17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Ég vil til að byrja með þakka fyrir þessa hófsamlegu umræðu um mikilsverð málefni. Í umræðunni hafa komið fram ýmsar umhugsunarverðar ábendingar, gagnrýni sem jafnvel er jákvæð og ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðum manna, einkum vil ég þó segja það um ræðu hv. þm. Ásmundar Stefánssonar þótt ekki séum við sammála í mati okkar á meginatriðum í stefnu ríkisstjórnarinnar að svo stöddu.

Fyrst vil ég fara nokkrum orðum í tilefni af athugasemd hv. þm. sem hér talaði seinastur, 2. þm. Norðurl. e., um fjármögnun viðhalds- og endurbótaverkefna á skipaflotanum. Það er rétt að rifja það hér upp hver hefur verið farvegur fyrir fjármögnun til þessara verkefna á undanförnum árum. Verkefnin hafa verið bæði innanlands og erlendis og spurningin er hér um hvernig við viljum fara að því að mæta samkeppnisstöðu í formi viðbótarlána til innlendra aðila sem taka að sér þessi verkefni. Venjulega gengur þetta fyrir sig á þann veg að fyrst er leitað tilboða í lagfæringu skips með útboði, venjulega bæði innanlands og erlendis. Fiskveiðasjóður samþykkir tilboð þegar eftir er leitað og gefur upp hve mikið í hundraðshluta sjóðurinn muni lána af kostnaði. Þetta hefur verið misjafnt á umliðnum árum, á bilinu 50–80%. Því næst reyna viðskiptabankar að útvega skipseiganda skammtímalán, bráðabirgðalán, til þess að fjármagna verkið á framkvæmdatíma. Yfirleitt útvega bankarnir bráðabirgðalán í samræmi við það sem Fiskveiðasjóður mun tryggja sem endanlega fjármögnun. Þegar viðgerð eða endurbótum á skipi lýkur, hvort heldur er innan lands eða utan, þá er endanlegt kostnaðarverð reiknað út í Fiskveiðasjóði. Viðskiptabanki tekur endanlegt langt erlent lán, venjulega til 5–7 ára, og greiðir upp erlenda skammtímalánið en viðskiptabankinn er sjálfur skuldbundinn gagnvart útlöndum fyrir láninu. Fiskveiðasjóður skrifar upp á skuldabréf í viðskiptabanka sem skuldbindur sjóðinn til að greiða í samræmi við erlenda skuldbindingu viðskiptabankans. Skipaeigandinn skrifar upp á skuldabréf frá Fiskveiðasjóði fyrir sambærilegri upphæð, en með 15–17 ára lánstíma og vexti í samræmi við útlánakjör sjóðsins en í dag eru þau 8,75% vextir og verðtrygging í svonefndri RFI-einingu sem er myntkarfa á skuldum Fiskveiðasjóðs.

Fyrir liggur beiðni Félags dráttarbrauta og skipasmiðja til þessa verkefnis sem nemur um 300 millj. kr. lántökuheimild um Byggðastofnun. Sú fjárhæð er hugsuð þannig að verið er að tryggja skipeiganda 80% lánsfjármögnun af verkefni sé það framkvæmt innanlands. Í rökstuðningi félagsins er því haldið fram að verið sé að jafna aðstöðumun milli þess sem erlend skipasmíðafyrirtæki bjóða upp á til að laða til sín verkefni. Fram hefur komið í ósk félagsins að þetta feli ekki í sér auknar erlendar lántökur heldur aðeins tilflutning úr lántökum atvinnuvega í lántökur fjárfestingarlánasjóða. Þetta kann að vera rétt ef það hefur ekki í för með sér aukna ásókn í slík verkefni, ef auðsótt er að fá lánsfé til framkvæmdanna, jafnframt því að verið er að veita ríkisábyrgð fyrir lántökum atvinnufyrirtækja sem í mörgum tilvikum geta með eðlilegum hætti verið áhættusamar.

Í lánsfjáráætlun fyrir árið 1988 er miðað við svipaðar framkvæmdir og lántökur til viðhalds og endurbóta verkefna á skipum og í ár. Á þessu ári hafa verið miklar endurbætur á skipum. Auk þess er fyrir séð að mikið kemur af nýjum skipum vegna kaupa á skipum á næsta ári. Út af fyrir sig er erfiðleikum bundið að nefna tilteknar tölur um viðhald og endurbætur í áætlunum næsta árs, m.a. vegna þess að þetta er mjög háð niðurstöðum útboða sem geta haft mikil áhrif og það er því aðeins að þeim loknum sem menn raunverulega geta gert sér nákvæma grein fyrir kostnaði við þessi verkefni.

