16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að þessar umræður koma mér nokkuð á óvart. Ég hefði talið að þessar umræður, sem hér eru, ættu að fara fram í borgarstjórn Reykjavíkur en ekki á Alþingi Íslendinga. Hér er svo sannarlega verið að fjalla um mál Reykvíkinga fyrst og fremst. Ég að minnsta kosti hef það álit á Reykvíkingum sjálfum að þeir séu fyllilega færir til þess að koma sér saman um og leysa á eðlilegum vettvangi hvar þeir byggja yfir sína starfsemi.

Það má endalaust deila um hvaða áhrif þetta kunni að hafa á lífríki Tjarnarinnar eða hvort þetta muni eyða Tjörninni svo og svo mikið. Hv. 1. flm. sagði hér 1%, en svo sagði hann 1–2% eða allt að 2%. Það er mikill munur þar á milli. Við erum að tala hér um 1% án þess að ég ætli að fara að fjalla beint faglega um þetta mál. Í sjálfu sér finnst mér þessi bygging stílhrein og falleg sem sómir sér þarna mjög vel ef ég má segja mitt álit á því.

Það kom fram í fréttum í gær að samtökin sem nefna sig „Tjörnin lifi“ eru með það á prjónunum að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þetta hús eigi að standa þarna við Tjörnina eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil spyrja hv. alþm. og þá sem hefja þessa umræðu: Ætli þeir myndu nú ekki leggja kollhúfur ef ég hefði hreyft því máli að ég óskaði eftir því við Alþingi og ríkisstjórn að þeir mundu hafa áhrif á þær ætlanir bæjarstjórnar Sauðárkróks hvar ætlað væri að byggja yfir starfsemi Sauðárkróksbæjar? Það er mikill munur á Sauðárkrók og Reykjavík. Það veit ég. En mér finnst þetta fáránleg umræða, herra forseti, og hún á alls ekki hér heima.