17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

42. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, við erum enn farin að fjalla um þennan gamla „uppvakning“ sem kemur með jöfnu millibili inn á Alþingi Íslendinga. Og þó að það hafi tekist fram að þessu að kveða hann niður bendir ýmislegt til þess, ef marka má þær skoðanakannanir sem er sagt að hafi farið fram, að nú eigi þessi ósköp yfir okkur að ganga ofan á annað böl sem leiðir af notkun vímuefna af ýmsu tagi.

Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu. Það hefur litla þýðingu. En ég er með í höndum skýrslu sem er samin af nefnd sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma til að gera úttekt á þessum málum og koma fram með tillögur til úrbóta, þ.e. að marka stefnu í áfengismálum þjóðarinnar. Þessi skýrsla mun hafa komið til alþm. — þegar hún kom út á sínum tíma sem þá voru hér. Í þessari nefnd voru mjög margir menn sem ættu að hafa og hafa eflaust mikla þekkingu á þessum málum. Því vil ég beina máli mínu til hæstv. forseta, þar sem hér er margt af nýjum þm., og óska eftir að séð verði um að þessi skýrsla komi á borð þm. áður en þetta mál verður útrætt á hinu háa Alþingi.

Ég ætla ekki að tefja tímann með því að lesa upp hverjir þetta voru. Ég treysti því að það verði orðið við þessari beiðni minni. En þessi nefnd starfaði í nokkur ár og ég ætla að lesa, með leyfi forseta, tvær til þrjár málsgreinar úr þessari bók sem hljóða þannig:

„Markmið laganna [þ.e. áfengislaganna] er að hafa heildarstjórn á áfengismálum og þannig að draga úr neyslu áfengra drykkja vegna þess heilsutjóns sem hún veldur og þess skaða sem hún getur valdið einstaklingum, fjölskyldum og þjóðfélaginu í heild. Í því er nauðsynlegt að fella undir ein samræmd lög öll ákvæði er varða innflutning, sölu og meðferð áfengis.“

Og svo segir hér í b-lið, áfengt öl: „Áfengismálanefnd ríkisstjórnarinnar er falið að gera tillögur í samræmi við markaða stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem er m.a. að minnka áfengisneyslu um fjórðung. Kemur því ekki til greina að bæta nýjum gerðum af áfengi við þær sem fyrir eru.“

Annað ætla ég ekki að lesa upp úr þessari bók, en endurtek beiðni mína um að það verði séð um að hv. alþm. fái hana til lestrar.

En ég er líka með opið bréf til ríkisstjórnar og alþm. um heilsuvernd og nauðsyn á að draga úr heildarneyslu áfengis. Bréfið hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heilsuvernd sem byggir á hollum lífsvenjum er grundvöllur heilbrigðis og langlífis. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt fram stefnuskrá þar sem bent er á markmið og leiðir til þess að stuðla að heilbrigði fyrir alla árið 2000. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt þessa stefnuskrá. Meðal þeirra markmiða sem stofnunin telur nauðsynlegt að ná er að fyrir þann tíma hafi allar þjóðir minnkað heildaráfengisneyslu sína a.m.k. um fjórðung. Ástæða þessa er að öll vandamál sem tengjast áfengi vaxa margfalt með aukinni heildarneyslu. Áfengissýkin er aðeins einn þáttur þessara vandamála. Aðrir sjúkdómar fólks á starfsaldri eiga að verulegu leyti rót sína að rekja til ofnotkunar áfengis. Sama er að segja um slys. Hvort tveggja veldur þjáningu og örorku, auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu og meiri dánarlíkum. Lítill vafi er á að aukin áfengisneysla á sinn þátt í vaxandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu á undanförnum aldarfjórðungi. Í umræðum um ólögleg vímuefni gleymist allt of oft að leggja áherslu á að áfengisnotkun er jafnan samfara notkun þeirra. Áfengisneysla er og í flestum tilvikum undanfari annarrar vímuefnanotkunar.

Félagslegar afleiðingar ofnotkunar áfengis eru ekki síður uggvænlegar og aukast einnig margfalt með vaxandi heildarneyslu. Hér má minna á vinnutap, heimilisböl ýmiss konar, svo sem hjónaskilnað, ofbeldi á heimilum, andlegar og líkamlegar misþyrmingar á maka og börnum. Enn fremur ber að minna á hættuna sem stafar af ölvunarakstri og ýmissi annarri óábyrgri hegðan sem leiðir af því að áfengi slævir dómgreind manna. Annað og oft óviðkomandi fólk getur þannig verið í verulegri hættu.

