17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Ásmundur Stefánsson:

Frú forseti. Ég skal vera afar stuttorður. Mig langar að byrja á því að þakka fjmrh. fyrir þá undirtekt sem var í hans máli við þær athugasemdir sem ég gerði í sambandi við verðbréfamarkaðinn og ég treysti því að hann komi ræðu minni með sínum meðmælum til viðskrh., í síðasta lagi vil ég segja þegar hún birtist í þingtíðindum.

Ég vil hins vegar nota tækifærið til að gera tvær örstuttar athugasemdir. Í fyrsta lagi vil ég benda á að ráðherra leiðrétti ekki þær tölur sem ég fór með áðan um hvað matarskatturinn þýddi, hvaða afleiðingar hann hefði fyrir framfærslukostnað. Hann dró það hins vegar fram að það væri mat ráðuneytisins að ýmsar aðrar aðgerðir til lækkunar á öðrum sköttum, hugsanlegar niðurgreiðslur og hvað hann kann að vera með í dæminu, kunni að samsvara 2,5% í minni skattheimtu þannig að heildarútkoman verði 1% skattaukning. Matarskatturinn mun hafa 3,5% hækkun framfærslukostnaðar í för með sér fari hann fram. Ég skal hins vegar ekki leggja mat á gagnaðgerðir.

Í öðru lagi vildi ég draga það sérstaklega fram, sem raunar kom fram í máli Guðmundar H. Garðarssonar áðan, að það er ekki um að ræða mér vitanlega neina nýja samninga um breytt kauphlutfall af lífeyrissjóðunum, eins og mátti skilja af orðum ráðherra í hans máli áðan. Niðurstöðutalan í lánsfjárlögunum og í fjárlögunum, eins og gerð er grein fyrir henni þar, er ósköp einfaldlega niðurstaðan af því að lífeyrissjóðirnir kaupi fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé. Það er af þeirri tölu, miðað við hið fasta viðmiðunarhlutfall, 55%, sem ríkissjóður ætlar sér að taka 500 millj. að láni og leyfa því ekki að fara til húsnæðiskerfisins. Ef ég hef misskilið eitthvað í þessu held ég að væri rétt að fá leiðréttindu þar á.