15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þessar umræður hafa að vísu farið vítt og breitt og kannski eðlilega vegna þess að hér er um viðamikið mál að ræða. En út af orðum hv. síðasta ræðumanns er kannski ástæða til að spyrja: Studdi þáv. hæstv. ráðh. þessa till. stjórnarandstæðings sem þá var á sínum tíma? Fyrst hann er svona áfjáður í að koma till. fram nú er ástæða til að spyrja um þetta. Nóg um það.

Ef ferðamálaiðnaður á að byggjast upp með eðlilegum hætti, og þá á ég kannski ekki síst við Vestfirði, er augljóst að þar duga ekki hin hefðbundnu framlög á fjárlögum.

Á sl. sumri var haldin ferðamálaráðstefna, að ég held á Austurlandi. Nú leiðréttir mig einhver ef hann veit betur. Þar var rætt um ferðamálin í landinu og væntanlegan uppgang ferðamálaiðnaðar. Í þeim umræðum höfðu menn gleymt Vestfjörðum. Vestfirðir voru ekki á dagskrá í þeirri umræðu að byggja upp ferðamannaiðnað, enda er það ljóst að ef slíkt á að gerast þarf nokkra tugi millj. ef ekki hundruð millj. til uppbyggingar á Vestfjörðum í tengslum við ferðamál, samgöngur og annað til þess að slíkt verði að veruleika.

Ég hef ekki á móti þessari till., síður en svo. Margar þáltill. hafa verið fluttar hér og samþykktar og það hefur ábyggilega svo árum skiptir liðið síðan ef ekki áratugir og ekkert verið hreyft við að gert væri. Þannig er það í mínum huga hálfgerð sýndarmennska að flytja tillögur af þessu tagi ef menn sjá fyrir að viðkomandi stjórnvöld vilja ekkert gera í þeim efnum sem málið fjallar um. Ég held að það þurfi að verða sinnaskipti hjá þm. almennt bæði að því er varðar stjórnarandstöðuþm. og stjórnaraðstöðuþm. í þessum efnum. Það verður að taka betur til hendinni, ekki með sýndarflutningi tillagna á Alþingi heldur verður að ákvarða með löggjöf og fylgja henni eftir hvernig þessum málum á að haga.

Það er lítið vit í því að mér finnst og lítið mark á takandi að fyrrv. hæstv. ráðherrar komi hér upp nú sem óbreyttir þm. og heimti til þingsins þáltill. sem voru til umræðu áður, en þeir greiddu kannski atkvæði gegn þeim af því að þeir voru þá ráðherrar. Það eru auðvitað óforskömmulegheit ef slíkt á sér stað. Þannig eiga þm. ekki að vinna. Það verður að taka mark á þm. sem kjörnir eru á löggjafarsamkomuna, hvort sem þar er um að ræða stjórnarandstöðuþm. eða stjórnarliða. Það verður að vera mark á því takandi hvað menn segja bæði fyrir og eftir. Það er það eina sem gildir og það er ábyggilega það eina sem kjósandinn í þessu landi mun taka eftir.