18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hvert skref sem stigið er á hinu háa Alþingi í átt til aukins jafnréttis karla og kvenna er þýðingarmikið fyrir okkar litla þjóðfélag. Íslendingar eiga að sýna sem víðast í verki að þeir gangi á undan í jafnréttismálum. Þetta á að eiga við á öllum sviðum þjóðfélags okkar, ekki síst í atvinnulífinu og ekki síður við skipan nefnda og stjórna opinberra aðila.

Leiðir að marki jafnréttis eru hins vegar margar og misgreiðfærar og menn eru ekki á eitt sáttir hvaða leiðir á að fara. Það frv. sem hér er á dagskrá ber vott um meira kapp en forsjá og jafnvel vantrú á þann málstað sem mælt er fyrir. Engu að síður undirstrikar það vaxandi kröfur um jafnrétti. Með breyttum þjóðfélagsháttum, aukinni þjónustu á sviði dagvistunar og skólamála hafa konur sótt meira á vinnumarkaðinn og þá ekki síst í þjónustu og opinbera stjórnsýslu þar sem vöxtur hefur orðið hvað mestur í atvinnulífinu.

Frv. gerir ráð fyrir því að settur sé kvóti á kjör í nefndir, ráð og stjórnir. Kvótasetning í þessum efnum er óeðlileg og get ég ekki fallist á slíka lagasetningu. Ég tel hana ekki þjóna tilgangi jafnréttis og muni skapa meiri vanda en þann sem henni er ætlað að leysa. Kjör í nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga, sem eiga að ná til verkefna ákveðinna svæða, valda oft vandkvæðum. Við kjör í slík ráð þarf að gæta margs konar jafnvægis sem ég tel ekki líklegt að Jafnréttisráð eigi hægt með að meta ef máli er skotið til þess svo sem frv. gerir ráð fyrir að gert sé.

Engu að síður er það skoðun mín og það vil ég ítreka að í fulltrúavali sem öðru á að gilda jafnrétti svo sem fært er, en jafnrétti næst ekki með því einu að tryggja ákveðna skiptingu kynjanna sem hér er gert ráð fyrir. Það sem gildir er uppeldi á heimilum og í skólum, uppeldi sem virðir rétt beggja kynja og kveður niður fordóma og forneskju í verkaskiptingu kynjanna og starfsvali. Í því bæjarfélagi sem ég þekki best til í hefur ekki þurft kvóta til þess að konur næðu því að verða í meiri hluta í bæjarráði og í forustu í atvinnulífinu á staðnum.

En í þessum málum sem öðrum vinnur tíminn með okkur og með virku og jákvæðu starfi Jafnréttisráðs má ná árangri við það að rétta hlut kvenna fremur en með lagasetningu svo sem frv. gerir ráð fyrir.