16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Sólveig Pétursdóttir:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að sinni að gera efnislegar athugasemdir við þáltill. þessa. Í sjálfu sér er nauðsynlegt að huga að öllum umhverfisþáttum áður en bygging sem þessi er reist og hygg ég að um það ríki enginn ágreiningur. Þó hafa þau orð fallið sem ástæða er til að gera athugasemdir við.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir tók svo efnislega til orða að það væri fjöldi formgalla á þessu máli í borgarstjórn. Ég get ekki séð að hún hafi fært sönnur á það og raunar er furðulegt að hugsa sér að bera á bæði borgarstjórn og embættismenn borgarinnar slík embættisafglöp.

Hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði í sinni ræðu áðan að svo virtist sem sumir Reykvíkingar teldu sig geta breytt því sem þeir vildu innan borgarmarkanna. Ég hlýt að skilja orð hennar á þann hátt að hér sé átt við virðulegan borgarstjóra og borgarfulltrúa. Nú er það svo að þetta eru löglega kjörnir fulltrúar Reykvíkinga sem starfa samkvæmt lögmætu umboði þeirra. Það eru einmitt borgaryfirvöld í Reykjavík sem hafa ræktað hér græn svæði og gróðursett og skapað þannig aðstöðu fyrir borgarbúa til að njóta útivistar. Tjörnin og umhverfi hennar hafa fallið þar undir og það er sjálfsagt að gæta þess.

En hvers vegna falla svo þung orð í garð borgaryfirvalda? Er það vegna þess að sjálfstæðismenn eru þar í meiri hluta eða eru þetta eingöngu ásakanir um röng vinnubrögð? Svari hver sem vill.

Herra forseti. Hv. flm. þessarar till. telja að hér sé um háalvarlegt mál að ræða og er það vafalaust í augum margra. Þess vegna er það því brýnna að á þessari till. verði tekið málefnalega en ekki tilfinningalega eða af flokkspólitískum hvötum.