Þó má geta þess að nefnd hefur verið talan 11/2 milljarður þegar menn hafa reynt að áætla þessi verkefni.

Það má nefna sem dæmi að í áætluninni fyrir árið 1988 er miðað við 300 millj. kr., t.d. vegna breytinga á þremur af fimm Japanstogurum í Póllandi.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. að ekki er gert ráð fyrir því að þessi fjármögnun fari áfram um farveg Byggðasjóðs. Þetta kann að vera álitamál. Þetta er ekki fyrst og fremst byggðaverkefni heldur er þetta iðnaðarverkefni og samkeppnisverkefni. Á ríkisstjórnarfundi í dag var þetta mál rætt. Þar var iðnrh. og viðskrh. falið í samráði við sjútvrh. og fjmrh. að undirbúa bókun á næsta ríkisstjórnarfundi og þá fæli málið það í sér að þetta færi um þann farveg að eigendur skipa, sem leita eftir þessum verkefnum, leiti eftir heimildum langlánanefndar til að útvega erlend lán og að fyrir liggi fyrirheit um að slík lán verði veitt með eðlilegum skilmálum að því tilskildu að útboð hafi farið fram og um sé að ræða samkeppnishæf verð. Niðurstaðan er því sú að menn vilja að sjálfsögðu greiða fyrir þessu og menn vilja tryggja það með föstum og reglubundnum hætti að innlendur skipasmíðaiðnaður verði þannig samkeppnishæfur, en telja ekki rétt að það fari um farveg Byggðasjóðs. Með þeim hætti er líka verið að taka undir það að ekki er um það að ræða að þetta hækki erlendar lántökur þar sem um er að ræða tilfærslu milli aðila.

Að gefnu tilefni vil ég einnig láta þess getið að því er varðar Ólafsfjarðarmúla, að mér hefur skilist af orðspori að menn hafi talið að núverandi ríkisstjórn hafi í einhverju fallið frá því verkefni. Það er ekki. Hitt er rétt að ekki er gert ráð fyrir erlendri lántöku í lánsfjárlögum vegna þessa verkefnis, en á ríkisstjórnarfundi í dag var staðfest að ríkisstjórnin muni að sjálfsögðu standa við yfirlýstan vilja Alþingis um að hefjast handa um verkefnið og þá hina miklu áætlun sem menn þurfa að gera sér um jarðgangagerð á næstu árum. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að fé muni verða tryggt til þess, en þó verði ekki leitað erlendrar lántöku fyrir þeim hluta sem utan vegáætlunar kemur. En niðurstaðan er skýr. Það verður ráðist í verkið. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að fjár verði aflað þótt það verði ekki með erlendum lánum á árinu 1988.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að því að í þessum umræðum hefði skort á skilning manna á því að atvinnulífið sjálft er uppspretta peninganna og það hefði gætt helst til mikillar geldrar forsjár og forræðishyggju sumra ræðumanna í afstöðu þeirra til atvinnulífsins. Ég hygg að það sé dálítið til í þessu hjá hv. þm. En ég vil leggja á það áherslu að í þeirri stefnumörkun sem liggur til grundvallar starfsáætlun ríkisstjórnar, fjárlagafrv., lánsfjáráætlun, þá er þetta ekki svo. Hér er einmitt verið að benda á ískyggilegar afleiðingar pólitískrar forsjárhyggju af þessu tagi sem lýsir sér í ráðsmennsku á liðnum árum á vettvangi fjárfestingarlánasjóða og bankakerfis og hefur leitt til þeirrar hrikalegu niðurstöðu sem ég hef verið að reyna að vekja athygli hv. þm. á og lýsir sér í óheyrilega miklum ríkisábyrgðum. M.ö.o.: Þegar líka er um að ræða vaxandi vanskil slíkra ríkisábyrgða þá eru afleiðingarnar af þessari ráðsmennsku þær að fyrr eða síðar er verið að vísa á herðar skattgreiðenda, launþega ef menn vilja orða það svo, venjulegs fólks sem greiðir skatta sína og gjöld til ríkisins, í vaxandi mæli afleiðingum af ábyrgðaryfirtöku á fjárfestingum fyrirtækja sem ég tel að nóg sé komið af. Að öðru leyti skal ekki staldrað við fleiri atriði í hans ræðu nema þó eitt. Hv. þm. tók undir með gagnrýni hv. þm. Ásmundar Stefánssonar þegar kemur að því ákvæði er varðar fjármögnun húsnæðislánakerfisins að þar eru 500 millj. kr. frystar að svo stöddu. Hér er um að ræða hluta af því fé sem er áætlað aukið ráðstöfunarfé umfram fyrri samninga á yfirstandandi ári og reyndar engir samningar fyrirliggjandi um að þetta fé verði af hendi reitt við byggingarlánasjóðina. Það er einfaldlega ekki fé í hendi. Það er nokkurri óvissu undirorpið hvort þetta fé fæst. En af því að þetta olli hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni verulegum áhyggjum, þá skal það tekið fram og upplýst að við afgreiðslu fjárlaga var orðið við eindregnum óskum forustumanna þingflokks hv. þm. um að hafa þennan hátt á að svo stöddu með þeim fyrirvörum sem þó koma fram í fjárlagafrv., þ.e. ef forsendur kunna að breytast, þá verði þetta fé nýtt.