Sérstök ástæða er til þess að minna á að samfara ölvun er tíðni tilviljunarkenndra eða óráðstafaðra kynmaka mun meiri en ella. Af þessu kunna að hljótast alvarlegir sjúkdómar sem geta verið banvænir.

Með hliðsjón af framansögðu viljum við undirritaðir hér með skora á ráðherra og aðra alþm. að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr framboði áfengis og eftirspurn eftir því þannig að heildarnotkun þess minnki hér á landi í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Og hverjir haldið þið nú að skrifi undir þetta plagg? Það eru Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Ólafur Ólafsson landlæknir, Ásmundur Brekkan, forseti læknadeildar, Haukur Þórðarson, formaður Læknafélags Íslands, Björn Önundarson tryggingalæknir, Gunnar Þór Jónsson, prófessor í slysalækningum, Gunnlaugur Geirsson, prófessor í réttarlæknisfræði, Hjalti Þórarinsson, prófessor í handlækningafræði, Hrafn Tulinius, prófessor í heilbrigðisfræði, Tómas Helgason, prófessor í geðlæknisfræði, Þórður Harðarson, prófessor í lyflæknisfræði, og Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði.

Með þessu bréfi kom einnig tillaga frá aðalfundi Læknafélags Íslands 1987 sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlýsing um stuðning við opið bréf til ríkisstjórnar og alþm. um heilsuvernd og nauðsyn á að draga úr heildarneyslu áfengis.

Í desembermánuði 1986 sendu tólf læknar opið bréf til ríkisstjórnar og alþm. um ofangreind málefni. Í bréfinu er vísað til stefnuskrár Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 og sett fram rök fyrir nauðsyn minnkunar heildarneyslu áfengis. Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Reykjavík 21. 22. sept. 1987, lýsir fullum stuðningi við erindi tólfmenninganna og tekur undir áskorun þeirra til ráðherra og alþm. að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr framboði áfengis og eftirspurn eftir því þannig að heildarnotkun þess minnki hér á landi í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Ýmis önnur gögn hef ég í höndum og bréf frá ýmsum aðilum sem ég ætla mér ekki að eyða tíma til að lesa hér upp að öðru leyti en því að mér þykir réttara að lesa upp það sem hefur verið tekið upp af aðilum sem safna saman úrklippum um ýmis efni. Þessi ummæli komu fram í Morgunblaðinu fimmtudaginn 16. okt. 1987. Þau mælti Árni Einarsson. Ég tel áríðandi að þessi ummæli verði birt í þingtíðindum því þau eru þess eðlis þó ég hafi litla von um að það muni breyta mikið afstöðu hv. alþm. í þessu máli. Ég segi því miður. Með leyfi forseta hef ég lesturinn:

„Á undanförnum árum hafa lífleg skoðanaskipti verið um áfengan bjór hér á landi og fullyrðingar viðhafðar á bæði borð. Álitamálið er hvaða áhrif áfengur bjór hefur á áfengismál þjóðarinnar. Eykur bjórinn heildarneyslu áfengis? Eykst áfengisneysla unglinga? Aukast eða minnka vandamál vegna áfengis með tilkomu bjórsins? Endanleg svör fást auðvitað aðeins að fenginni reynslu, en um hana er sem sé ekki að ræða hér. Því er eðlilegt að litið sé til reynslu annarra þjóða, en ætla má að ekki sé ýkjamikill munur á okkur og t.d. frændþjóðunum annars staðar á Norðurlöndum.

Deila má um hvað mestu skiptir hvað bjórinn varðar, en ofarlega hlýtur að vera spurningin um hvort tilkoma hans muni auka heildarneyslu áfengis eða ekki. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin heldur því fram á grundvelli rannsókna sinna að aukin neysla áfengis sé ávísun á aukið heilbrigðislegt, efnahagslegt og félagslegt tjón. Þessu treysta fáir sér til að mæla á móti með rökum. Því ætti að vera ljóst að aukinni áfengisneyslu fylgir aukinn kostnaður fyrir þjóðina. Hafa verið leiddar að því líkur að margfalda megi hagnað af áfengissölu með 2 til 4 til þess að fá úr því skorið hvert tjónið er.

En eykur bjórinn áfengisneysluna? Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur á því engan vafa. En hvað um þá Íslendinga sem einkum hafa hönd á áfengismálapúlsinum starfa sinna vegna, svo sem lækna og lögreglumenn?

