17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni. Ég vil aðeins vekja athygli á því í sambandi við þau ákvæði sem varða Byggðasjóð að ekki virðist gert ráð fyrir því að hann fái neinar heimildir til þess að lána til skipasmíðaverkefna, en það hefur verið svo nú um nokkurra ára skeið að Byggðasjóður hefur lánað skipasmíðastöðvum til þess að þær geti tekið að sér meiri háttar endurbætur eða viðhaldsverkefni. Til þessara verkefna hefur verið lánað misjafnlega mikið úr Fiskveiðasjóði eftir því um hvað er að ræða hverju sinni en við það hefur verið miðað að heildarfjárhæðin verði um 80%. Nú liggur það fyrir að í Byggðasjóði er nokkur fjöldi umsókna um lánafyrirgreiðslu af þessu tagi.

Það er yfirlýst í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að hún vilji jafna þann aðstöðumun sem er vegna óheilbrigðrar samkeppni milli innlendra atvinnugreina og erlendra og er skipasmíðaiðnaðurinn sérstaklega nefndur í því sambandi. Við vitum líka að skipasmíðastöðvarnar hafa haft af því mikið hagræði að geta vísað sínum viðskiptavinum í Byggðasjóð.

Þessi lán hafa verið tekið í erlendri mynt til fimm ára og sett fyrir þeim, ekki aðeins fullgildandi veð, heldur einnig greiðslutrygging þannig að innheimtan var síðast þegar ég athugaði það rétt um 95%. Það má því segja að þetta fjármagn hafi komist fullkomlega til skila og má í rauninni líta þannig á að þarna sé um hringrás að ræða. Það kemur inn álíka mikið fé og lánað er þannig að þarna er eingöngu verið að tala um reglulega starfsemi.

Ástæðan fyrir því að þessi þjónusta við skipasmíðastöðvarnar var tekin upp var sú að hinar erlendu skipasmíðastöðvar hafa ekki aðeins getað boðið upp á niðurgreitt erlent fjármagn heldur hefur reynslan sýnt að viðskiptabankarnir hafa orðið að hjálpa útgerðarmönnum sem hafa lent í greiðsluvandræðum erlendis vegna þess að skipin hefðu að öðrum kosti ekki fengist leyst, en á hinn bóginn hafa innlendu stöðvarnar oft orðið að semja um mislanga greiðslufresti.

Það kann auðvitað að vera að ýmsum detti í hug, og það ekki að ástæðulausu, að ég hreyfi þessu máli vegna þess að það varðar mitt kjördæmi mjög. Skipasmíðaiðnaðurinn er mjög snar þáttur í atvinnulífinu sérstaklega á Akureyri en einnig víða annars staðar um land. Ég vil í þessu samhengi líka minna á það að fyrir nokkrum árum efndi Bandalag háskólamenntaðra manna til ráðstefnu um lífskjör á Íslandi og þar var einmitt vakin athygli á því að það stæði járniðnaðinum fyrir þrifum hversu lítið væri hér af nýsmíðaverkefnum, en aðallega viðhalds- og viðgerðarverkefnum. Nú er það svo um mörg af þessum verkefnum í endurbótum að þau koma mjög inn á járnsmíðarnar, þarna er um mikla þekkingu að ræða hér á landi sem er í hættu, verkþekkingu, og ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að skipasmíðaiðnaðurinn haldi sinni stöðu. Ekki hefur verið farið fram á það af hálfu skipasmíðaiðnaðarins, a.m.k. ekki með neinum þunga, að lánin yrðu niðurgreidd með opinberu fé en nú má vera að hæstv. fjmrh. hafi það í huga að skattleggja þá nýsmíði eða þær skipaviðgerðir sem fara fram erlendis í stöðvum, sem við vitum að njóta niðurgreiðslu opinbers fjár, til að jafna með þeim hætti aðstöðuna. Ég veit ekki hvort einhverjir þankar af því tagi hafa komið upp en ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann vilji um þetta almennt segja, þá fyrirgreiðslu sem nú síðustu árin hefur verið í Byggðasjóði til skipasmíðastöðvanna. Og ég legg áherslu á að þessi lán hafa verið til skamms tíma, fimm ára, og þau hafa verið endurgreidd að fullu. Það hefur verið sett greiðslutrygging fyrir þeim þannig að þarna hafa ekki safnast upp vanskil.

Þá vil ég í annan stað nota þetta tækifæri til að fagna því að fyrir forgöngu samgrh. hafi ríkisstjórnin nú staðfest að ráðist verði í göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla á næsta ári. Ég saknaði þess að ekkert þar að lútandi var í frv. til lánsfjárlaga, en nú er sem sagt komin niðurstaða á það mál og ríkisstjórnin hefur staðfest bókun fjvn. um það að í þetta verði ráðist á næsta ári og haldið áfram viðstöðulaust, eins og þar stendur, því auðvitað nær það engri átt að hætta í miðjum klíðum þegar um svo fjárfreka framkvæmd er að ræða.

Ég vil í síðasta lagi, herra forseti . . . (Gripið fram í: „Herra“ forseti?) Varð mér á í messunni? (Gripið fram í.) Ég vil taka því mjög ljúfmannlega ef mér hafa orðið á mistök . . . (Forseti: Önnur mistökin.) og biðjast velvirðingar á því að veita hæstvirtum forseta ekki nægilega athygli þar sem hann situr í stólnum, en ég vil lýsa því yfir að mér þykir það sjálfsagt að hæstvirtur forseti sitji fundi fjh.- og viðskn., eins og hann fór fram á áður í sinni ræðu, þegar lánsfjárlögin verða þar til umræðu, eins og verið hefur.

Og nú vil ég spyrja af þessu tilefni, ég man eftir því að þegar Eysteinn Jónsson sat í forsetastóli þá gaf hann þann úrskurð að maður ætti ævinlega í ræðustóli að segja „hann“ þegar alþingismenn væru ávarpaðir, hvort sem þeir væru konur eða karlar. Nú væri fróðlegt að vita hvort hæstvirtur forseti hafi sömu skoðun á því að það eigi að ávarpa alla hv. þm. sem „hann“ en á þeim tíma sem ég er að rifja upp man ég eftir að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir fékk þrívegis áminningu frá hæstvirtum forseta fyrir að segja „hún“ um hv. þm. Svövu Jakobsdóttur.