Herra forseti. Ég biðst afsökunar. Virðulegi forseti. Ég biðst innilega afsökunar. Ég tek undir með forseta í þeim úrskurði sem hún kvað upp á forsetastóli um það hvernig ávarpa bæri þingmenn. Ég er ósammála þeim ágæta manni Eysteini Jónssyni í því efni.

Hv. þm. Júlíus Sólnes lýsti þeirri skoðun sinni og þá væntanlega þeirra borgaraflokksmanna að þau markmið sem sett væru með þessari lánsfjáráætlun væru jákvæð og þeir væru sammála markmiðunum en ekki sammála leiðunum. Hann benti fyrst og fremst á aðra leið til sparnaðar, að vísu ekki að því er varðar lánsfjáráætlun, heldur að því er varðar fjárlög, nefnilega þá að skera niður útgjöld í heilbrigðisgeiranum um svo sem eins og 10%. Þetta finnst mér athyglisverð skoðun og vildi gjarnan að hv. þm., sem að vísu er fjarstaddur nú, eða þá þingbróðir hans úr nefndum flokki, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, útskýrði fyrir þingheimi ögn betur hvað felst í hugmyndum þeirra og tillögum um lækkun útgjalda um 10% til heilbrigðismála, hvort þetta á að vera í rekstrarkostnaði í sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum eða hvort þetta á t.d. að vera í lækkun á sjúkratryggingagjöldum eða sjúkrasamlagsgjöldum, nú eða hvort þetta á t.d. að vera í því formi að draga úr hlut ríkisins við verðmyndun lyfja, eða hvaða önnur góð ráð þeir hefðu fram að færa í þessu efni. Mér væri mikil forvitni á að heyra um þetta og ég veit fleirum. Hverju orði er það sannara að útgjaldaaukinn í heilbrigðiskerfinu hefur verið mikill og ég tek undir það. Það ber að hafa þar kostnaðargát eins og á öðrum sviðum. Þess vegna tel ég að hv. þm. beri nánast skylda til að skýra frá því — ég geri ráð fyrir því að á bak við þetta liggi einhver vinna og athuganir — hvaða tillögur hann hefur að gera um lækkun tilkostnaðar á þessum mjög svo viðamiklu útgjaldasviðum. (Gripið fram í.) Vera má. Virðulegur forseti er læknisfræðilega menntaður en ekki ég, svo að ég treysti mér ekki til þess að leggja dóm á þessa skoðun hv. þm.

Hv. þm. Júlíus Sólnes spurðist sérstaklega fyrir um það hvað væri á bak við töluna 1600 millj. kr., sem fram kemur í lánsfjárlögum og varðar aðra innlenda lánsfjáröflun, og lýsti um leið áhyggjum sínum af því að innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs væri svo mikil að með henni væri verið að efna til of mikillar samkeppni við atvinnulíf, fyrirtæki og einkaaðila um takmarkað lánsfé og það kynni að hafa neikvæð áhrif á vexti, þ.e. áhrif á vexti til hækkunar.

Í fyrsta lagi kom það rækilega fram í minni ræðu að í þessu lánsfjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að draga mjög verulega úr lánsfjárumsvifum ríkisins og opinberra aðila sem svarar hvorki meiru né minna en 3,6 milljörðum kr. Í annan stað, þrátt fyrir áherslubreytinguna frá erlendum lánum yfir til innlendrar lántöku, er það samt svo að þegar við tökum frá þann þátt innlendrar lántöku sem er þegar umsaminn og varðar lán til húsnæðismála, þá er afgangurinn, innlend lánsfjáröflun til opinberra aðila, hlutfallslega minni að raungildi en ráð var fyrir gert í áætlun yfirstandandi árs. Það er því verið að draga úr lánaumsvifum ríkisins í heild og það er ekki verið að leggja aukið álag á innlendan lánsfjármarkað. Þvert á móti er megintilhneigingin sú að ríkið er með því að rétta af hallarekstur sinn og draga úr lánaumsvifum að reyna að auka svigrúm fyrir atvinnulíf, fyrirtæki og fólk á lánamarkaði, enda er einmitt ein af helstu leiðunum, sem ríkið getur farið til að hafa áhrif á vaxtastig til lækkunar til langs tíma, sú að draga úr hallarekstri og skuldasöfnun og reyna að fjármagna útgjöld sín í vaxandi mæli með eigin skatttekjum frá ári til árs.

