17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

42. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa að einu leyti gerst alveg einstakir atburðir. Það voru sannanlega eftir talningu þegar þessi umræða hófst þrír flm. frv. hér inni og hæstv. iðnrh. lýsti því yfir að hann væri fullmektugur fulltrúi flm. Ég verð að fara fram á við forseta að þessir menn séu kallaðir inn. Það er nefnilega alveg einstök ósvífni að telja sig yfir það hafinn að þurfa að gera grein fyrir máli sínu. Það er varpað spurningum til þessara manna. Það fást engin svör. Það er bara flótti úr salnum. Það er þó einn maður sem verst. Það er hægt að virða slíkt. (Forseti: Ég vil segja hv. ræðumanni að hv. 13. þm. Reykv. kom að máli við mig áðan og þurfti að víkja úr salnum af persónulegum ástæðum sem eru óviðráðanlegar.) (SvH: Hvaða persónulegu ástæður taka menn yfir þingfund? Þú verður að vita það.) (Forseti: Ég veit það. Það voru ástæður sem ég tók fullkomlega gildar og hafa ætíð verið teknar gildar hér.) Herra forseti. Við erum einnig alveg sáttir við að taka persónulegar ástæður gildar og fresta umræðunni og fá manninn til að svara, en við erum ekki sammála því að menn leggi á flótta á harðahlaupum út úr þingsalnum og komi sér undan því að gera grein fyrir máli sínu. Það getur orðið heldur ófriðvænlegt ef það eru vinnubrögðin sem á að taka upp og ég óska skýrra svara frá hæstv. forseta í þessum efnum. Er hæstv. iðnrh. þá til staðar til að gera grein fyrir þeirri greinargerð sem hér hefur verið kynnt sem svo vitlaust plagg að það megi lesa hana aftur á bak? (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að aðrir flm. komi í salinn og mun freista þess að kalla þá að beiðni ræðumanns hingað.) Það er rétt að ég geri örlítið hlé á ræðu minni og fái við því skýringar hvort eitthvað af því liði mætir.

Það er til þess að nota tímann rétt að ég byrji á að víkja orðum mínum til þess ræðumanns sem ég virði fyrir það að hann hefur tekið einarða afstöðu til að standa með því máli sem hann hefur skrifað upp á. Það er hv. 5. þm. Vesturl. Auðvitað er það virðingarvert. Hann hefur staðið upp og haldið því fram að það hefðu engin rök komið fram héðan úr ræðustól af þeim mönnum sem hafa talað gegn málinu. Menn hafa líka sagt hér: Það hafa engin rök komið af viti með þessu.

Í fyrsta lagi taldi hann mjög ósmekklegt af minni hendi að minnast á atburð á knattspyrnuvelli og ég gat ekki annað skilið en hann fullyrti að ekki leikmenn heldur áhorfendur hefðu þar allir verið ódrukknir. Ég gat ekki skilið á annan veg. Að mínu viti gerast þau undur almennt ekki að svo stór hópur komi saman að þar sé enginn undir áhrifum. Mér hafði verið sagt frá þessum atburðum á annan veg. Nú er þetta þó nokkuð langt í tíma og rúmi frá okkur og ég ætla ekki að gera þetta að aðalatriði þessa máls. Hins vegar finnst mér það merkilegra en allt annað, sem hér hefur komið fram, þegar menn standa upp og vilja halda því fram að við fáum aldrei nein svör við þessu nema reyna þetta. Eini möguleikinn til að fá svör við því hvað muni gerast sé að prófa þetta. Þetta má vera merkileg þjóð á marga vegu. En við skulum gera hér örlitla skoðanakönnun.

Það var varpað kjarnorkusprengju á sínum tíma á Hírósíma og afleiðingarnar voru ægilegar. Efar það nokkur að geislavirkni verki eins á Íslendinga og Japani? Er nokkur hér inni sem efar að geislavirkni verki eins á Íslendinga og Japani? Það er ekki einu sinni nein athugasemd úr hornstólnum, sem er skiljanlegt því þar er enginn staddur eins og er, og aðrir hugleiða málið.

Við getum tekið fleira fyrir og spurt: Verkar það öðruvísi? Verka reykingarnar eitthvað öðruvísi á Íslendinga en aðrar þjóðir? Ekki er það komið fram. Við erum nú einu sinni komnir frá Norðurlöndum og Írlandi að ætt og uppruna. Hvaða breyting skyldi hafa orðið á þessum kynstofni í þessu landi á þessu tímabili sem gerir það að verkum að ekki sé sennilegt að við munum bregðast svipað við og þessar þjóðir? Engu að síður er blákalt sagt við okkur að það sé raunverulega ekki hægt að öðlast þessa reynslu. Auðvitað er óbeint verið að segja við þá menn sem eru ekki neytendur víns: Þetta er hlutur sem þið getið ekkert talað um. Þið hafið aldrei drukkið ykkur fulla. Það er alveg eins hægt að segja við mig: Þú veist ekkert um saltsýru. Ég hef aldrei drukkið hana.

