18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þetta frv. er eitt mesta vantraust á íslenska þjóð sem ég hef séð. Það er vantraust á þjóð sem hefur kosið sér forseta sem er kona. Það er vantraust á sveitarstjórnir út um allt land. Það er vantraust á nefndir og ráð. Nema þá hugsunin sé þveröfug og að hv. 1. flm. hafi horft á það með slíkri skelfingu að konum fjölgaði í nefndum og ráðum að hann hafi hugsað sér sem hershöfðingi að verjast við 40%.

Átta menn sig ekki á því hvílík forsjárhyggja liggur í þessu? Skilja menn ekki hvílíkur sjálfsrembingsháttur er á bak við þá hugsun að ætla að fara að segja öðrum fyrir verkum eða hafa menn ekkert áttað sig á því hvaða þróun er að eiga sér stað í íslensku samfélagi? Sem betur fer þróast hér allt í átt til jafnréttis milli kynja og aðalatriðið í þeim efnum er hvað gerist í íslenska skólakerfinu. Svo einfalt er það.

Á þeim tíma þegar miklu færri konur fóru til mennta var hlutur þeirra miklu minni í valdakerfi landsins. Núna er svo að það stunda fleiri konur nám í menntaskólum en karlar. Á fyrsta ári í Háskólanum eru fleiri konur við nám en karlar. Ég fæ ekki betur séð en sú eðlilega þróun muni gerast að um leið og þeim fjölgar í ýmsum þeim stéttum sem hafa krafist mikillar menntunar muni allt útlit vera fyrir að án þess að á niðurlægjandi hátt geti einhver staðið hér upp, barið sér á brjóst og sagt: Það er mér að þakka að það eru konur komnar í svona margar nefndir og svona mörg ráð, þá gerist þetta af sjálfu sér.

Ég verð að segja eins og er að mig undrar sú forsjárhyggja að ætla að hafa vit fyrir öllum öðrum í þessum efnum eins og hér birtist. Auðvitað hlýtur annaðhvort að vera frjáls kosningarréttur í þessu landi og frjáls ákvörðun þeirra sem kjöri ná til að stjórna eða að menn eru með þessu móti að leggja til að hann skuli bundinn eftir ákveðnum formúlum og það alvitlausasta sem mönnum gæti dottið í hug væri að binda hann eftir prósentum.

Ég verð að segja eins og er að það er margt sem menn vilja vinna sér til frægðar til að geta auglýst sín afrek í blöðum og annars staðar og þetta er ágætt dæmi um sjálfbirgingshátt í þá áttina að vilja með einhverju móti gerast senuþjófur í þeirri þróun sem er að eiga sér stað, auglýsa sjálfa sig sem einhverja sérstaka postula í jafnréttismálum þrátt fyrir að enginn maður hafi orðið var við að svo sé í raun og veru.

Ég er hissa á því að menn flytji svona frv. og lýsi með því vantrausti á Íslendinga eins og hér er verið að gera. E.t.v. er svo langt á milli þeirrar hugsunar sem ætlar mönnum, ef þeir eru kjörnir til einhverra starfa, að þeir eigi að starfa eftir eigin dómgreind og þeirrar hugsunar sem ætlar mönnum að hafa skriflegan leiðarvísi laga yfir sér til eftirlits í ákvarðanatöku. Kannski er svo langt á milli að ég get ekki skynjað hvað býr á bak við jafnfáránlegan tillöguflutning.