En af því að hv. þm. bað sérstaklega um skýringar á þessum 1600 millj. umfram þessar almennu skýringar, þá er rétt að geta þess að skipting þessa fjár er með þessum hætti:

Til sveitarfélaga er varið 100 millj. kr. Í hlut Byggingarsjóðs ríkisins koma 50 millj. kr., sem er skyldusparnaður ungmenna nettó. Til Byggðastofnunar er varið 250 millj. kr., til Fiskveiðasjóðs er varið 400 millj., til Iðnlánasjóðs er varið 300 millj., til Iðnþróunarsjóðs er varið 50 millj., til Útflutningslánasjóðs er varið 50 millj., og að því er varðar fjármögnunarleigur, leiguformið, þá er þar um að ræða 400 millj.

Þetta fjármagn er að stærstum hluta lántökur sjóða eða um 1450 millj. kr. af ofangreindum 1600 millj., en sambærileg fjárhæð var 1060 millj. árið 1987. Áhyggjur vegna atvinnufyrirtækja sýnast því í ljósi þessara upplýsinga ekki eiga við rök að styðjast.

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki í fljótu bragði og óundirbúið til að setja alveg í samhengi þá gagnrýni sem borin var á þessa lánsfjáráætlun og stefnu hennar af málsvara Kvennalistans. Ég hygg að ég þyrfti að setja mig betur inn í innri rökvísi og hugarfar sem á bak við býr áður en því verði svarað svo skynsamlegt væri. Ég staldraði sérstaklega við þá skarplegu áætlun, sem hv. þm. lýsti, að sennilega væri þetta allt byggt á röngum forsendum af því að það hefði verið mikil þensla ríkjandi á seinni hluta árs 1987, en það væri bara margt sem benti til þess að hún yrði lítil, kannski engin, kannski samdráttur á árinu 1988 sem mundi kannski gerast af sjálfu sér, nú eða fyrir tilstilli æðri máttarvalda, mér er það ekki alveg ljóst.

Hv. þm. hafði áhyggjur af sveitarfélögum og vaxandi lánsfjárþörf þeirra vegna þess, að því er mér skildist, að það stæði á einhverju skuldauppgjöri við sveitarfélög sem hefði þá áhrif á lánsfjárþörf. Það er ljóst að fjárhagur sveitarfélaga batnaði allverulega á þessu ári ef við lítum á þeirra hlut í útsvarsálagningu yfirstandandi árs. Það er líka ljóst af umræðunni um verkaskiptinguna að fjárhagur sveitarfélaga styrkist mjög verulega af þeim sökum. Það var rækilega áréttað á ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga í gær að á móti útgjaldaauka, sem er raunsætt metinn um 200 millj. kr. vegna þessarar verkefnatilfærslu á árinu 1988, þá komi í hlut sveitarfélaganna auknir fjármunir, a.m.k. sem svarar 740 millj. kr. þannig að nettóstyrking á fjárhag sveitarfélaga af þessum sökum einum væri um 540 millj. Að því er varðar uppgjör á skuldum, þá er væntanlega att við mótframlög sem ríkissjóður á að inna af hendi á byggingartíma opinberra mannvirkja, þá er ráð fyrir því gert að það verði gert upp á þremur árum sem er áreiðanlega mun fyrr en verið hefði við óbreytta verkaskiptingu og miða ég þá við reynslu sveitarfélaganna af slíkum uppgjörum og framkvæmdahraða.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir ræddi nokkuð um einkaneyslu og fór réttilega orðum um það að hún væri mikil. Ein meginástæðan fyrir vaxandi einkaneyslu er að sjálfsögðu sú kaupmáttarþróun sem orðið hefur, þ.e. að kaupmáttur atvinnutekna hefur á þessu ári að því er talið er vaxið um a.m.k. 16–17% og það lýsir sér að sjálfsögðu m.a. í aukinni neyslu. En hafi hv. þm. áhyggjur af þessu, sem mér skildist vera, þá þætti mér einkum fróðlegt að heyra hvaða hugmyndir hv. þm. gerir sér um skyldu stjórnvalda til að draga úr þessari einkaneyslu, hvort þm. er þar með tillögur um að draga úr henni með því að leggja á auknar skattálögur í þágu samneyslunnar til þess að bæta opinbera þjónustu sem ekki kom kannski nægilega skýrt fram. En sé það rétt ályktað hjá mér að málsvari Kvennalistans vari við á þenslutímum of mikilli einkaneyslu, þá mun það væntanlega fela í sér hugmyndir um að draga úr henni með tiltækum ráðum, sem væru þá m.a. aukin skattheimta.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og reyndar í máli hv. þm. Ásmundar Stefánssonar að bæði lýstu áhyggjum sínum af verðhækkunaráhrifum af þeim söluskattskerfisbreytingum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Reyndar nefndi hv. þm. Ásmundur Stefánsson sérstaklega tölur í því efni þar sem hann komst svo að orði að fyrirhugaður matarskattur hefði í för með sér um 31/2% verðhækkunaráhrif sem mundu mælast sem allt að 5% hækkunaráhrif í framfærsluvísitölu. Ég vil leyfa mér að andmæla ... (ÁsS: Framfærsluvísitölu lágtekjuheimilanna.) Lágtekjuheimilanna. Það er einmitt það. Ég vil leyfa mér af þessu tilefni, til þess að ekkert fari milli mála, að upplýsa hv. þm. um það hvernig þessi mál standa nú eftir því sem best er vitað.