Lítum fyrst á þá sem standa að meðferð drykkjusjúkra. Jóhannes Bergsveinsson, yfirlæknir meðferðardeildar ríkisins fyrir áfengissjúklinga, segir í Morgunblaðinu 26. febrúar 1985:

„Reynsla annarra þjóða af því að leyfa sölu áfengs öls hefur hvarvetna orðið sú að það hefur leitt til meiri neyslu vínanda og aukins skaða af hans völdum.“

Jóhannes segir enn fremur: „Virka efnið í áfengi er vínandi og skiptir engu máli hvort um er að ræða brennda drykki, vín eða áfengt öl. Áhrif vínandans eru ætíð hin sömu.“

Í viðtali við Helgarpóstinn 31. jan. 1985 segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ: „Enda þótt dragi úr neyslu á sterku áfengi fyrst í stað mun heildarneyslan aukast.“

Þórarinn segir einnig í umræddu viðtali að hann sé sannfærður um að fjöldi þeirra sem þyrftu á aðstoð að halda vegna drykkju mundi aukast.

Unnið hefur verið að rannsóknum á áfengismálum hér á landi síðan 1967. Hæst ber þar rannsóknir á vegum Háskóla Íslands undir stjórn doktors Tómasar Helgasonar, prófessors í geðlæknisfræði og forstöðumanns geðdeildar Landspítalans. Tómas heldur því fram að neyslan muni aukast verði bjór leyfður í landinu. Það styður hann m.a. á eftirfarandi hátt í Morgunblaðinu 9. apríl 1986:

„Þjóðhagsstofnun hefur gert áætlun um hver áfengisneysla verði ef bjórstefnan verður ofan á. Í stað þess að minnka um fjórðung, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur nauðsynlegt, mun hún aukast um þriðjung. Slíkt væri mikið áfall, ekki aðeins fyrir heilsu Íslendinga heldur og fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina af því að Ísland, sem er þekkt velferðarríki sem ætti að vera auðvelt að upplýsa um heilsuvernd, yrði fyrsta ríkið til að ganga gegn stefnu stofnunarinnar.“

Höldum áfram með prófessorana. Í bók sinni Lyfjafræði miðtaugakerfisins, sem út kom árið 1984, segir doktor Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði:

„Ef lögleiða á neyslu áfengs bjórs hér verður það einungis gert vitsmunalega með því að hefta flæði annars áfengis þannig að heildarflæði aukist ekki. Þetta er meginatriði sem stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir, sem móta vilja skoðanir fólksins í landinu, skyldu síst gleyma.“

Þorkell telur það vera óskhyggju að bæta megi drykkjusiði Íslendinga með áfengum bjór eða draga með því úr neyslu annars áfengis. Hann segir: „Áfengur bjór er jafnskaðlegur og aðrar áfengistegundir.“

Almennir læknar þekkja áfengismálin vel ekki síður en þeir sem vitnað er í hér að framan. Jósep Ó. Blöndal, heilsugæslulæknir á Patreksfirði, segir m.a. í grein í Morgunblaðinu 21. maí 1985 og er þar að fjalla um reynslu sína af starfi við meðferðarstofnanir í Danmörku:

„En möguleikar manns til að halda sér þurrum, svo ekki sé minnst á hófdrykkju, þegar hann hverfur undan verndarvæng stofnunarinnar, eru hverfandi því bjórinn er alls staðar.“

Jósep segir einnig: „Um þrennt er ferill hins danska áfengissjúklings frábrugðinn ferli hins íslenska þjáningabróður hans. Hann drekkur svo til eingöngu bjór. Drykkjuskapur hans hefur og þróast á vinnustaðnum og erfiðleikar hans við að halda sér þurrum eftir meðferð eru miklu meiri vegna hins gífurlega framboðs á þessari lúmskustu tegund áfengra drykkja.“

Í erindi um daginn og veginn í Ríkisútvarpinu 29. apríl 1985 segir Pétur Pétursson, heilsugæslulæknir á Akureyri: „Það er hins vegar sannfæring mín að með tilkomu áfengs öls á borð og í búðir landsmanna muni áfengisneysla ungmenna og dagdrykkja þjóðarinnar aukast að miklum mun og vitna ég þar til reynslu Finna sem fyrir áratug rýmkuðu áfengislöggjöf sína. Jafnframt þessu munu Íslendingar að sjálfsögðu halda við hinum ævaforna þjóðlega sið að drekka sig æra af brennivíni um helgar, en þær geta raunar orðið ærið langar á stundum.“

Guðsteinn Þengilsson læknir er sama sinnis og framangreindir starfsbræður hans. Hann segir í Dagblaðinu 24. apríl 1985:

„Ekki hefur enn verið unnt að benda á það land í veröldinni þar sem sterkt öl hefur dregið úr áfengisneyslu heldur virðist það bætast við.“

