17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

106. mál, dagvistun barna á forskólaaldri

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem fyrsti flm. þessa frv., hv. 7. þm. Reykv., sagði hér í upphafi að þetta frv. skipti miklu máli efnislega. Hann rakti þróunina sem orðið hefur á undanförnum áratugum og sagði sem svo að hann hefði alist upp við aðrar aðstæður en börn nú gera varðandi þessi mál. Ég get tekið undir það að ég m.a.s. ólst upp við sömu aðstæður og hv. 7. Reykv., og ekki bara það, börnin mín ólust einnig upp við þær aðstæður, þ.e. aðrar aðstæður en eru í dag. Þá var þörfin fyrir dagheimilin eða dagvistarstofnanir barna ekki orðin slík eins og hún er í dag. Þróunin hefur verið ör, þessar breytingar í þjóðlífinu á undanförnum árum sem hafa leitt til þess að uppeldi og gæsla barna hefur færst frá foreldrum yfir á aðra í auknum mæli, þ.e. dagvistarstofnanir og skóla. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að líta fram hjá, alveg án tillits til þess hvort menn telja þessa þróun góða eða slæma. Og til þess að mæta henni verða réttir aðilar að bregðast við og skapa þau skilyrði að foreldrar hafi sem flesta valkosti til að leysa þessi mál.

Eins og hér hefur komið fram þá verður að líta jöfnum höndum á konur og karla sem aðalfyrirvinnu heimilisins og þess vegna verður á svo mörgum sviðum að taka tillit til breyttra aðstæðna og bregðast við þeim.

Ég vil koma inn á svolítið annan þátt, sem a.m.k. kom ekki fram sem þungamiðja í máli hv. frummælanda, en það eru kjarasamningar á vinnumarkaðnum, það þarf að leggja meiri áherslu á þessi mál í frjálsum samningum vinnuveitenda og launþega, þ.e. að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar. Í því sambandi má nefna að gefinn sé kostur á sveigjanlegum vinnutíma, þar sem því verður við komið, og gert sé ráð fyrir fjarvistum foreldra ungra barna. Það mætti einnig gera ráð fyrir því í kjarasamningum að foreldrar geti tekið tímabundið hlutastarf þegar þörfin er mest fyrir umönnun og að þeir geti jafnvel tekið launalaust leyfi í stuttan tíma ef það hentar þeim betur. Að sjálfsögðu verða ríki og sveitarfélög að ganga á undan og bæta möguleika foreldra með þessum hætti.

Í frv. eru lagðar til ákveðnar leiðir sem ætlað er að bæta úr þessari brýnu þörf í átaki dagvistarmála. Og þar er ríkinu ætlað að greiða ákveðna fjárhæð vegna hvers barns, eins og hér hefur komið fram, til sveitarfélaganna. Nefnd er talan 8000 kr. á mánuði fyrir almennt dagheimili og svo hlutfallslega skilst mér varðandi vöggustofur og leikskóla. Og þar er ég komin að kjarna málsins sem ég vildi aðeins ræða hér, þ.e. samskipti ríkis og sveitarfélaga, varðandi verkefni sem betur væri komið í höndum annars aðilans.

Ég tel og hef talið að bygging og rekstur dagheimila eigi að vera alfarið í höndum sveitarfélaga, þeirra sem standa þessum verkefnum næst og þekkja best til þarfa á hverjum stað. Þetta eru staðbundin verkefni þar sem aðstæðurnar eru misjafnar og þörfin mismunandi eftir byggðarlögum. Sums staðar er þessi þörf mikil, annars staðar er hún lítil eða jafnvel engin. En við þekkjum það að núverandi fyrirkomulag skapar oftar en ella erfiðleika eins og hér kom reyndar fram í máli flm. frv., hv. 7. þm. Reykv., þar sem ástæðan er sú að fjárhagsgeta samskiptaaðilanna fer ekki saman. Sveitarfélögin lenda í erfiðleikum, t.d. vegna þess að þau byggja hraðar en samið hefur verið um og ríkissjóður lendir þar af leiðandi í erfiðleikum með að standa við sínar skuldbindingar og safnar skuldahala sem erfitt reynist að losna við. Þetta þekkjum við bæði fyrr og síðar. Þetta er verkefni sem á að færa yfir til sveitarfélaganna á ábyrgð þeirra — og ég vil taka skýrt fram að sjálfsögðu með tekjustofni, það er grundvallaratriði, tel ég að þessum málum yrði miklu betur sinnt og meiri möguleikar yrðu á sveigjanleika í rekstri eftir því sem hentar á hverjum stað.

Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga hefur verið til athugunar og umræðu árum eða áratugum saman. A.m.k. minnist ég þess að í þá tvo áratugi og liðlega það sem liðnir eru frá því að ég tók fyrst þátt í sveitarstjórnarmálum, þá hafa þessi mál verið á dagskrá. En það hefur orðið minna úr framkvæmdum þar til nú að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv., eins og hér hefur komið fram, að þetta verði eitt af þeim verkefnum sem fari alfarið yfir til sveitarfélaganna. Það dapurlega við þetta er hins vegar að í hvert sinn sem ríkið ætlar sér að verða við þessum kröfum sveitarfélaganna — og reyndar allra sem um pólitík tala, ég held að allir stjórnmálaflokkar hafi það á sínum stefnuskrám að dreifa valdinu, að færa valdið heim í hérað og það er einmitt það sem verið er að tala um núna — rísa alltaf upp einhverjir aðilar sem telja að hagsmunum þeirra sé hætt komið, má segja, ef verkefnið fari frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Það er kannski ekki að ástæðulausu að þarna ríkir viss tortryggni á milli vegna þess að menn treysta því ekki að ríkið tryggi þeim tekjustofnana jafnhliða verkefnunum. Og ég vil svo sannarlega taka undir að það er grundvallaratriði að það verði tryggt með tilfærslu verkefna.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi, að hér er um þýðingarmikið mál að ræða sem snýr að hagsmunum foreldra ungra barna. Og ég vil bæta öðrum hagsmunaaðila við, því ég tel að þetta sé ekki síður hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins eins og ég nefndi hér áðan. Þetta hlýtur að vera mál sem ástæða er til að semja um í kjarasamningum, svo brýnt er það, bæði fyrir atvinnurekendur og foreldra barnanna. Það þarf að skapa meiri sveigjanleika í rekstrarformi og hvetja fyrirtæki til að koma upp dagvistun fyrir börn starfsmanna sinna og skapa fyrirtækjunum skilyrði til þess. Og þá kem ég að opinbera aðilanum sem ég tel að eigi að vera sveitarfélögin, að þau eigi að styrkja þá aðila, hvort sem það eru einstaklingar, félagasamtök og ekki síst atvinnurekendur, sem vilja koma upp dagvistun fyrir börn starfsmanna sinna. Auðvitað verður að gera þetta með ákveðnum skilyrðum og ákveðnum kröfum, en ég get ekki séð að það þurfi að vera af hinu vonda, nema síður væri, að velta þessari ábyrgð yfir á aðila vinnumarkaðarins frekar en á ríki eða sveitarfélög, nema að sjálfsögðu að því marki sem þau þurfa að sinna þessum verkefnum, en við vitum að það eru stórir hópar sem eiga þar ríkra hagsmuna að gæta því að bæði ríki og sveitarfélög eru líka vinnuveitendur. En þar sem fyrirtæki hafa aðstöðu til og áhuga á að sinna þessum verkefnum til þess að laða til sín gott starfsfólk á að gera þeim það kleift með því að styrkja þau til þess.

Ég þykist þekkja slíkt dæmi í mínu kjördæmi, í útgerðarbæ á Suðurnesjum rekur fyrirtæki dagheimili, það heitir Gullvíkin og er í Grindavík. Þetta fyrirtæki rekur dagheimilið með miklum myndarbrag og miklum sóma enda hefur það verið þannig að biðlisti er eftir því að komast í vinnu á þessum stað vegna þeirrar góðu aðstöðu sem þar er boðið upp á. Sveitarfélagið styrkir þetta fyrirtæki að vissu marki fyrir börnin sem þar dvelja.

Mér fannst rétt, hæstv. forseti, að koma aðeins inn á þetta atriði. Ef þetta frv. fer til hv. menntmn. þá á ég sæti í þeirri nefnd og fæ tækifæri til að fjalla nánar um það þar. Ef því verður hins vegar vísað til hv. fjh.- og viðskn. þá hef ég ekki tækifæri til að fjalla um málið í nefnd og þess vegna vildi ég aðeins láta í mér heyra varðandi þetta þýðingarmikla mál. Ég tel það af hinu góða að hv. flm. hreyfir þessu máli en ég veit að hann þekkir þarfirnar vel þar sem hann er forustumaður í verkalýðshreyfingunni og veit sjálfsagt hvað hann er að tala um. En ég sé ekki alveg með hvaða hætti ríkið ætti að leggja fram það fjármagn sem hér er gert ráð fyrir beint úr ríkissjóði eins og mér sýnist frv, gera ráð fyrir. Ég hefði talið æskilega leið að bæta hag foreldra, styrkja þá í þessu skyni, t.d. í gegnum barnabætur með því að hækka þær og gefa þar með foreldrum kost á að velja sjálfir hvaða form þeir vilja hafa á gæslu sinna barna. En ég vil einnig láta það koma fram að ég tel nauðsynlegt að endurskoða lög og reglur um dagvistarmál til þess að kanna hvers konar tálmanir eru í vegi fyrir örari uppbyggingu þeirra en verið hefur, hvort það er fleira en fjármagnið. Mín afstaða byggist fyrst og fremst á því að reynslan er sú að ríkið hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar, ekki vegna þess að það sé af vondum huga eða áhugaleysi, heldur vegna þess að það hefur ekki haft bolmagn til þess fjárhagslega séð. Við vitum að þörfin er mikil. Það kemur fram í frv. hversu háar fjárhæðir hér er um að ræða og ég sé ekki fram á hvernig ríkið ætlaði sér að bæta úr því nema þá að það væri í gegnum sjóði í tryggingarkerfinu.

Þetta er það sem mér er efst í huga á þessari stundu, hæstv. forseti. Það er orðið áliðið dags og hér eru, eins og hv. flm. frv. gat um, fáir áheyrendur í salnum og það er dapurlegt að hugsa til þess. En við megum hins vegar ekki ætla mönnum að það sé af áhugaleysi, heldur gæti það frekar verið vegna þess að menn hafi kannski af eðlilegum ástæðum verið búnir að ráðstafa tíma sínum eftir kl. 5 í dag. Ég vil vera jákvæð og skýra málið frekar með þeim hætti.