11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4444 í B-deild Alþingistíðinda. (6192)

239. mál, löggjöf um auglýsingar

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Ég hefði gjarnan kosið að viðbrögð ríkisstjórnar hefðu verið ofurlítið snaggaralegri í þessu máli. Ég hygg að þetta sé oft raunin þegar mál sem flutt eru fyrir Alþingi og jafnvel lögð þar til sérstök málsmeðferð eru afgreidd með þeim hætti að fela seint og um síðir ríkisstjórninni að gera einhvern tíma eitthvað í málinu. Þá vill niðurstaðan, því miður, ærið oft verða sú að það taki óratíma að koma málunum af stað eins og hér hefur orðið raunin á þar sem heilt ár a.m.k. hefur tapast í máli sem öllum mátti ljóst vera að brýn nauðsyn bæri til að sinna. Þó ekki hefði komið annað til en breytt skipan fjölmiðlunar í landinu, geysileg aukning á veltu í auglýsingamarkaðnum sem nú veltir að sögn kunnugra ekki minna en 3, jafnvel 4 milljörðum kr. á ársgrundvelli, hefði það eitt og sér nægt að mínu mati til að taka upp gömul og löngu ófullnægjandi ákvæði úr lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem eru einustu ákvæðin, jafnfátækleg og þau eru, sem tryggja neytendum einhverja vernd í sambandi við auglýsingar.

Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. viðskrh. að hann íhugi, þegar hann skipar þá nefnd sem hér hefur verið rædd, hvort ekki sé ástæða til að að þeirri nefnd eigi aðild fulltrúar uppeldisstétta eða aðrir slíkir sem geti á faglegum grundvelli lagt á ráðin um hvernig best verði gætt hagsmuna barna og unglinga og annarra slíkra sem menn hafa áhyggjur af í þessu sambandi. Ég nefni sem dæmi að mönnum hlýtur að blöskra þegar auglýsingar eru jafnvel í Ríkissjónvarpinu hnýttar beint aftan í barnaefni sem þar er sent út, augljóslega í þeim eina tilgangi að höfða til trúgirni eða áhrifagirni barna og unglinga í sambandi við þessi mál.

Ég skora svo á hæstv. viðskrh. að vinda eins bráðan bug að því að hrinda þessum málum af stað og kostur og ítreka tilmæli mín um að nefndin verði þannig saman sett að sem best verði gætt ólíkra hagsmuna í þessum efnum, annars vegar að sjálfsögðu þeirra sem auglýsa vörur en ekki síður þó hinna sem verða fyrir barðinu á þeim auglýsingum daglega.