Eins og kunnugt er er fyrir dyrum mjög veruleg og róttæk endurskoðun á hvoru tveggja, tolltaxtalögum og öðrum þeim gjöldum sem því fylgja, þ.e. vörugjaldi sem og öðrum minni sköttum og söluskatti, og aðalatriðin í þessum breytingum eru einfaldlega þau að það er stefnt að verulegri lækkun tolla. Það er stefnt að því að lækka tolla sem nú eru allt að 80% niður í 30% og það er stefnt að því að fella niður með öllu tolla í fyrsta lagi á matvælum og í annan stað á aðföngum af vélum og tækjum, varahlutum, og aðföngum öðrum til iðnaðar, jafnt útflutningsiðnaðar, þjónustuiðnaðar og landbúnaðar. Jafnframt þessu eru lögð niður mörg gjöld, sérstakt vörugjald af innflutningi og innlendri framleiðslu sem er 24 og 30%, vörugjald af innflutningi og innlendri framleiðslu 7% og 17%, tollafgreiðslugjald og byggingariðnaðarsjóðsgjald, fyrir utan það sem ég áður sagði um lækkun hæstu tolla úr 80% niður í 30%, að undanskildu þó óhollustunefni nokkru, sem heitir tóbak, og bensíni.

Í staðinn kemur síðan, til þess að mæta tekjutapi ríkissjóðs af þessari umfangsmiklu tollalækkun, eitt samræmt vörugjald upp á 17%, jafnframt hugsanlega með álagi á ýmsar þær vörur sem mönnum þóknast að kalla óhollustuvörur ef niðurstaðan yrði sú að framfylgja einhverri slíkri manneldisstefnu í tollamálum.

Hver er niðurstaðan af þessu að því er varðar verðlagsáhrif ef við leggjum síðan saman þessa breytingu og söluskattsbreytinguna fyrirhuguðu? Hún er fólgin í því að fækka undanþágum í söluskatti allverulega, breikka þannig skattstofninn og lækka söluskattsálagningarprósentu á allt að 4/5 hlutum af þeim varningi og þjónustu sem almenningur í landinu nýtur. Á móti því vega hins vegar verðhækkunaráhrif af þeim tiltölulega litla hluta almennrar neysluvöru sem eftir er án söluskatts. Ef við tökum fyrst tolltaxtabreytingarnar fela þær í sér að með þessari breytingu á tolltöxtum og vörugjaldi lækkar framfærslukostnaður heimila alveg afdráttarlaust. Þannig lækkar verð á matvælum almennt um tæplega 3% á mælikvarða framfærsluvísitölu. Verð á öðrum neysluvörum lækkar, en þó minna, eða um rúmlega 0,5% þegar á heildina er litið. Að öllu samanlögðu gæti framfærsluvísitalan því lækkað um allt að 1% við þessa breytingu. Þessi meðaltöl leyna þó töluverðum sveiflum í verði einstakra vörutegunda.

Þegar saman fara þessar breytingar á tolltöxtum og vörugjaldi og þær söluskattsbreytingar sem ég hef síðan lýst má gera ráð fyrir að verðhækkunaráhrif verði rétt rúmlega 1% á heildina litið. Þeim verður hins vegar mætt með mjög verulegum tekjujafnandi aðgerðum að því er varðar þá hópa sem tekjulægstir eru, þannig að það er allt útlit fyrir að þessum aðilum verði bætt þessi verðhækkunaráhrif að fullu. Ég vil því nota tækifæri til þess að andmæla þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram að með þessum aðgerðum sé verið að stefna að umtalsverðum verðhækkunum sem almenningur eigi að mæta bótalaust.

