11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4443 í B-deild Alþingistíðinda. (6191)

239. mál, löggjöf um auglýsingar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín fsp. í þremur liðum um undirbúning löggjafar um auglýsingar. Í fyrsta lagi spyr hann hvað líði framkvæmd þál. um auglýsingalöggjöf sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987, en með þeirri ályktun var samþykkt að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að vinna að undirbúningi heildarlöggjafar um auglýsingar.

Ég hyggst skipa slíka nefnd á næstunni og geri ráð fyrir að í henni verði fulltrúar neytenda, auglýsenda, auglýsingagerðarmanna, fjölmiðla og fulltrúar fyrir almannahagsmuni. Ég hef enn ekki ákveðið nánar þessa nefndarskipan, en ég mun auðvitað fela nefndinni að kanna hvernig best sé að haga auglýsingalöggjöf og reglum um auglýsingar til að tryggja hagsmuni almennings.

Í öðru lagi er svo spurt hvort þess sé að vænta að heildarlöggjöfin um auglýsingar verði sett á yfirstandandi þingi. Því vil ég nú svara þannig að ég treysti mér enn ekki til að spá um verkalok. Í viðskrn. hefur verið unnið nokkuð að söfnun gagna frá öðrum löndum um það hvernig þessu sé þar fyrir komið og eins gögnum hérlendis um það hvernig reglur gildi um þetta hjá þeim sem við þetta starfa, en þar hafa verið samþykktar eins og fyrirspyrjanda er án efa kunnugt siðareglur af samtökum auglýsingastofa. En um það hvenær nefndin, sem enn hefur ekki verið skipuð, ljúki sínu verki ætla ég engu að spá.

Í þriðja lagi spyr hv. 4. þm. Norðurl. e. hvernig ég hyggist tryggja að nauðsynleg neytendavernd, þar með talið að vernda börn og unglinga fyrir innrætandi auglýsingum, verði hluti af væntanlegri löggjöf. Um þetta gildir að sjálfsögðu það sem ég sagði áðan, að ég ætla engu að spá um hvernig tillögurnar um lagafyrirmæli í þessu efni verði, en ég bendi á að slík neytendavernd felst þegar í ýmsum lagaákvæðum. Að hve miklu leyti er unnt að auka þessa vernd með löggjöf, m.a. með börn og unglinga sérstaklega í huga, verður eitt af verkefnum auglýsinganefndarinnar. Nefndin hlýtur þá m.a. að meta hvort rétt sé að lögfesta einhver ákvæði siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingar sem Samband ísl. auglýsingastofa (SÍA) hefur gefið út í íslenskri þýðingu. SÍA virðir þessar reglur og hefur sett til þess sérstaka siðanefnd að framkvæma þær þar sem eiga sæti fulltrúar Neytendasamtakanna og fulltrúar auglýsenda. Ég mun beina því sérstaklega til nefndarinnar, þ.e. hinnar væntanlegu auglýsinganefndar, að hún athugi þetta sérlega gaumgæfilega og hafi um það samráð við barnaverndarráð meðal annarra.

Lög og reglur leysa því miður ekki allan vanda í þessu máli frekar en öðrum, en það er nauðsynlegt að setja ákveðinn lagaramma um þessa starfsemi til að veita henni aðhald og vernda almannahagsmuni.