17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Halldór Blöndal:

Hæstv. forseti. Til að leiðrétta misskilning var það ekki neitt sérstakt metnaðarmál fyrir þingmenn Norðurl. e. að erlent lánsfé kæmi í Múlagöngin. Mér er út af fyrir sig alveg sama um það þó að við fáum framlag til þeirra á fjárlögum eða hvernig það verður. Aðalatriðið er að í tengslum við það frv. sem er til umræðu verður auðvitað farið ofan í það mál.

Ég vil í annan stað segja að ég er mjög ánægður yfir því, eins og ég skildi hæstv. fjmrh., að ríkisstjórnin skuli nú ætla að búa þannig um hnútana varðandi innlendu skipasmíðastöðvarnar að þær eigi að fá greiðari aðgang að fjármagni en áður og að fullkomlega verði fyrir því séð að þær geti unnið viðstöðulaust að sínum verkefnum. Það var fróðlegt að heyra það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan um Fiskveiðasjóð. Það var ágæt upprifjun. Það hefði mátt bæta einhverju við þá lýsingu til þess að þm. fengju alveg fullkomna lýsingu á því hvernig Fiskveiðasjóður starfaði. Það hefði auðvitað verið mjög gagnlegt. En ég hafði ekki áhyggjur af því heldur hinu, þ.e. viðbótarfjármagninu, og nú heyri ég það sem sagt á hæstv. fjmrh. að búið er að koma vandamálum skipasmíðaiðnaðarins í líknandi hendur, hversu margra ráðherra man ég nú ekki hvað hann sagði, en það þýðir þá það að þær þurfa ekki lengur að bíða eftir fjármagninu. Auðvitað er mjög ánægður yfir því og mun óska eftir því að fá afgreiðslu ríkisstjórnarinnar þegar hún kemur þannig að maður þurfi ekki að vera í neinum vafa um það. Ég vil fyrir hönd okkar áhugamanna um skipasmíðaiðnaðinn lýsa yfir sérstöku þakklæti yfir þessu og skal ekki að þessu sinni tefja umræðurnar með því að útskýra fyrir hæstv. fjmrh. hversu mikla þýðingu skipasmíðaiðnaðurinn hefur fyrir byggðirnar utan Reykjavíkur almennt séð, bæði rekstur stöðvanna sem slíkur og sú þjónusta sem þær veita, sérstaklega fiskiskipaflotanum.