16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það væri kannski rétt af mér sem þm. Reykv. að biðja virðulega alþm. afsökunar á því að tefja mikilvæga starfsemi þingsins með málefnum höfuðborgarinnar eða Reykvíkinga yfirleitt. En það er nú ekki oft sem Reykvíkingar koma með sérmál sín inn á Alþingi. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, enda held ég að hann sé fagmaður á því sviði sem hér er til umræðu núna, að verndun lífríkis hvar sem er — ef náttúrufyrirbæri er þess virði að um það sé rætt og jafnvel rætt um að vernda það með lögum til að fyrirbyggja að af mannanna völdum verði troðið á því sem náttúran hefur gefið okkur, af mönnum sem bera ekki kennsl á eða hafa ekki tilfinningar til náttúruauðæfa, þá er rétt að ræða það hér og fyrirbyggja skemmdarstarfsemi, viljandi eða óviljandi, sem ekki verður aftur tekin.

Tjörnin í Reykjavík er eitt af þessum fyrirbærum og eitt af því sem við Reykvíkingar a.m.k. höfum montað okkur af, hvernig sem taugarnar liggja hjá þeim sem ekki eru Reykvíkingar, að vera eins konar perla höfuðborgarinnar, eins konar náttúrufyrirbæri sem hefur sett þannig svip á höfuðborgina að útlendingar hafa sagt að hún væri falleg áður en þeir hafa séð eitthvað meira af henni. Þetta viljum við nú vernda. Og til þess að lögvernd fáist þarf að ræða málin á Alþingi og um það þarf að greiða atkvæði á Alþingi. Alþm., fulltrúar þjóðarinnar, hvaðan sem þeir koma sem slíkir til funda hér í höfuðborginni, þá þurfa þeir að taka þátt í að ræða þessi mál og það er það sem við erum að gera núna.

Það eru lög um verndun lífríkis og við erum að tala um að þau séu látin gilda og ég held að það eigi fullkomlega rétt á sér hér inn á Alþingi. Ef aftur á móti Alþingi treystir sér ekki til að taka ákvörðun í þessu máli frekar en bjórmálinu, þá verður að fara með það eins og bjórmálið, að setja það út í allsherjaratkvæðagreiðslu, þ.e. þjóðaratkvæði.

En það er annað sem ég vil segja. Ef þm., sem ekki hafa þegar gefið sér tíma til að fara upp í Hallgrímskirkjuturn, vilja nú gera það og horfa yfir miðbæinn og sjá hvað þetta er lítið undirlendi. Hvað þetta er undarlega lítið undirlendi. Þegar maður er uppi í Hallgrímskirkju og horfir niður í Kvosina, niður í miðbæinn, þá er maður alveg undrandi yfir því hvað mikið er búið að hlaða á þetta litla undirlendi sem við höfum hér niðri í Kvosinni. Það er með ólíkindum. Hér er eiginlega allt það sem dregur mestu umferðina að sér. Það er tollstjóraskrifstofan, það er skattstjóraskrifstofan, það eru höfuðstöðvar allra þjóðbankanna og hinna frjálsu banka líka, það er Alþingi, það er borgarstjórn, það er miðstöð Strætisvagna Reykjavíkur fyrir allt Suðurlandsundirlendið má segja, það er Stjórnarráð Íslands, það er Menntaskólinn, það er Háskólinn, það eru veitingahús og það eru hótel. Allt á þessu litla svæði.

Ég verð að segja alveg eins og er að ráðhús í Reykjavík finnst mér að ætti að standa frjálst og hafa í kringum sig nóg land fyrir bílastæði, ekki þannig að byggja þurfi fyrir hundruð millj. kr. niður í jörðina nokkur bílastæði fyrir eitt hús. Það verða að vera bílastæði sem þjóna miklu fleirum en bara fólkinu sem vinnur í húsinu. Þetta hús, ráðhús höfuðborgarinnar, er fyrir þjóðina alla og þó náttúrlega fyrst og fremst fyrir þá sem þurfa mest á því að halda sem eru þeir, sem búa í nágrenni við ráðhúsið.

Og það eru fleiri en Reykvíkingar. Þess vegna á þetta að vera áberandi hús. Það á að vera fallegt hús og það á að setja svip á borgina. Það á að setja svip á land og þjóð. Það á að gefa útlendingum til kynna hvers konar menning það er sem höfuðborgin og landsmenn búa við. Það verður ekki gert með því að setja það niður við Tjarnarendann inni í þríhyrninginn á Tjarnargötu og Vonarstræti, þar sem aðkoma er aðeins frá tveimur hliðum og báðar þessar hliðargötur eru þröngar. Þeir alþm., sem eru á móti því að byggja ráðhús annars staðar, við skulum segja með því að byggja ráðhús þar sem það er hugsað nú af borgarstjórn Reykjavíkur, ættu að kynna sér framtíðarskipulag og framtíðarumferðaræðar um höfuðborgina, um miðborgina, hvernig umferðaræðarnar eiga að liggja frá austri alla leið til vesturs og hvernig umferðaræðarnar eiga að liggja frá Skúlagötunni inn í gegnum Lækjargötuna og hringinn út að Hringbraut. Þeir ættu taka ábendingum hv. þm. Júlíusar Sólnes sem komu fram áðan og skoða þau gríðarlega miklu mannvirki sem fyrirhuguð eru þegar Hringbrautin verður færð niður fyrir tannlæknahúsið á Landspítalalóðinni til þess að Landspítalinn fái samfellda lóð alveg niður að nýju Hringbrautinni. Hún liggur í boga frá Miklatorgi og niður Sóleyjargötuna, a.m.k. fjórar akreinar, og gríðarlega mikil umferðarslaufa fyrir neðan Landspítalann sem beinir umferðinni niður þessa nýju Hringbraut og vestur úr og inn í miðbæinn gegnum Sóleyjargötuna. Þegar þessi umferð er öll komin beggja handa frá, þá er ráðhús til viðbótar við það sem er fyrir í miðbænum of mikið fyrir miðbæinn sjálfan.

Um lífríkið sjálft ætla ég ekki að tala vegna þess að til þess hef ég ekki vit á þeim hlutum. En ég trúi því að náttúrufyrirbæri eins og Tjörnin í Reykjavík, þetta náttúrufyrirbæri sem við höfum montað okkur af og kallað perlu höfuðborgarinnar, sem hefur sett svip sinn á höfuðborgina og sem hefur hingað til tekið svo vinalega með sínu fuglalífi á móti útlendingum og líka þeim sem koma utan af landi, ég trúi því að hún sé þess virði að hún sé vernduð til frambúðar. Ég harma það ef niðurstaðan verður sú að það þurfi þjóðaratkvæði til að koma til þess að hafa vit fyrir borgarfulltrúum í Reykjavík. Og þetta segi ég ekki að ástæðulausu. Ég er búinn að vera borgarfulltrúi það lengi.