18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ljóst að ég hef misskilið hv. þm. Láru V. Júlíusdóttur, hennar orð við fyrri umræðu. Ég tók þannig eftir að hún væri ekki að mæla með breytingu á lögum, en það hefur komið enn skýrar fram í hennar máli að hún telur þörf á því til að styðja við breytingar til bóta varðandi stöðu kvenna í nefndum og ráðum. Ég held að það sé í öllu falli ekki okkar á milli neinn ágreiningur um markmið og eins og ég sagði í framsögu fyrir þessu máli er sjálfsagt að leita þeirra leiða sem vænlegastar þykja og ég sem annar flm. þessa máls er fyllilega reiðubúinn að hlusta á önnur sjónarmið. Aðalatriðið er að sem fyrst verði breyting til bóta í þessum efnum.

Það má vera að sá árangur sem náðst hefur í Danmörku með þeirri reglu sem hv. þm. nefndi í sínu máli geti skilað sér. Ég tel hins vegar að við höfum ekki langan tíma til að tryggja þarna umtalsverðar breytingar og þess vegna er frv. sniðið með þeim hætti sem hér liggur fyrir.

Ég vil líka vegna orða hv. þm. Láru V. Júlíusdóttur nefna að ég tel að það verði engin vandkvæði á að manna þær nefndir með þessu hlutfalli sem þarna um ræðir. Hæfar konur eru að sjálfsögðu jafnmargar og karlar til þess að skipa þar sæti. Um það getur varla verið ágreiningur.