Virðulegi forseti. Mér skildist á málflutningi Kvennalistans, hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, að henni þætti óhugnanleg sú stefnubreyting sem í því felst að fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna standi á eigin fótum. Þetta sem hv. þm. finnst óhugnanlegt er sennilega einhver mesta hreinsunaraðgerð sem hægt er að gera í fjármálalífi þjóðarinnar fyrir utan ýmsar þarfar ábendingar um nauðsyn aukinnar stýringar á verðbréfamarkaði.

Skýringarnar á framlögum af skattfé almennings til þessara lánasjóða atvinnuveganna, þ.e. þessara tekjutilfærslna frá almenningi til eigenda fjármagns, voru þær að um mjög langt skeið var af opinberri hálfu og með löggjafarvaldsaðgerðum héðan frá hinu háa Alþingi verð á peningum niðurgreitt, þ.e. vextir af lánum voru neikvæðir, þannig að fyrir utan það að fé var þannig fært frá sparifjáreigendum til atvinnurekenda voru til viðbótar lagðar álögur á almenning og þær látnar renna í farvegi þessara sjóða í formi framlaga til atvinnurekenda. Þetta eru einhverjar mestu tekjutilfærslur frá almenningi í landinu til fjármagnseigenda sem átt hafa sér stað í íslensku þjóðfélagi. Þegar þetta er afnumið, fyrst með því að verðtryggja fjármagnið, því næst með því að reka a.m.k. jákvæða raunvaxtastefnu og loks með því að afnema ríkisábyrgð almennings á þessum sjóðum, lýsir hv. þm. Kvennalistans því yfir að þetta sé óhugnanlegt. Ég verð að játa það að, eins og ég sagði í upphafi, mér er ekki alveg ljóst hvernig þær kvennalistakonur hafa innbyrðis rökvísi í sínum málflutningi eða sínum þankagangi um efnahagsmál. Ég hef oft heyrt það að þær eru miklar ríkisforsjárkonur, oft á misskildum forsendum, en þó vona ég, satt að segja í lengstu lög, að þessi skoðun sé á einhverjum misskilningi byggð.

Loks er að gera þá almennu athugasemd að því er varðar skattastefnu sem hv. þm. Ásmundur Stefánsson og Guðrún Agnarsdóttir gerðu athugasemdir við, þótt ekki sé hún beinlínis til umræðu hér, að bæði töldu að ekki væri nægilega langt fram gengið í skattaáætlunum núv. ríkisstjórnar í skattálögum á fyrirtæki. Í því sambandi vil ég geta þess að af þeim 2 milljörðum kr. sem lagt er til að aflað verði í formi aukinna tekna til ríkissjóðs í fjárlagafrv. á næsta ári er óhætt að fullyrða að um 1600–1650 millj. kr. eru lagðar á fyrirtæki. Það er fyrst og fremst í fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar frá miðju sumri og síðan að því er varðar söluskattsbreytinguna sem um er að ræða aukna áherslu á neysluskatta, en að öðru leyti er hér fyrst og fremst um að ræða skatta á fyrirtæki og það er alls ekki rétt, ef það er skoðað nánar, að það liggi fyrir að þessum skattbyrðum geti fyrirtæki velt af sér öllum saman. Að einhverju leyti verður það, það er óhjákvæmilegt, en alls ekki öllum saman, fjarri því, og alls ekki þegar í stað, þannig að það er langt síðan nokkur ríkisstjórn hefur gengið jafnmikið fram í því að jafna hlutina milli einstaklinga, fólks og fyrirtækja, að því er varðar hlut hvors um sig í skattheimtunni. Reyndar er því haldið fram af hálfu forsvarsmanna atvinnulífsins að þarna sé allt of langt gengið, sérstaklega að því er varðar rökvísina í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að reyna að treysta stöðugleika í gengi, þá sé of langt gengið í að leggja launaskatt á t.d. ýmsar greinar í sjávarútvegi eða að ætla að halda aftur af endurgreiðslu á söluskatti í sjávarútvegi. Þetta er auðvitað sjónarmið sem styðst við ákveðin rök, en þó vil ég t.d. geta þess, af því að það var nefnt að sérstaklega ætti að sækja fé til sumra greina, þ.e. verslunar og þjónustu, að að því er varðar launaskatt er álagningarhlutfallið þar 31/2% á verslun og þjónustu í samanburði við 1% á aðrar greinar atvinnulífsins.

