17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

100. mál, sjóðir og stofnanir

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna frv. sem lagt hefur verið fram um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Það er svo að ég hef um langan aldur haft með nokkra slíka sjóði að gera og það hafa satt að segja verið vandræði með þá oft og tíðum, bæði með hvernig eigi að ávaxta fé, eins og ráðherra kom réttilega inn á. Einnig ef þurft hefur að breyta þeim eða leggja niður. Oft er það svo að þeir hafa verið stofnaðir af miklum myndarskap fyrr á árum en síðan hefur eign þeirra orðið rýr og lítil og menn hafa orðið að halda inni smáupphæðum ár eftir ár þótt það hefði verið raunhæft að fella suma þeirra niður. Ég fagna því mjög þessu frv. og vona að það fái skjóta afgreiðslu eins og hæstv. ráðherra hefur komið inn á.

Hann ræddi einnig um sjálfseignarstofnanir. Mér er ekki ókunnugt um þær heldur. Ég held að það gegni töluvert öðru máli um þær því að það eru margar ágætar stofnanir sem eru sjálfseignarstofnanir. Ábyrgð þeirra, held ég megi segja, er yfirleitt nokkuð mikil að því leyti að allar þær sjálfseignarstofnanir sem ég þekki til hafa starfað mjög vel og haft sterka eiginfjárstöðu. Og þær hafa ekki verið þannig komnar að hætta væri á að þær gætu ekki greitt skaðabætur ef til þess kæmi.

Ég undirstrika það að ég fagna frv. og vona að það fái skjóta meðferð.