Hann segir enn fremur: „Fróðlegt væri að heyra álit skattgreiðenda á því hvort þeir vilji bæta öldrykkju óviðkomandi fólks ofan á allt annað sem þeir verða að greiða í þessu sambandi.“

Að öðrum ólöstuðum þekkja lögreglumenn líklega einna best hverjum skráveifum áfengi veldur samfélaginu. Í tilkynningu Lögreglufélags Reykjavíkur, sem birtist í Morgunblaðinu 11. júní 1985, er réttilega að þessu vikið. Lögreglumennirnir fara ekki í grafgötur með áhrif bjórsins. Tæpast er umdeilanlegt að með tilkomu bjórsins muni neysla áfengis aukast og þar með eftirlitsþáttur lögreglunnar. Benda lögreglumennirnir á að allverulegur þáttur í starfi þeirra sé að leysa malefni sem tengjast notkun áfengis. Benda þeir einnig á að reynsla annarra þjóða sé sú að unglingar sækja í áfengan bjór sem þá verður viðbót við aðra neyslu áfengis.

Hér hafa lauslega verið tíunduð ummæli nokkurra þeirra sem ættu best að þekkja til áfengismála Íslendinga hver með sínum hætti og því geta þeir gert sér nokkra hugmynd um hver áhrif bjórs yrðu ef hann yrði leyfður hér. Bjórinn eykur heildarneysluna. Þessi niðurstaða þeirra hefur ekki verið hrakin með rökum, en óskhyggjan kemur málinu ekkert við. Til þess er of mikið í húfi. Getur verið að áhugafólk um áfengan bjór telji hann svo ómissandi að engu skipti þó áfengisneysla aukist og samfara því önnur vandræði vegna áfengisneyslu?

Ég sé það að hv. þm. flýja salinn þegar vitnað er í svona ummæli. Það eru ekki undur, a.m.k. ekki fyrir þá sem vilja stuðla að því að auka áfengisneyslu í landinu. Ég hafði samband við lækni, sem ég þekki vel, úti í Svíþjóð í gærkveldi og spurði hann hvað hann segði um bjórinn þar. Hann sagði að það væri ekki neinn vafi að bjórinn þar væri aðalslysavaldurinn á þjóðvegunum í Svíþjóð. Frá Finnlandi heyrir maður svipaðar sögur.

Á borðum þm. liggur frv. frá ríkisstjórninni sem má e.t.v. tengja þessum málum. Með leyfi forseta er 1. gr. þannig:

„Við 2. málsgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsl. svohljóðandi: Iðnaðarráðherra er jafnframt heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 3. tölul., enda standi sérstaklega á.“

Með þessu frv. á að heimila hæstv. iðnrh. að veita undanþágu frá skilyrðum í 4. gr. iðnaðarlaga um að meira en helmingur hlutafjár í iðnfyrirtækjum hér á landi skuli vera eign manna búsettra hér á Íslandi. Kannski við eigum að fá Carlsberg eða einhverjar aðrar verksmiðjur hingað til lands, að það sé það sem er verið að fara ofan á ýmislegt annað sem bólar á þessa dagana?

Herra forseti. Ég mun senn ljúka máli mínu. Ekki fyrir það að það væri af nógu að taka til að færa fram sem rök gegn því lítt hugsaða máli að bæta hér við bjór ofan á önnur vímuefni. Það er mikill ábyrgðarhluti af þeim sem að því ætla að standa. Ég vil segja að lokum að þeir sem vilja og ætla að standa að því að leyfa hér sölu á áfengum bjór ættu að hugleiða að ef hlutirnir ganga eins og t.d. þeir læknar, þeir sérfræðingar sem ég hef vitnað til, segja, sem er einnig reynsla annarra þjóða í þessum málum, þá er þeirra ábyrgð mikil. Og standa þessir menn undir þeirri ábyrgð? Því verður hver að svara fyrir sig. En þetta verður ekki síðasta orðið, jafnvel þó það sé leyfður bjór á Íslandi. Það á eftir að ræða um það á næstu árum, eins og hefur gerst í hinum löndunum sem hafa stigið það óheillaspor að leyfa bjór ofan á allt annað.

Hitt get ég tekið undir, að það er blátt áfram til skammar hvernig er staðið að þessum málum í sambandi við ferðamenn og aðra. Hv. alþm. ættu að manna sig upp og taka á þeim málum með öðrum tökum en gert er. En á mörgum málum í þjóðfélaginu eru vettlingatök. Ég ætla ekki að benda á það í þessu sambandi, en ég á eftir að gera það.