Þessi rök ganga ekki upp. Það blasir við að allt skólakerfið byggir á því að reyna að yfirfæra reynslu ákveðinna manna og þekkingu yfir til æskunnar til þess að hún þurfi ekki öll að upplifa þessi reynsluskeið. Hitt er út af fyrir sig hárrétt hjá hv. 5. þm. Vesturl. að það er ekki samræmi í því að banna sölu á bjór í áfengisverslunum landsins og leyfa innflutning með farþegum og með starfsmönnum hjá flugfélögum eða á millilandaskipum þó með takmörkunum sé. Það er ekki samræmi í þessu. Hins vegar þýðir honum alls ekki að snúa sér að þeim sem nú tala gegn og skamma þá prívat og persónulega fyrir að þetta samræmi er ekki. Það er málflutningur sem einfaldlega gengur ekki upp. Hann hefur ekkert fyrir sér í því að þessir menn vilji hafa þetta á þennan veg. Og það hefur komið hér fram að menn eru reiðubúnir að skoða það að breyta þessu.

Ég aftur á móti vil halda öðru fram, að jafnvel þó að við tækjum okkur til og segðum við farmenn: Þið megið þetta ekki, og einnig við áhafnir á flugvélum, þá yrðu til menn sem segðu: Það er ekkert samræmi í íslensku áfengislöggjöfinni. Þið leyfið sterka drykki, en þið leyfið ekki veika. Þessi málflutningur um skort á samræmi hefur dunið á mönnum svo lengi sem þessi umræða hefur staðið og hann mun endalaust dynja á mönnum. Það er alltaf hægt að koma hér upp. Það seinasta var að draga upp konfektmola og segja: Í þessum konfektmola er koníak. Ég ætla ekki að rengja það.

Spurningin er: Hefur einhver af þeim sem hafa talað á móti þessu frv. haldið því fram að þessir gagnrýnisþættir, sem 5. þm. Vesturl. vakti athygli á, séu til fyrirmyndar og þannig eigi þetta að vera? Ég veit ekki til þess. Hann segir að það verði þá að efla löggæsluna og lögregluna. Hvað hyggur hann að það þurfi að efla löggæslu mikið á Íslandi til að koma í veg fyrir að það verði aldrei framið morð í landinu? Hefur hann hugleitt þetta? Hvað hyggur hann að það þurfi að efla hana mikið til að það verði aldrei smyglað flösku af víni inn í landið? Hefur hann hugleitt þetta? Sennilega mundi það ekki duga til, það er alvarlegast af því öllu, þó að við settum allt liðið í þetta. Nei, þessi rök halda ekki heldur, því miður.

En hann fór að einu leyti snilldarlega í þessa yfirferð sína því að hann afgreiddi með einni setningu allt það lið sem menn hafa verið að kalla hér fram og talið að mest væri mark takandi á, þ.e. læknana. Hann orðaði þetta eitthvað á þann veg að þeir yrðu að sjálfsögðu að koma með þessar tillögur. Þetta væri nánast hluti af þeirra starfi, embættisleg skylda nánast að taka svona á málinu. (Forseti: Ég vil geta þess í sambandi við flm. þessa máls að þeir munu vera viknir úr húsinu og næst ekki til þeirra að sinni. Þar sem enn eru tveir á mælendaskrá mun þessari umræðu verða frestað kl. 5, en að sjálfsögðu er ræðumanni heimilt að nota tímann þangað til hvort sem hann lýkur máli sínu eða ekki.)

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með það sem ég var með. Hann orðaði þetta á þann veg að það væri nánast skylda þeirra að gera grein fyrir því hverjar afleiðingarnar yrðu, þ.e. læknastéttarinnar. Ef við höfnum því að taka mark á áliti okkar lærðustu manna á þessu sviði, manna sem hafa meiri þekkingu en flm., margfalt meiri þekkingu en ég, ef við ætlum að hafna því að taka mark á þessum mönnum er mér spurn: Í smiðju til hvaða sérfræðinga gengu þessir menn? Var þetta andlegur innri innblástur sem kom yfir þá á stjörnubjartri vetrarnóttu eða hvaðan komu sérfræðingarnir sem sögðu þeim hið eina sanna, sögðu þeim sannleikann, hvað væri rétt í þessu máli? Hvaðan eru upplýsingarnar komnar? (Gripið fram í.) Ég tel að það sé skylda flm. að upplýsa þá þingheim um hvaðan þeim komi sérfræðivitneskjan ef þeir vita svo miklu betur en allir þeir sem eru álitnir sérfræðingar á þessu sviði.

Herra forseti. Ég var búinn að varpa fram mjög mörgum spurningum til 2. flm. þessa máls og vænti þess að hann svari þeim og ég ætlast til þess að því verði komið til skila til hv. 17. þm. Reykv. að það eru almennar venjur í þingsölum að menn svari athugasemdum við frv. þegar þeir eru flm. að þeim og athugasemdir koma fram.

Umræðu frestað.