16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur þróast á allsérstæðan hátt. Hv. 2. þm. Austurl. telur að það sé athugunarefni hvort Reykvíkingar eigi að hafa sama rétt í skipulagslögum og önnur sveitarfélög hafi því hér sé um höfuðborg landsins að tefla og því eigi þjóðin öll að hafa þar umsagnarrétt og þetta sé mikið athugunarefni. Ég verð að segja að ég vildi gjarnan að hv. 2, þm. Austurl. formaði þessa hugsun sína og flytti þetta í lagafrv. þannig að það lægi þá einu sinni ljóst fyrir en ekki í neinni Austfjarðaþoku hvað hann meinar í málinu. Og ég skora á hann að gera það. (HG: Kannski leita ég meðflm.) Það liggur alveg ljóst fyrir að ég yrði ekki stuðningsmaður till., en eftir þeirri umræðu sem hér hefur farið fram sýnist mér að það sé útlit fyrir að hann fái mikið af stuðningsmönnum.

Hv. 18. þm. Reykv. kom með þau rök að þar sem Alþingi setti þessi lög, þ. e. lögin um skipulagsmál. (ÞÞ: Nei, lögin um náttúruvernd.) Lögin um náttúruvernd. Það setur líka hin lögin. (ÞÞ: Ég var ekki að tala um þau.) Þessi lög, var orðalagið. Það var óljóst að átta sig á því. En hvort heldur sem er. Alþingi setur þessi lög. Það stendur því engum nær en Alþingi að sjá til þess að þessum lögum sé framfylgt. (GHelg: Að hvetja ríkisstjórnina til þess.) Er hv. 18. þm. Reykv. með þessum orðum að halda því fram að það eigi framvegis að vera verkefni Alþingis að sjá til þess að öllum lögum í landinu sé framfylgt? (GHelg: Þetta er rangfærsla.) Hv. 13. þm. Reykv. hefur fullkomlega tækifæri til að flytja hér mál sitt og er meira að segja búin að koma með örstuttar athugasemdir. Ég verð að segja eins og er að mér þykir það hart, forseti, ef hv. þm. fær fyrst sérstakan bjölluhljóm til að fá hljóð í þingsölum og getur svo ekki sjálfur þagað þegar aðrir tala.

Ég undirstrika að það fær alls ekki staðist að Alþingi taki að sér hlutverk framkvæmdarvaldsins. Þá eru menn að leggja til allt aðra uppbyggingu en þá sem við búum við, þ.e. þrískiptingu valdsins. Auðvitað væri hugsanlegt að hafa þetta þannig, hafa ekkert framkvæmdarvald og láta Alþingi sjá um að öllum lögum væri framfylgt.

Nei, svona rökleysa byggist á því að menn hafa verið að ræða um þessa hluti af tilfinningahita en ekki hitt að þeir vilji að lögum sé framfylgt. Hver vill ekki að lögum sé framfylgt? En hv. 13. þm. Reykv. vill ekki kæra. Það skyldi þó ekki vera að ástæðan væri sú að hún vildi ekki að það kæmist í almæli að hún tapaði slíku máli. (GHelg: Nei, það er ekki ástæðan. Þetta er vingjarnleg sáttfýsi við borgaryfirvöld.) Ekki efa ég að kærleikur er ærinn á milli hv. 13. þm. Reykv. og þeirra sem fara með æðstu stjórn þessarar borgar. En það er aftur á móti spurning hvort sú framsetning á þeim tilfinningum er rétt eins og hér er lagt til.

Ég ætla aðeins í lokin að víkja að því atriði að skipulagsmál þessa svæðis eru að sjálfsögðu stórmál. Á því höfum við mjög misjafnar skoðanir. Ég játa fúslega að eitt og annað sýnist mér stefna í óefni varðandi umferðarþunga í þessari borg. Það breytir engu um að ég tel að það sé mjög varhugavert ef menn snúast þannig við slíkum málum að þeir telji að það eigi að fara að færa vald frá sveitarstjórnum yfir til Alþingis af þeirri ástæðu. Þeir sem héldu sinn útifund óskuðu eftir því að það yrði kannað hver væri hugur Reykvíkinga til þessa máls. Félagsvísindastofnun Háskólans gæti auðveldlega unnið það verk. Það teldi ég í anda lýðræðisins.