Að því er varðar skattaprógrammið að öðru leyti og af því að hv. þm. Ásmundur Stefánsson nefndi sérstaklega frv. það sem hv. forveri hans, Svavar Gestsson, hefur hér haft forgöngu um að flytja um skattamál rifja ég það upp af þeirri umræðu að í grg. þess eru dregin saman í eitthvað um 10 punkta meginatriðin í þeirri skattastefnu sem þar er boðuð. Við þær umræður gafst mér tækifæri til að fara yfir það lið fyrir lið og komst ég að þeirri niðurstöðu að við værum alveg gjörsamlega sammála um þetta skattaprógramm að öllu leyti nema einu, sem var spurningin um stóreignaskatt eins og lagt var til að það mál yrði meðhöndlað í þessu frv. og kannski hugsanlega spurning um þann þátt framkvæmdar skattakerfisins sem varðar sérstakan skattadómstól, en að öðru leyti var enginn ágreiningur um það.

Þá fer ég, virðulegi forseti, að lokum örfáum orðum um ýmsar ágætar ábendingar sem fram komu í máli hv. þm. Ásmundar Stefánssonar. Ég segi fyrir mína parta að mér finnst margt athyglisvert sem hv. þm. sagði um þróun verðbréfamarkaðar á Íslandi, ekki einasta staðreyndir sem raktar voru samkvæmt heimildum Sigurðar B. Stefánssonar um vöxt þessa markaðar, heldur samanburðurinn á verðbréfamarkaðinum við bankakerfið vegna þess að ég er eindregið þeirrar skoðunar að af hálfu opinberra aðila eigi ekki að mismuna rekstrarformum í fyrirtækjarekstri og það eigi ekki með opinberri mismunun að ýta undir eitt form öðru fremur.

Í annan stað hef ég lýst því áður, gerði það í fjárlagaræðu, að ég héldi að tímabært væri að við færum að dæmi annarra þjóða, og þá átti ég einkum og sér í lagi við Bandatíkin, í því að gera kröfu til mun meiri upplýsingaöflunar um verðbréfamarkaðinn og flokka það alls ekki undir hnýsni eða njósnir um einkahagi, heldur værum við að leita eftir nauðsynlegum upplýsingum sem eru forsenda fyrir ákvörðunum stjórnvalda um þróun þýðingarmikilla efnahagsstefna.

Ég nefndi sem dæmi að þegar núv. ríkisstjórn tók við á miðju sl. sumri var mjög fljótlega byrjað að leita eftir því við Seðlabankann að fá upplýsingar um vöxt og viðgang hins nýja lánaforms sem við kennum við fjármögnunarleigu. Staðreyndin er sú að það liðu a.m.k. tveir mánuðir frá því að fyrst var eftir þeim leitað þar til upplýsingar bárust. Af þessu tilefni vil ég taka það alveg sérstaklega fram að því er varðar reynslu manna af framkvæmd lánsfjáráætlunar á yfirstandandi ári og liðnum árum að sú reynsla er til þess að læra af henni. Það er ljóst að það eru mjög alvarlegar veilur í því sem við getum kallað opinbert stjórnkerfi að því er varðar peninga- og lánsfjármál. Margir standa í þeirri trú að stjórnun þessara mála sé á vettvangi Seðlabankans, en hafi menn haldið það er það mikill misskilningur. Það eru gerðar áætlanir að frumkvæði stjórnvalda í upphafi árs um heildarstærðir sem við köllum lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. Síðan kemur á daginn að það er enginn einn aðili í þessu stjórnkerfi sem er ábyrgur fyrir því að fylgjast með þróun markaðarins, grípa inn í ef hlutir ætla að fara úr böndunum, í tæka tíð en ekki eftir á, m.ö.o. annast samskipti þeirra sem áætlunina gera að frumkvæði ríkisstjórnar við þýðingarmikla aðila í þessu kerfi, svo sem eins og fjármagnsmarkaðinn, fjárfestingarlánasjóðina, bankakerfið. Það er alveg ljóst að þetta stjórnkerfi er í molum og hafi menn haft uppi stór orð um það að ríkisfjármálahallinn væri mikill verðbólguvaldur á undanförnum árum sýnir reynslan ekki síður og reyndar held ég í ríkara mæli að það er peningamálamarkaðurinn sem er orðinn meiri brotalöm í stjórnkerfi íslenskra efnahagsmála en ríkisfjármálin ef þær áætlanir ganga fram sem hér hefur verið lýst í ríkisfjármálum og á forsendum fjárlagafrv.

