst af spurningum hv. síðasta ræðumanns varðandi aðrar greinar frv. Ég vildi þar segja fyrst um spurninguna um það hvort íbúðir sparisjóðsstjóra séu skildar sem hluti af þeim fasteignum og búnaði sem sparisjóðir nota til starfsemi sinnar. Þetta er mikilvæg spurning þegar um þessar tiltölulega litlu stofnanir er að ræða. Mér er kunnugt um að Bankaeftirlitið á nú í viðræðum við lánastofnanir einmitt um þetta skilgreiningaratriði. Ég tel að þarna hljóti að þurfa að draga markalínu þar sem íbúðarhúsnæði er eftir því sem kostur er ekki talið hluti af þeim fasteignum og búnaði sem sparisjóðirnir nota til starfsemi sinnar, en þetta hlýtur alltaf að vera matsatriði og ég beini því til hv. fjh.- og viðskn., sem ég vænti að fái þetta frv. til meðferðar, að beina spurningunni áfram til Bankaeftirlitsins. En ég hef hér í litlu einu lýst minni skoðun á málinu.

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að það kann að vera svo í nokkrum tilfellum að fram úr hlutfallinu sé farið af óviðráðanlegum ástæðum og án þess að leitað hafi verið eftir undanþágu til hækkunar á hlutfallinu á tímabilinu eins og segir hér. Það má vel vera að orðalagið sé ekki það allra lukkulegasta, en þessi grein er sérstaklega samin af Bankaeftirlitinu og reyndar flutt hér að ósk þess vegna þess að þeir telja nauðsynlegt að hafa starfsreglu um þetta til að fara eftir. Ég tel að orðalagið eins og það er núna á greininni gefi færi á þeim undanþágum sem nauðsynlegar kunna að reynast og fyrir langflesta sparisjóðina er þetta ekki vandamál. Langflestir þeirra eru með fasteignir og búnað undir þessu hlutfalli, en þó eru nokkur dæmi um sparisjóði sem eru yfir þessu hlutfalli og verulega yfir því. Þar tel ég að þurfi þá einmitt að huga bæði að skilgreiningunum, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, og eins að því hvernig aðlögun að þessari reglu sparisjóðslaganna eigi að hátta.

En ég segi aftur: Ég beini því til hv. fjh.- og viðskn. að taka einmitt þessi atriði upp við fulltrúa Bankaeftirlitsins ef þess gefst kostur.