15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög, enda er ég oft búin að ræða ferðamál á þessum stað og annars staðar. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að lýsa stuðningi við efni tillögunnar og nota þetta tækifæri til að minna örlítið á tvö atriði í þessu sambandi.

Það er þá í fyrsta lagi það að fyrir rúmu ári eða rétt fyrir þinglok 1986 var samþykkt á Alþingi tillaga, sem ég var 1. flm. að, um úrbætur í ferðaþjónustu. Ég hef ekki till. hérna hjá mér og get ekki vitnað beint í hana, en hún fól það í sér að samgrh. var falið að láta kanna hvernig væri háttað aðstöðu til móttöku ferðamanna víðs vegar um landið og þá bæði hvað varðar gistingu, samgöngur, aðgengi að áhugaverðum stöðum o.fl. og gera tillögur til úrbóta í framhaldi af þeirri könnun.

Þessi till. og framkvæmd hennar gæti að mati okkar sem fluttum hana breytt töluvert aðstæðum í ferðamálum og við væntum okkur mikils af henni.

Hæstv. þáv. samgrh., Matthías Bjarnason, vatt sér í framkvæmd þessarar till. og fól ferðamálasamtökum landshlutanna að annast hana og í ársbyrjun eða í febrúar eða mars á þessu ári kom út skýrsla sem var að mínu viti fyrri hluti framkvæmdar þessarar till. Þar er ýmsar upplýsingar að finna um stöðu þessara mála á landinu, en í framhaldi af því þarf vitanlega að móta tillögur um úrbætur og bæta aðstæðurnar eftir því. Slíka framkvæmd erfir þá eftirkomandi hans í stól samgrh., Matthías Á. Mathiesen, og hafði ég hugsað mér að bíða eftir komu hans hingað inn á Alþingi til að fregna frekar af þessum málum og ýta við þeim.

Þetta vildi ég að kæmi fram hérna án þess að ég sé nokkuð að letja hv. flm. til að fylgja sínu máli eftir. Það sem vekur hins vegar kannski athygli og er önnur athugasemd sem ég ætlaði að gera hér er að hv. flm. eru allir úr einum stjórnarflokkanna og eins og reyndar Albert Guðmundsson, hv. 5. þm. Reykv., kom að áðan er það að mínu viti töluvert ja, kannski ekki óeðlilegt en sérkennilegt að hér eru stjórnarþm. á ferð, með tilliti til þess sem við sjáum svo aftur í því frv. til fjárlaga sem nú liggur á borðum hjá okkur. Þar er enn einu sinni skertur stórlega sá tekjustofn sem Ferðamálaráði er ætlaður samkvæmt lögum og gerð var virkilega tilraun til við endurskoðun ferðamálalaga að tryggja að mætti renna til þeirra mála en mistókst algerlega. Það á enn að skerða þetta framlag verulega og það er einnig skorinn burtu fjárlagaliður sem fjvn. kom inn á síðustu stundu þegar fjárlög þessa árs voru afgreidd, sem var 600 þús. kr. framlag til ferðamálasamtakanna. Það hefur verið skorið burtu líka og verður ekki séð að neins staðar sé tekið á þessum málum þannig að við getum verið bjartsýn. En ég ætla hins vegar ekki að draga úr því að hv. flm. þessarar till. reyni að fylgja henni eftir þrátt fyrir að þetta kunni að draga úr vonum manna um að hún beri árangur.