11.05.1988
Sameinað þing: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7956 í B-deild Alþingistíðinda. (6134)

76. mál, skógrækt á Fljótsdalshéraði

Frsm. atvmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá atvmn. á þskj. 1064 um till. til þál. um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði. Nefndin hefur fjallað um till. á fundum sínum og sent hana fjórum aðilum til umsagnar. Auk þess var Sigurður Blöndal skógræktarstjóri kallaður til viðræðu við nefndina.

Nefndin mælir með að till. verði samþykkt með svofelldri breytingu:

C-liður fyrri mgr. orðist svo: flutnings aðalstöðva Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað.

Tillagan í heild sinni hljóði þá á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta semja tíu ára áætlun um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði. Áætlunin skal taka til eftirfarandi atriða:

a. ræktunar nytjaskóga,

b. viðhalds og hirðingar skóglendis sem fyrir er,

c. flutnings aðalstöðva Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað.

Við gerð áætlunarinnar um ræktun nytjaskóga og hirðingu skóglendis skal höfð samvinna við Skógrækt ríkisins, Búnaðarsamband Austurlands og skipulagsstjóra ríkisins. Miðað skal við að flutningur aðalstöðva Skógræktar ríkisins verði í áföngum í samráði við skógræktarstjóra og starfsmenn stofnunarinnar.“

Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, formaður, Guðmundur H. Garðarsson, Geir Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Eggert Haukdal og Birgir Dýrfjörð.