16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. 1. flm., 13. þm. Reykv., að þetta mál snertir mjög tilfinningar sumra og þegar það er komið á það stig að gular endur úr plasti er framtíðarsýn manna á því andalífi sem verður á Tjörninni, ef ekki er stöðvuð sú bygging sem ætlunin er að rísi þarna, þá vil ég taka undir með hv. flm. að þetta snertir svo sannarlega tilfinningar. Mér er ljóst að þeim hlýtur að líða illa sem hafa þá framtíðarsýn. Ég hefði ekki áhuga á því að sú breyting yrði að það yrðu allir fuglar drepnir á Tjörninni.

En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var sú að hv. 2. þm. Austurl. hóf hér siðabótaræðu. Hann talaði um það sem fáheyrðan hlut að þm. utan af landi teldi eðlilegt að Reykvíkingar réðu þessu máli. Kannski er hægt að sættast á að þeir ráði meira um þetta mál en aðrir. En hvar er samræmið í málflutningi hv. 2. þm. Austurl. sem boðar að héruðin eigi að fá meira sjálfstjórnarvald en þau hafa í dag, en telur jafnframt að skipulagsréttindin, sem eru aðalatriði í réttindum sveitarfélaga, verði af sveitarstjórnunum tekin og færð til annarra? Hvar er samræmið í þessum málflutningi?

Ég vænti þess ekki að hér hafi það gerst að menn líti svo á að ef sveitarstjórn er að taka ranga ákvörðun eigi Alþingi að vera eins og stóri pabbi og svipta hana réttinum til að taka ranga ákvörðun. Það er nefnilega grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að réttkjörin sveitarstjórn hefur rétt til að taka ranga ákvörðun. Þegar við erum komin á það stig að við viljum svipta réttkjörna sveitarstjórn þeim rétti að taka ranga ákvörðun erum við farin að vega að rótum lýðræðisins. Þá erum við að leggja til að lýðræðisleg réttindi séu fótum troðin. Ég met þau meir en svo að ég geti tekið þátt í slíku. Ég vænti þess að mönnum sé ljóst að auðvitað hljóta alltaf að vera átök um skipulagsmál. Það verður aldrei samstaða um slíka hluti.

Þá ætla ég að víkja að hinni röksemdafærslunni, sem hefur komið fram hjá flm., að það sé verið að brjóta lög. Þetta er stór fullyrðing ef hún er rétt. Hvert á að fara með slík mál, hv. 13. þm. Reykv.? Er Alþingi orðið að dómstól eða á að virða þrískiptingu valdsins, þ.e. skiptinguna í framkvæmdarvald, í dómsvald og í löggjafarvald? Eru menn að leggja til að dómsvaldið verði afnumið og Alþingi taki að sér að dæma í málum sem þessum? Auðvitað ber hv. 13. þm. Reykv. siðferðileg skylda til að láta kæra borgarstjórnina í Reykjavík ef hún er að brjóta lög, vinna að því að hún verði kærð. Það hlýtur að vera hennar siðferðilega skylda. En að leggja til að dómsvaldið verði flutt til er alveg fráleitt.

Ég tel að réttur sveitarstjórna til að ráða sínu skipulagi sé svo stór hluti af þeirra sjálfsákvörðunarrétti að allar hugmyndir um að hreyfa við því séu ákvarðanir um að auka miðstýringuna í þessu landi. Ég tek ekki þátt í því.

Ég vænti þess einnig að menn gangi ekki svo langt í málflutningi að þeir álíti að þeir séu yfir höfuð til hér í Reykjavík sem ekki þykir vænt um Tjörnina. Ég held að það sé rétt metið hjá 1. flm., hv. 13. þm. Reykv., að það er almennt litið svo á að þetta sé hjartað úr borginni. Eru menn að halda því fram að menn hafi tekið ákvörðun um að leggja til að borgin verði hreinlega tekin af með því að ráðast á eigin hjarta eða eru menn komnir út á svo hálan ís í tilfinningalegum málflutningi að það stendur ekki steinn yfir steini af eðlilegri rökhyggju?