15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að það er óneitanlega nokkuð sérkennilegt að fá á borð þm. till. um fjarútlát og stefnumörkun í einum málaflokki, einni atvinnugrein, sem gengur alveg þvert á þann boðskap og þá stefnu sem á sama tíma er lögð á borð þm. í fjárlagafrv.

Ég vil hins vegar segja um efni þessarar till. að það er gott og ég styð þá hugsun sem þar er lögð til grundvallar. Sérstaklega vil ég undirstrika að ég held að það sé mikilvægur áfangi í ferðamálum og uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi að efla uppbyggingu ferðaþjónustunnar úti um landið með það sérstaklega í huga að dreifa álaginu sem landið og náttúran óneitanlega verða fyrir vegna sívaxandi ferðamannastraums. Það verður ekki gert nema ferðaþjónustan sé skipulega upp byggð og nái til alls landsins þannig að draga megi úr álaginu á viðkvæmustu staðina og þá sem mestu álagi sæta nú. Ferðamálafulltrúar í landshlutunum eru og geta orðið stór liður í því.

Það er sem sagt góðra gjalda vert þar af leiðandi að styðja við bakið á þessari till., en það er óhjákvæmilegt að ræða örlítið þetta sérkennilega innra samhengi eða öllu heldur samhengisleysi sem birtist í þeirri staðreynd að fimm hv. þm. Framsfl. flytja till. sem gengur þvert á stefnumörkun og hugsun fjárlagafrv. Og hvers vegna er það nú, herra forseti? Hvers vegna segi ég að þessi tillöguflutningur gangi þvert á anda fjárlagafrv.? Það er í fyrsta lagi, eins og þegar hefur verið bent á, vegna þess að fjárveitingar til Ferðamálaráðs á að skera niður á næsta ári. Á bls. 307 í fjárlagafrv., í skýringum með því, er sem sagt upplýst að í vændum sé í væntanlegri lánsfjaráætlun heimild til að skerða lögbundin framlög Fríhafnarinnar til Ferðamálaráðs. Það segir ekki hve mikil að hlutfalli sú skerðing verður. Það er eingöngu sagt að binda skuli fjárveitinguna við 28 millj. Og af því að hæstv. fjmrh. er nú við og við að gægjast hérna inn í salinn úr hliðardyrum vill hann e.t.v. vera svo góður að upplýsa hér til að greiða fyrir umræðunni hversu mikil sú skerðing er sem stjórnarflokkarnir áætla og áforma með fjárlagafrv. á þessum fjárveitingalið á sama tíma og fimm hv. þm. Framsfl. flytja tillögu sem gengur í þveröfuga átt til aukinna útgjalda á þessu sviði. Það má einnig benda á að ef jafnræði ætti að vera með öllum atvinnugreinum er sama misræmið uppi hvað varðar niðurskurð á stuðningi við aðrar atvinnugreinar á sama tíma í frv., sbr. niðurskurð á leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði, sbr. niðurskurð á framlögum til iðnráðgjafa. Þar segir, og er rökstutt með stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, að draga skuli úr þátttöku ríkisvaldsins og stuðningi ríkisvaldsins við atvinnuvegina og eingöngu skuli mörkuð meginskilyrði og þróunarforsendur atvinnulífs, en ríkið stefni sem sagt að því að draga sig út úr allri þátttöku, öllum beinum stuðningi á sviði leiðbeiningarþjónustu o.s.frv. Þetta er ekki í miklu samræmi við þennan tillöguflutning og það vaknar sú spurning hvort fyrirvarar framsóknarmanna við fjárlagafrv. séu e.t.v. við meira en landbúnaðarliðinn einan. Ég sé a.m.k. ekki, herra forseti, hvernig þessir fimm flm. nefndrar þáltill. geti staðið að fjárlagafrv. eins og það er lagt fram nema þá með fyrirvara um fjárveitingar til ferðamála.