11.05.1988
Sameinað þing: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7970 í B-deild Alþingistíðinda. (6175)

Kosning eins manns í bankaráð Seðlabanka Íslands

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að þegar forseti gekk í fundarsal til að setja þennan fund sagði formaður þingflokks Borgarall. við hann að það væri athugasemd við að fram færi kosning í bankaráð Seðlabankans í stað Björns Björnssonar bankastjóra, andstaða við að taka það mál fyrir sem hér er á dagskrá skv. 2. dagskrárlið.

Það skal tekið fram að slík mótbára, sem hér er sett fram og hv. 5. þm. Reykv. túlkaði, er algerlega framandi þingvenju í þessu efni. Ef maður andast sem hefur verið kosinn aðalmaður í ráð eða nefnd, eða ef maður segir af sér, er venja að kosning fari fram á manni í hans stað. En varamenn eru kjörnir til þess að taka sæti í forföllum aðalmanna. Þetta er fyrst sem forseti vill taka fram.

Í öðru lagi er það þingvenja - enda naumast hægt að hafa aðra framkvæmd - að þegar svo ber að sem nú, að einn maður segi af sér, komi í staðinn fulltrúi frá þeim flokki sem stóð að kosningu þess manns sem sagði af sér. Þetta er föst venja sem hefur alltaf verið farið eftir.

Forseti tekur ekki mótmæli hv. 5. þm. Reykv. til greina og málið verður tekið fyrir.