Virðulegi forseti. Það er rétt að þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnar, þrátt fyrir umtalsverðar aðgerðir í rétta átt í ríkisfjármálum, þrátt fyrir það að lagt hefur verið fram frv. sem gerir ráð fyrir jöfnuði í ríkisfjármálum sem er auðvitað mjög mikil breyting frá sl. ári, þrátt fyrir aðhaldssamt lánsfjárlagafrv. og þrátt fyrir aðrar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar sem miða að því að auka stöðugleika gengis og draga úr óvissu dettur mér ekki í hug að neita því að það er í svipinn óvissuástand í íslenskum efnahagsmálum. Og það er þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefur gert nánast það sem í hennar valdi stendur til að eyða óvissu. Ríkisstjórnin hefur svarað því fyrir sitt leyti að hún hafnar gengislækkunarleið. Hitt er jafnrétt að það er ekki bara á valdi ríkisstjórnar. Það ræðst að sjálfsögðu mjög af mörgum öðrum þáttum, breytingum á utanaðkomandi skilyrðum og aðgerðum annarra aðila hvort heldur eru í fyrirtækjum eða á vettvangi vinnumarkaðarins.

Það sem er sameiginlegt vandamál er þetta að ef menn telja að eitthvað sé á sig leggjandi fyrir stöðugleika í efnahagslífinu, hvort heldur er út frá sjónarmiðum atvinnulífs eða út frá pyngju og kaupmáttarhagsmunum einstaklings, þarf að komast á meiri samstaða um markmið og leiðir milli þessara aðila en fengist hefur hingað til. Fall dollarans er auðvitað lóð á þá vogarskál að auka óvissuna. Hitt er svo annað mál að ef menn hafa áhyggjur af vaxandi verðbólgu á næsta ári og meina eitthvað með því sem þeir segja eru þeir væntanlega um leið að leggja okkur lið á þeirri vandasömu og torsóttu leið sem er sú að tryggja þennan stöðugleika, ná því að kæla niður ofhitað efnahagskerfi og gera sér síðan vonir um þann árangur að á grundvelli stöðugs gengis megi það takast að ná verðbólgu niður á næsta ári, vegna þess að öllum má ljóst vera að ef við lendum í kollsteypuaðferðinni einu sinni enn eru þessi markmið öll fokin út í veður og vind. Þá mun íslenskt atvinnulíf ekki njóta stöðugleika. Þá er ég hræddur um að baráttan fyrir verndun kaupmáttaraukningar, sem þrátt fyrir allt hefur áunnist á þessu ári, verði til lítils. Þannig að þeir sem gagnrýna núv. ríkisstjórn fyrir þá leið sem hún hefur valið, aðhaldsleið í ríkisfjármálum, aðhaldsleið í peningamálum og lánsfjármálum, byggt á voninni um samstarf og samstöðu hinna ýmsu þjóðfélagshópa og valdahópa um stöðugleika í gengi — ja, ég á bágt með að sjá hvaða leið aðra en leið upplausnar, óreiðu og vitleysu er verið að boða í raun og veru.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að þessi umræða hafi verið málefnaleg, fróðleg og gagnleg. Ég mun sérstaklega staldra við þann þátt gagnrýninnar sem lýtur að verðbréfamarkaðinum. Þó verð ég að nefna eitt gagnrýnisatriði, að að því er varðar lánsfjáráætlun væri hún ekki gerð upp, reynslan metin með sama hætti og gert er í ríkisreikningi um fjárlög. Þetta er ekki alls kostar rétt. Ég vil vekja athygli á því að fjmrh. gefur að venju skýrslu um ríkisfjármál og framkvæmd lánsfjáráætlunar á ári hverju. Skýrslan var lögð fyrir Alþingi 18. mars 1987 seinast. Þessari venju verður að sjálfsögðu haldið. Auk þess vil ég vekja athygli á því að þótt ekki sé sérstök skýrsla enn á þessu ári um reynsluna af útkomu lánsfjáráætlunar 1987 hefur aldrei verið gerð jafnrækileg grein fyrir því eins og gert er í hinum almennu athugasemdum með fjárlagafrv. nú. Ég held því reyndar fram að starf þess embættismanns sem þar hefur unnið að sé hið merkasta því að þar er mjög rækilega farið ofan í saumana á framkvæmd lánsfjáráætlunar, vakin athygli á alvarlegum hlutum eins og þróuninni að því er varðar ríkisábyrgðir og í raun og veru lagt fram í hendur alþm. mjög mikið upplýsingaefni, þar á meðal skýringar á því hvers vegna og af völdum hverra lánsfjáráætlun fór úr böndunum, þannig að e.t.v. má festa þessi vinnubrögð betur í formi, en ég hygg að það verði ekki undan því kvartað að þm. hafi ekki fengið viðhlítandi upplýsingar a.m.k. að því er varðar þetta ár, enda er það vissulega sjálfsagður hlutur.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.