11.05.1988
Sameinað þing: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7968 í B-deild Alþingistíðinda. (6170)

355. mál, haf- og fiskirannsóknir

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm., fulltrúa hv. þm. úr öllum flokkum Alþingis sem stöðu að flutningi till. um haf- og fiskirannsóknir, þakka hv. atvmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessari till. Ég get alveg fallist á þá breytingu sem hér kemur fram. Hún felur í sér efnislega sömu áherslur og voru í upphaflegu till. þar sem vísað er til áætlunar Hafrannsóknastofnunar um haf- og fiskirannsóknir fyrir tímabilið 1988–1992 og ríkisstjórninni er samkvæmt till. falið að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar á grundvelli þessarar áætlunar.

Það er auðvitað afar mikils virði að það takist á næstu árum að lyfta okkar hafrannsóknum af því stigi sem þær nú eru á. Ég ætla síður en svo að gera lítið úr því sem áunnist hefur í þessum efnum og öflugu starfi sem reynt er að vinna af Hafrannsóknastofnun, en hitt er jafnljóst að fjárhagur stofnunarinnar hefur verið allt of knappur miðað við þau miklu verkefni sem fyrir liggja á þessu sviði og það er mikilsvert að Alþingi lýsi vilja sínum eins og hér er lagt til í þessu efni. Það ætti að verða stuðningur fyrir framkvæmdarvaldið og fjárveitingavaldið, Alþingi sjálft, að hafa slíka yfirlýsingu, bæði með tilliti til fjárlaga fyrir komandi ár og stefnumörkunar varðandi næstu ár. Hér er um undirstöðuþætti að ræða fyrir íslenskan þjóðarbúskap og íslenska þjóð og ég þakka fyrir undirtektir við þessa till. og mæli þar áreiðanlega fyrir hönd okkar allra sem að henni stóðu.