17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

100. mál, sjóðir og stofnanir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Lagafrv. það sem hv. deild hefur fengið til meðferðar fjallar um svokallaða opinbera sjóði. Frv. var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt. Það er nú endurflutt með tveimur breytingum.

Hér er um nýsmíði að ræða í löggjöf, en lengi hefur þótt skorta samræmda löggjöf um þetta efni. Það hefur tíðkast um langan aldur að staðfesta skipulagsskrár opinberra sjóða og stofnana hér á landi og hefur vald þjóðhöfðingjans í því efni verið talið eins konar framlenging á valdi einvaldskonungs fyrr á tíð. Það hafa myndast um það í sögunnar rás verklagsreglur, hvaða skilyrðum skipulagsskrárnar þyrftu að fullnægja til þess að öðlast staðfestingu, en þær reglur styðjast ekki við lög.

Alþingi hefur fyrir nokkrum áratugum fest í lög reglur um reikningslegt eftirlit með fjármunameðferð umráðaaðila slíkra sjóða og það er góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Miklar breytingar hafa hins vegar átt sér stað í þjóðlífinu og verðmæti í sjóðum hafa raskast á ýmsan hátt, þannig að margir þeirra þjóna nú engum tilgangi og ákvæði skipulagsskráa þeirra um ávöxtun fjárins standast engan veginn. Þessu hefur þó ekki verið hægt að breyta sökum þess að lagaheimildir hefur skort til þess að breyta starfsgrundvelli sjóðanna til samræmis við breyttar aðstæður. Fé þeirra hefur í mörgum tilvikum rýrnað svo í hlutfalli við verðlag að þeir eru augljóslega vanmegnugir að valda verkefnum samkvæmt stofnskrá.

Reglum þeim sem mótaðar eru með þessu frv. er ætlað að gefa færi á að taka með raunsæjum og skipulegum hætti á þessum vanda, þannig að unnt verði bæði við stofnun sjóða af þessu tagi og á síðara stigi að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru. Ríkisendurskoðunin hefur farið með reikningslegt eftirlit opinberra sjóða og eru starfsmenn hennar þess mjög hvetjandi að lög verði sett um málefni þeirra. Þetta frv. er samið í samráði við Ríkisendurskoðun.

Ég sagði í upphafi að breytingarnar sem gerðar hafa verið á frv. frá þeirri gerð sem lögð var fyrir síðasta þing væru tvær.

Í fyrsta lagi hefur verið sett inn ákvæði um uppfærslu á lágmarksfjárhæð stofnfjár í sjóðunum í samræmi við verðlag. Í öðru lagi er nú lögð sú skylda á Ríkisendurskoðun að hún haldi sérstaka skrá um tekjur, gjöld, eignir og skuldir allra sjóða og að frjáls aðgangur sé að skránni. Ekki er gert ráð fyrir því að skráin verði birt á prenti en hins vegar varðveitt þannig, væntanlega á tölvuskrá, að hver sem þess óskar geti fengið upplýsingar um tekjur, gjöld, eignir og skuldir slíkra sjóða.

Í frv. eru e.t.v. ekki jafnítarlegar reglur um vörslu og starfsemi sjóðanna og víða tíðkast með öðrum þjóðum. En hér er um frumsmíði í löggjöf að ræða sem taka mætti til endurskoðunar eftir að reynsla væri fengin af framkvæmd laganna. Það er heldur ekki talið rétt að reyna að byggja upp umfangsmeira eftirlit með sjóðunum en hægt er að ráða við með óbreyttu starfsliði í viðkomandi stjórnsýslustofnunum ríkisins. Þess skal getið að víða um lönd hefur verið komið upp sérstökum stofnunum eða eftirlitsskrifstofum sem annast eftirlit með sjóðunum sem hafa fengið opinbera staðfestingu.

Frv. leiðir líka hugann að því að hér skortir almenna löggjöf um sjálfseignarstofnanir og félög sem ekki eru stofnuð til þess að hafa með höndum atvinnurekstur en hafa engu að síður með höndum ýmiss konar rekstur og starfsemi. Hver er ábyrgð félagsmanna í slíkum félögum á skuldbindingum sem félagsstjórn hefur tekist á hendur? Hver er t.d. fjárhagsleg ábyrgð hvers félagsmanns í stjórnmálaflokki, í Ferðafélagi Íslands eða í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur? Nýlega var á fundi í Lögfræðingafélagi Íslands nefnt sem dæmi að aðili sem hugðist fara í dómsmál við Stangaveiðifélagið hefði e.t.v. þurft að stefna öllum félagsmönnum þess til þess að þola dóm. Málið leystist hins vegar sem betur fer án málaferla svo það kom ekki til þess arna.

Ég er auðvitað kominn dálítið út fyrir framsögu fyrir frv. sem liggur fyrir en það leysir úr vanda sem að nokkru leyti er þessum skyldur.

Ég vona að frv. fái skjóta meðferð hér í deildinni og það verði afgreitt sem lög frá þessu þingi. Ég legg því til að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allshn. og 2. umr.