16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á því hvort beri að byggja ráðhús eða hvort beri að byggja það á þessum stað eða öðrum ætla ég ekki að gera að umræðuefni hérna heldur að fá svar við því hvort það er minn misskilningur eða einhverra annarra hvernig þetta mál er að snúast hérna. Ég sé ekki betur en að þáltill. gangi út á að farið sé að 29. gr. náttúruverndarlaganna. Það er Alþingi Íslendinga sem setur þessi lög og þess vegna getur það ekki staðið neinum nær en Alþingi Íslendinga að sjá til þess að að þeim lögum sé farið. Í náttúruverndarlögum er ekki bara talað um lífríki. Það er líka talað um að landið breyti varanlega um svip, að náttúruminjum verði spillt eða hættu á mengun lofts og lagar. Stór mannvirki falla líka undir þessa grein. Ég get því ekki áttað mig á því af hverju þetta er ekki mál sem Alþingi, burtséð frá því hvar einstakir þm. Alþingis eiga búsetu, á að taka á og finnst undarlegt ef umræða um landslög þarf að snúast upp í umræður um dreifbýli og þéttbýli. Ég hélt ekki að til væru nokkur lög sem takmörkuðu réttindi eða skyldur þm. eftir landshlutum til að hafa áhuga á að landslögum sé fylgt og bregðast við ef grunur leikur á að svo sé ekki. Snúist málið hins vegar um það hvort bygging ráðhúss falli undir 29. gr., hverjum ber þá að úrskurða hvort svo sé? Brjóti svo bygging ráðhúss á einhvern hátt í bága við landslög eða hvernig að þeim málum er staðið ber borgarstjórn að fara að landslögum, en komi í ljós að svo sé ekki er það mál borgarstjórnar að ákveða hvort þessi bygging skuli rísa eða ekki þó um það megi svo deila hvort ekki færi betur á því fyrir borgarstjóra og borgarstjórn, eins og aðra kjörna fulltrúa, að hlusta eftir röddum þjóðarinnar.